17.12.1984
Neðri deild: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2138 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

214. mál, söluskattur

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þar sem hv. 3. þm. Reykv. hefur ekki þolinmæði til þess að bíða eftir því að fylgjast með því hvernig ég greiði atkv. hér á eftir ætla ég að gera honum það til hugarhægðar að taka hér til máls í þessari umr. og segja það eitt að þessi söluskattshækkun, sem á að gefa 250 millj. kr. í aðra hönd, er að mínu mati skammsýn og raunar illskiljanleg ákvörðun. Þessari upphæð má auðveldlega ná með niðurskurði og sparnaði. Annað eins hefur verið gert í fjárlagafrv. upp á a.m.k. 25 milljarða, að skera niður um 1%.

Söluskattshækkun þessi veldur hækkuðu verðlagi, auknum útgjöldum almennings og ýtir undir vaxandi verðbólgu. Skattar eru ærið nógir hér á landi og á þá er ekki bætandi. Þess vegna mun ég greiða atkv. gegn þessu frv. Vona ég svo að hv. 3. þm. Reykv. líði aðeins betur.