17.12.1984
Neðri deild: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

214. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykn. hefur gert grein fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn. þessarar deildar sem ég stend að, og hef ég ekki mörgu við það að bæta, en vildi fara nokkrum orðum almennt um þessi mál því það er mikil skattsúpa sem verið er að rusla hér í gegn núna í kvöld og kannske ekki svo nauið fyrir mig frekar en hæstv. menntmrh. hvort það er nákvæmlega dagskrármálið sem verið er að ræða um. Það er búið að vera skattahækkunarfundur í allan dag, samfelld og stöðug skattahækkunarráðstefna ríkisstj., og þess vegna ástæða til að taka fyrir hin ýmsu mál, skattamálin sem hér hafa verið til meðferðar. Það er náttúrlega kórónan á sköpunarverkinu sem við erum núna að horfa á og hér er til meðferðar, þ.e. sú söluskattshækkun sem ríkisstj. var að bögglast með í nokkra mánuði. Síðan gerðist það að þeir sóru af sér einn af öðrum að það kæmi til greina að hækka skatta. Formaður Sjálfstfl. hreytti því út úr sér við Morgunblaðið að þetta væri ekki sitt mál. Hefur hann í annan tíma ekki heyrst byrsta sig annað eins og í það skipti og vakti það mjög mikla athygli þegar hann sagði sig í orði þá frá skattastefnu ríkisstj. Hins vegar hefur hann svo skrifað upp á þetta frv. fyrirvaralaust, haft kjark til þess eins og hv. þm. Halldór Blöndal að kannast við afkvæmið, og ber að hrósa þeim félögum fyrir það. Er það nú eitthvað annað en þeir frændur úr Húnaþingi, hv. 2. þm. Norðurl. v. og hv. 2. þm. Reykv., sem eru að ræflast við að skrifa undir þetta með fyrirvara, og ganga þeir nú almennt undir nafninu Fyrirvararnir í þingsölum, — þeir frændur Fyrirvararnir er stundum sagt í léttum tón manna á meðal, enda nokkuð liðið á kvöld.

Hv. þm. Páll Pétursson, sem mælti fyrir fyrirvaraliðinu áðan, lýsti því yfir að hann teldi þetta vera vondan skatt og vitlausan í alla staði og hann væri tilbúinn til þess að bæta stöðu ríkissjóðs með öðrum hætti. Þó hefur hann staðið að því hér ásamt öðrum stjórnarþm. í kvöld og í nótt að fella tillögur um hækkun á skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. En það væri fróðlegt að vita núna og ég vil leggja þá fsp. fyrir hv. þm. Pál Pétursson: Hvaða skattahækkunartillögur voru það sem ríkisstj. var búin að samþykkja eða Framsfl. sérstaklega, en síðan urðu ekki að veruleika vegna ágreinings á milli stjórnarflokkanna? Hvaða tillögur voru það nákvæmlega sem Framsfl. vildi samþykkja í skattahækkunarátt? Ég held að óhjákvæmilegt sé að það komi fram í þessari umr., þannig að kanna megi til þrautar hvort meiri hl. getur reynst á Alþingi fyrir því að afgreiða ríkissjóð með skaplegri hætti en mér sýnist standa til hjá þeim stjórnarliðum.

Í grg. þessa frv. á bls. 2 er setning sem á skilið að lifa í bókmenntunum vegna þess að hún er alveg sérstaklega athyglisverð og um leið hógvær. Það er þessi taóíski stíll sem stjórnarliðið temur sér gjarna, einkum hæstv. iðnrh. eins og kunnugt er. Hér stendur, með leyfi forseta, eftirfarandi:

„Frv. þetta er lagt fram til tekjuöflunar í því skyni að minnka fjárhagsvanda ríkissjóðs, sem enn er nokkur, þrátt fyrir það átak sem gert hefur verið til þess að draga úr útgjöldum ríkisins.“

