17.12.1984
Neðri deild: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

214. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þetta frv. er hv. þm. kunnugt.

Það komu fram í n. fsp. um hversu hárri upphæð uppsafnaður söluskattur í sjávarútvegi næmi og nemur hann um 540–550 millj. kr. Ástæðan fyrir því að sú upphæð hefur hækkað svo mjög er sú í fyrsta lagi að þessi uppsafnaði söluskattur var vanáætlaður í fjárlagafrv. þar sem hann var áætlaður 380 millj. kr., en vegna breyttra verðlagsforsendna sem nú liggja fyrir má ætla að að þess vegna þurfi að verja til hans 450 millj. kr., eins og segir í frv.

Í öðru lagi var ekki gert ráð fyrir jafnmikilli loðnuframleiðslu og raun ber vitni, en loðnuverksmiðjur greiða mun hærri söluskatt en aðrar greinar sjávarútvegs.

þriðja lagi hækkar söluskatturinn vegna þeirrar hækkunar sem felst í þessu frv. úr 23.5% upp í 24%. Spurt var með hvaða hætti þessi söluskattur yrði endurgreiddur sjávarútveginum. Ég hygg að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um það, en mjög hefur komið til tals að það verði gert með tvennum hætti. Annars vegar verði sérstaklega endurgreitt til fiskimjölsverksmiðjanna af þeirri ástæðu, sem ég sagði fyrr, að þær greiða hærri söluskatt en aðrar greinar sjávarútvegs, en aðrar greiðslur renni í gegnum Aflatryggingasjóð og þá með þeim hætti að greiddar verða uppbætur á fiskverð sem kemur að sjálfsögðu fiskvinnslunni til góða með lægra fiskverði.

Spurt er hvernig söluskatturinn sé fundinn. Þjóðhagsstofnun hefur gert áætlun um hversu hárri upphæð hann nemur og er hún fundin þannig að teknir eru heildarreikningar allra þeirra vinnslu- og veiðigreina sem Þjóðhagsstofnun gerir áætlun fyrir og síðan er gerð gjaldasundurliðun skv. ársreikningum, en fyrir liggur hvaða útgjaldaliðir eru með söluskatti. Þessi upphæð er síðan færð til verðlags fjárlagafrv. Þar er annars vegar um beinan söluskatt að ræða sem fyrirtækin greiða sjálf og hins vegar uppsafnaðan söluskatt sem fyrirtækið greiðir með öðrum og óbeinum hætti. Þessi aðferð er hin sama og lögð er til grundvallar varðandi endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti í iðnaði. Á þau vinnubrögð hefur fengist nokkur reynsla í áranna rás og sami maður hefur reiknað út uppsafnaðan söluskatt sjávarútvegsins og iðnaðarins.

Ég vænti þess að þetta sé fullnægjandi skýring. Meiri hl. n. lagði til að frv. yrði samþykkt. Tveir þm. úr meiri hlutanum hafa þó fyrirvara, hv. þm. Friðrik Sophusson og Páll Pétursson, en minni hl. leggur til að frv. verði fellt.