17.12.1984
Neðri deild: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

Um þingsköp

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Mér finnst það ekki góð vinnubrögð, reyndar makalaus vinnubrögð, þegar hér er búið að standa þing í nokkra mánuði, meira og minna á lausagangi, deildarfundum hefur verið slitið á miðjum degi, að þá sé málum dengt inn á síðustu sólarhringum. Þess vegna hlýt ég að ítreka fyrir mitt leyti þær spurningar sem hér hafa komið fram um hvers vegna þetta tiltekna mál t.d. sé drifið áfram á þennan hátt. Ég vil vekja athygli á því að við höfum síðustu klst. verið að afgreiða mál, sem eru í öng, sem er óumflýjanlegt að afgreiða, miðað við áramót. Það er ekki neitt sem ég fæ séð í umræddu frv. um Háskóla Íslands sem er svona tímabundið. Ég sé því enga ástæðu til þess að drífa þetta mál hér áfram. Ég hef raunar ástæðu til að ætla að um þetta mál sé ágreiningur, t.d. í Háskólanum, og ég held að það ætti að fá miklu meiri umræðu en verður hægt hér á örfáum dægrum. Það eru í þessu frv. ýmis merkileg nýmæli, t.d. varðandi þróunarstofnun Háskólans. Það er talað þar um framleiðsluleyfi og þess háttar. Þetta eru hlutir sem eru algjörlega óútkljáðir í íslenskri löggjöf og ég tel mesta óráð að drífa málið svona áfram.