Nú liggur það fyrir að útgjöld ríkisins á næsta ári verða að raunvirði hærri en þau hafa verið um langt árabil skv. upplýsingum sem hv. þm. Geir Gunnarsson kom fram með við 2. umr. fjárlaga. En ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hver er vandi ríkissjóðs? (Gripið fram í: Peningaleysi.) Peningaleysi, það er nákvæmlega það. Hversu mikið er peningaleysið og hvernig á að brúa það bil sem bersýnilega verður á tekju- og gjaldahlið ríkissjóðs? Er ætlunin að taka erlend lán og hve mikið? Ætlar Jóhannes Nordal í Seðlabankanum að lána ríkissjóði? Hversu mikið ætlar hann að prenta af seðlum fyrir ríkissjóð? Það væri fróðlegt að fá um þetta upplýsingar vegna þess að við erum að ræða mál sem byggt er á þeim rökum að það þurfi að minnka vanda ríkissjóðs. Það er tillagan að minnka þurfi og draga úr vanda ríkissjóðs, hins auma ríkissjóðs, það þurfi að gera átak í þeim efnum. Þess vegna er þetta makalausa frv. hér flutt. Og ég spyr: Hver er vandinn? Vill hæstv. fjmrh. svara því hér á eftir. Ég vænti að hann geri það.

Ég vil einnig endurtaka spurningu mína til hv. þm. Páls Péturssonar: Hvaða skattstofnar eru það sem Framsfl. er tilbúinn til þess að standa að að leggja á eða hækka? Ég tel enga ástæðu til að þessari umr. ljúki fyrr en þær upplýsingar liggja fyrir, þannig að það megi koma fram hvaða þingflokkar það eru sem vilja ganga í að reyna að brúa bilið hjá hæstv. fjmrh. (Gripið fram í: Er ekki allur Framsfl. með fyrirvara?) Það er spurningin líka hvort það er allur Framsfl. sem er með fyrirvara. Það er t.d. bara þriðjungurinn af Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. Nd. sem er með fyrirvaraveikina. En kannske er það gjörvallur Framsfl. eins og hann leggur sig. Það skyldi þó ekki vera að þeir væru almennt með fyrirvara við þetta stjórnarsamstarf. Það er kominn tími til að þeir settu fyrirvara við forsætisráðherrastólinn. Og gaman væri að vita hvort þingflokkur Framsfl. hefur samþykkt þann fyrirvara sem hv. þm. Páll Pétursson var að gera grein fyrir áðan. Stendur þingflokksfundarsamþykki á bak við þennan fyrirvara? (Gripið fram í: Nei.) Nei, það er ekki. Hv. þm. er kannske bara í minni hluta með fyrirvarann. Getur verið að hann hafi verið borinn atkvæðum, en samt sem áður sýnt af sér þá sjálfstæðu afstöðu að burðast upp í ræðustólinn með fyrirvarann eins og hann gerði áðan? Skyldi það vera að hv. þm. Páll Pétursson sé almennt að reyna að setja fyrirvara og spurningarmerki við þessa ríkisstj.? Það skyldi þó aldrei vera.

Hv. þm. Halldór Blöndal svaraði að nokkru þeim spurningum sem fram voru lagðar varðandi uppsafnaðan söluskatt í sjávarútvegi og kann ég honum þakkir fyrir. En í sambandi við þessa söluskattshækkun er vert að vekja athygli á að það stendur til að skerða enn tekjustofna sveitarfélaga. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort hann er með fyrirvara líka, eins og hv. þm. Páll Pétursson, vegna þess hvernig Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er leikinn. Hæstv. félmrh. er brautryðjandi í því í sögunni að skerða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það var í fyrsta sinn gert á árinu 1984 og á að halda því áfram á árinu 1985.

