17.12.1984
Neðri deild: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

214. mál, söluskattur

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég hef upplýst hér í kvöld hver uppsafnaður söluskattur sjávarútvegsins er skv. nýgerðri áætlun Þjóðhagsstofnunar og þarf ekki að endurtaka það. Vinnu við þessa áætlanagerð var ekki lokið fyrr en nú undir kvöldið og þessar tölur eru þær nýjustu og haldbestu sem við eigum völ á.

Eins og hv. síðasti ræðumaður gat um skrifaði ég undir nál. meiri hl. með fyrirvara. Ég fylgi þessu máli þar sem ekki náðist samkomulag um að afla ríkissjóði þessara tekna með öðrum hætti. Mér þykir söluskattur vissulega afleitur gjaldstofn. Hann skilar sér illa í verðbólgu og í öðru lagi eykur hann á dýrtíð þar sem hann fer beint út í verðlagið. Það fer meira út í verðlagið, að minni hyggju, en það sem kemur í ríkissjóð.

Hins vegar þarf ríkissjóður á tekjum að halda. Við erum þessa dagana að afgreiða fjárlög. Við þurfum á öllum tekjumöguleikum að halda til að afgreiða fjárlög með sæmilegum hætti og það er mjög mikill neyðarkostur að afgreiða fjárlög með verulegum halla. Ég er og var fús að athuga aðra tekjustofna og þarf enda hugsanlega síðar á því að halda. Ég er tilbúinn að hugleiða eignarskatt. Ég er tilbúinn að hugleiða hærri skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði en þá prósentu sem við höfum komið okkur saman um að afgreiða hér í dag. Fleiri skattstofna kynnu menn að finna og geta orðið sammála um.

Um þessa hækkun á söluskatti náðist samkomulag og þó ég sé ekki ánægður með þessa skattheimtu stend ég að henni og ber að sjálfsögðu fulla ábyrgð á henni eins og aðrir stjórnarsinnar. Ég vil að það komi skýrt fram að ég er ekki að skjóta mér undan ábyrgð á því að þessi söluskattshækkun varð að ráði. Ég sé á henni galla, en ég tek fulla ábyrgð á hækkuninni eins og aðrir stjórnarþm.