Nú er gert ráð fyrir því að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga eigi að fá af söluskattstekjum á næsta ári 680 millj. kr., en skv. áætlunum ríkisstj. eru þetta aðeins 635–640 millj. kr. Það á sem sagt að skerða þennan tekjustofn sveitarfélaganna í landinu um 40 millj. kr. Síðan er gert ráð fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái tekjur af verðtolli eins og kunnugt er, 140 millj. kr., eða Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái samtals 775 millj. kr. Ef þetta hálfa prósent væri meðhöndlað sem almennur söluskattur en ekki sem söluskattsauki ætti Jöfnunarsjóðurinn að fá af þessu 17 millj. kr. En þetta er meðhöndlað sem söluskattsauki þannig að það er verið að bæta við skerðinguna hjá sveitarfélögunum í landinu. Til viðbótar við þær 40 millj. sem almenna skerðingin er á að skerða Jöfnunarsjóðinn með þessu frv. um 17 millj. kr. eða samtals um 57 millj. kr. g vil spyrja hæstv. félmrh. og ég vænti þess að hann svari því við þessa umr.: Hefur þetta verið borið undir Samband ísl. sveitarfélaga? Hefur Samband ísl. sveitarfélaga sent frá sér samþykktir um þessa skerðingu á jöfnunarsjóðnum? Ég vil fara fram á það við hæstv. félmrh. að hann svari því alveg undanbragðalaust við þessa umr. því að hér er vissulega verið að skerða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og það mjög alvarlega.

Ég held, herra forseti, að nær hefði verið að hækka skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem við hv. 2. þm. Norðurl. v. erum kannske sammála um. Við umr. um skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sem fór fram í dag, á þessum skattahækkunardegi, rakti ég upplýsingar um hverjir það eru og í hvaða skattumdæmum sem borga skatta af skrifstofu- og verslunarhúsnæði, þennan skatt sem er í rauninni traustari tekjustofn en flestir aðrir tekjustofnar ríkisins vegna þess að þarna stela menn engu undan, þarna liggur eignin nokkuð skýrt fyrir, hvað á að skattleggja, skattlagningarandlagið eins og það heitir hjá fræðimönnum. Skattlagningarandlagið er skýrt: skrifstofu- og verslunarhúsnæði.

Það kemur fram í upplýsingum sem við fengum í dag frá fjmrn. hvernig þessi skattur skiptist, hverjir það eru sem borga skatt af skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Það kemur fram að í Reykjavík eru það 1032 aðilar sem borga skatt af skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Á Reykjanesi eru þetta 315 aðilar, í Vesturlandskjördæmi eða Vesturlandsskattumdæmi eru þetta 89 aðilar, á Vestfjörðum 67, á Norðurlandi vestra eru það 39 aðilar sem borga skatt af skrifstofu- og verslunarhúsnæði, í Norðurlandi eystra eru þeir 136, á Austurlandi eru þeir 46, á Suðurlandi 44, í Vestmannaeyjum líka 44. Samtals eru þeir aðilar sem greiða þennan skatt 1812, þar af 997 með einstaklingsrekstur og 815 lögaðilar sem svo eru nefndir. Þetta er ég að lesa upp, herra forseti, til þess að glöggt megi verða að hækkun á skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði er auðvitað mikið skynsamlegra svar við fjárhagsvanda ríkissjóðs en sú söluskattshækkun sem núna er verið að reyna að pína í gegn í skammdeginu í skjóli náttmyrkurs.

Við umr. um þessi mál verður ekki hjá því komist að gera sér einnig grein fyrir því hvernig staða ríkissjóðs er almennt og einnig að líta örlítið á útgjöld ríkissjóðs. Á sama tíma og menn eru að ákveða að taka inn í ríkissjóð þennan söluskatt og endurgreiða sjávarútveginum uppsafnaðan söluskatt sem snemma í dag var 380 millj., síðdegis 450 og í kvöld 550 ... (Gripið fram í.) Já, hv. formaður fjh.- og viðskn. vill fara að hætta fundinum vegna þess að talan hækkar stöðugt. — Meðan menn eru að sullast með þessar tölur upp á mörg hundruð milljóna kr., hálfan milljarð í sjávarútvegi vegna uppsafnaðs söluskatts, þá eru menn að draga við sig að standa við lögin um málefni aldraðra. Fyrir nokkrum árum var lagður á skattur í Framkvæmdasjóð aldraðra, nefskattur, til þess að standa undir byggingu elli- og hjúkrunarheimila úti um landið, land allt. Þetta var gert með þeim hætti líka að ríkissjóður lagði þarna nokkuð á móti með beinu framlagi. Á sama tíma og verið er að hækka söluskatt með þessum hætti neitar ríkisstj. — eða hvað, hæstv. fjmrh.? Er ríkisstj. tilbúin til þess að hækka með eðlilegum hætti framlag ríkisins í Framkvæmdasjóð aldraðra? Er meiningin að kreista þann sjóð alveg saman, þannig að hann geti ekki sinnt þeim verkefnum sem standa hálfkláruð hér í landinu? Ég minni t.d. á B-álmu Borgarspítalans. Það eru hundruð aldraðra einstaklinga í Reykjavík sem eru á biðlista eftir því að fá þá þjónustu sem B-álma Borgarspítalans getur veitt. Á sama tíma og menn eru að sullast hér með hundruð millj. kr. aftur og fram verð ég ekki var við skilning á nauðsyn þess að hækka framlagið í Framkvæmdasjóð aldraðra frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. eins og það lítur núna út.

Það er m.a.s. gert ráð fyrir því að skera þennan sjóð niður að framkvæmdagildi milli áranna 1984 og 1985.

Hér er auðvitað um alveg yfirgengilega afstöðu að ræða á sama tíma og menn henda út úr ríkissjóði tugum millj. af þjónslund við eigendur skrifstofu- og verslunarhúsnæðis. Og sýnir ríkisstj. betur í þessu máli en mörgum öðrum stéttareðli sitt þar sem hún gengur við hlið fjármagnsins og fjármagnseigendanna á móti þeim sem þurfa að njóta hinnar félagslegu þjónustu í landinu. Ég tel fulla ástæðu til þess, herra forseti, að mótmæla því sérstaklega ef það er ætlun ríkisstj. að fara að naga niður Framkvæmdasjóð aldraðra einmitt þessa dagana.

Fyrir nokkrum árum, herra forseti, var maður í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann var formaður í nefnd sem fjallaði um málefni aldraðra. Og það voru tekin við hann afskaplega mörg blaðaviðtöl um hvað hann væri góður við gamla fólkið í landinu, afskaplega mörg blaðaviðtöl, og útvarpsviðtöl og sjónvarpsviðtöl. Hann lét þess jafnan getið, t.d. í prófkjörsslagnum hér í Reykjavík þegar hann var að slást við ýmsa menn hjá íhaldinu, að hann væri sérstakur gæslumaður hagsmuna gamla fólksins og hann mundi beita sér fyrir því af mikilli hörku að bæta kjör hinna öldruðu í höfuðstað landsins. Það var samþykkt till. í borgarstjórn Reykjavíkur um að verja tilteknum hluta af útsvari Reykvíkinga í framkvæmdir í þágu aldraðra. Þessu var mjög hampað af vissum aðilum. Núna vill svo til að þessi baráttumaður fyrir málefnum aldraðra getur ráðið hvernig haldið er á málefnum þeirra á landsvísu. Þá virðist hann vera búinn að gleyma þessu hugðarefni sínu. Það verður ekki betur séð en ætlunin sé hjá hæstv. ráðh. að skera niður Framkvæmdasjóð aldraðra að raungildi milli áranna 1984 og 1985. Ég skora á hæstv. fjmrh. að rifja upp hvernig hann tók afstöðu til málefna aldraðra sem borgarfulltrúi hér í Reykjavík, en ég man ekki betur en hann væri kosinn einn af þeim í síðustu kosningum og að hann hafi verið kosinn forseti borgarstjórnar skömmu síðar. Ég skora á hann að lesa ræður Alberts Guðmundssonar borgarfulltrúa um málefni aldraðra, ef það mætti verða til þess að hræra hann til skilnings á því vandamáli sem þar er um að ræða núna og er í Reykjavík sennilega hrikalegra en nokkurs staðar annars staðar á landinu þó að ég geri ekki lítið úr þeim vandamálum sem þar er um að ræða, eins og t.d. á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu.

Hæstv. ríkisstj. og hv. 1. þm. Suðurl. eru í þessum skattamálum stundum að geipa af því að þeir félagar hafi afgreitt eftir pöntun allar beiðnir verkalýðssamtakanna um skattbreytingar á s.l. vetri, alveg 100%, það hefði ekkert verið undanskilið, og verkalýðshreyfingin hafi aldrei fengið aðra eins afgreiðslu hjá ríkisstjórn landsins og hjá þessari stjórn. Ja, þvílíkt. Það er út af fyrir sig rétt að verkalýðshreyfingin og launafólk í landinu hefur aldrei fengið aðra eins afgreiðslu hjá ríkissj. eins og þessari stjórn að því er kaup og kjör varðar, en að það hafi verið komið til móts við allar kröfur verkalýðssamtakanna á s.l. vetri í sambandi við skattamál og barnabætur og fleira, það er fullkomin fjarstæða.

Ég held að það sé nauðsynlegt, vegna þess að verið er að reyna að nota ákvörðun um barnabótaauka til að réttlæta þá skattahækkun sem hér er á dagskrá, að ræða aðeins um barnabótaaukann og hvernig hann kemur út. Það kemur þessu máli við, herra forseti, vegna þess að það er allt eitt og sama skattamálið sem hér er verið að fjalla um.

Á árinu 1983 nam barnabótaauki 167 millj. kr. og fjöldi skattgreiðenda sem fengu barnabótaauka var 23 082. Í Reykjavík var fjöldi framteljenda 7775, á Vesturlandi 1718, á Vestfjörðum 951, á Norðurl. v. 1347, á Norðurl. e. 3112, á Austurlandi 1403, á Suðurlandi 1893, í Vestmannaeyjum 392 og í Reykjaneskjördæmi 4491. Það er mjög fróðlegt að átta sig á því hvernig skipting barnabótaaukans kemur út eftir fjölskyldum og eftir skattumdæmum og hefur mér borist ítarleg tölvuútskrift um það efni frá fjmrn. sem væri ástæða til þess að fara yfir í þessari umr., en ég ætla ekki að þreyta hv. þd. með því að fara út í óskyld mál núna við þessar umr. um söluskattinn, heldur ætlaði ég aðeins að tæpa á þessu atriði.

Mér finnst þessar upplýsingar, sem ég hef hér lagt fram varðandi barnabótaaukann og fleira, vera til sannindamerkis um að það er auðvitað fullkomin endileysa að vera að reyna að nota barnabótaaukann til að réttlæta þá skattlagningu ríkisstj. sem hér liggur fyrir till. um. Það hefði verið nær að hækka barnabótaaukann með því að leggja skatta á þau fyrirtæki sem hafa velt sér upp úr gróða að undanförnu í tíð núv. ríkisstj. meira en nokkru sinni fyrr, leggja skatta á lúxusklúbbinn í þjóðfélaginu sem ríkisstj. hefur verið að efna í á undanförnum þremur misserum.

Ég held, herra forseti, að það sé út af fyrir sig ástæðulaust nú við 2. umr., þar sem 3. umr. í deildinni er eftir, að fara mikið ítarlegar út í þessi mál að sinni. Þó er margt sem mælir með því að málið sé rækilegar rætt. En ég vil ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðh. og þá fyrst til hæstv. félmrh.: Hefur hann samþykkt þessa meðferð söluskattsins og þessa skerðingu á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Í öðru lagi spyr ég hv. þm. Pál Pétursson: Hverjar voru skattahækkunarsamþykktir Framsfl.? Það er alveg óhjákvæmilegt að það komi fram. Það gæti verið t.d. að ég gæti samþykkt eða Alþb. í heild eins og eina af þessum till. og þar með væri kominn meiri hl. til að styrkja stöðu ríkissjóðs enn frekar, en það vantar enn nokkuð á, eins og segir í gullaldarsetningu á bls. 2 í frv., að staða ríkissjóðs sé nægilega traust. Það stendur hér „sem enn er nokkur“ um vanda ríkissjóðs.

Ég hef einnig spurt hæstv. fjmrh. spurninga, m.a. varðandi málefni aldraðra, sem ég óska eftir að hann svari.

Fyrir einu ári eða svo fóru fram í hv. Nd. miklar umr. um skattamál. Þá voru skrifaðar forustugreinar í eitt dagblaðanna um skattpíningarstefnu ríkisstj. og því alveg sérstaklega mótmælt að hún væri að íþyngja landsmönnum með hækkuðum sköttum. Þetta blað heitir DV, þ.e. Dagblaðið Vísir. Nú vill svo til að ritstjóri þessa blaðs situr á Alþingi, hv. 6. þm. Reykv. Hann gerði sér ljóst í haust að mál voru komin í það óefni að það var knýjandi að hann snéri sér að löggjafarstörfum og settist hér inn, eins og kunnugt er, eftir nokkurt hlé. Það liggur hins vegar ekki fyrir hver er afstaða þessa vígreifa baráttumanns til skatta, hver er afstaða hans til þessa frv. hér. Mér er sagt að hann hafi verið að laumast á þingflokksfund í Sjálfstfl. af og til. (Iðnrh.: Það er ekki rétt.) Nei, það er ekki rétt, segir hæstv. iðnrh. Þá liggur það fyrir. (Iðnrh.: Ekki að laumast.) Nei, ekki að laumast kannske, heldur með gassagangi. Ekki heldur? Hvorugt? Þeim mun nauðsynlegra er þá að spyrja hv. 6. þm. Reykv. um það, vegna þess að hann er eins og sjálfstæður vígahnöttur í þessum ferli, hver sé afstaða hans í þessum skattamálum. Nú hafa talsmenn hinna ýmsu þingflokka talað hér. Talsmenn Sjálfstfl., þ.e. þeir fyrirvaralausu, hafa talað hér. Hv. þm. Friðrik Sophusson með fyrirvarann hefur enn ekki talað hér. (FrS: Ég kemst ekki að, maður, fyrir þér.) Hv. þm. er kannske að biðja um að komast á mælendaskrá. Ég veit að hæstv. forseti kemur honum að. Hv. þm. Friðrik Sophusson mun væntanlega gera grein fyrir sínum fyrirvara og ég vænti þess þá að þriðja brotið af Sjálfstfl., hv. 6. þm. Reykv. Ellert B. Schram, (Gripið fram í: Þetta kemur allt í ljós.) geri grein fyrir máli sínu við umr. um málið, þannig að hann þurfi ekki að gera það við nafnakall eins og við eitthvert mál um daginn þegar hann kvaddi sér hljóðs, í álmálinu trúi ég, og gerði grein fyrir atkv. sínu í viðurvist alþjóðar svo að segja, í útvarpsumræðum, vegna þess að hann hafði ekki fengið tækifæri til að koma afstöðu sinni á framfæri við umr. Það tíðkast núna þeir hættir hér í þinginu að Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu fær ekki að tala eins og hann fékk t.d. á síðasta kjörtímabili. Þá fékk hann alltaf að tala. En núna fær Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu ekkert að tala og þess vegna bað hv. þm. um orðið til að gera grein fyrir atkv. sínu. Nú gefst honum kostur á því að gera grein fyrir atkv. sínu, þessum mikla kappa í baráttunni fyrir lægri sköttum í landinu. Ætlar hann að styðja þessi ósköp eða ætlar hann að ganga í lið með þeim sem eru á móti þessari vitleysu, þ.e. vera fyrirvaralaust á móti því eins og við erum reyndar, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í fjh.- og viðskn. Nd.?

Herra forseti. Það eru mörg önnur mál í sambandi við söluskattinn sem ég hef áhuga á að koma á framfæri og mun gera við síðari umr. um málið. Athugasemdir mínar núna tengdust skattamálum almennt, vegna þess að rætt hefur verið um skattamál vítt og breitt í allan dag og því eðlilegt að um hin ýmsu mál þar sé fjallað í umr. af þessu tagi.

Hér mun vera á dagskrá, herra forseti, frv. til l. um breyt. á lögum um Háskóla Íslands, og ef ég mætti aðeins spyrja um eitt atriði til þess að þurfa ekki að tefja fundinn með því að biðja um orðið um þingsköp, þá vildi ég spyrja hv. þm. Ólaf G. Einarsson, formann þingflokks Sjálfstfl., 9. landsk. þm., og hv. þm. Pál Pétursson... (Gripið fram í: Hann er hérna.) Hv. 2. þm. Norðurl. v. er þarna. Ég vildi spyrja þessa hv. þm. hvort frv. um Háskóla Íslands er eitt af forgangsmálum ríkisstj. áður en þingið fer í jólaleyfi. Mér þætti vænt um ef þeir gætu skotið sér inn í umr. um söluskattinn og svarað þessari spurningu.