18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

127. mál, hagsmunaárekstrar í stjórnsýslunni

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Þar kemur fram það sem mig grunaði og kemur líka fram í bókinni Stjórnarfarsréttur eftir Ólaf Jóhannesson sem ég vitnaði til áðan. Hún er að vísu orðin nokkurra ára gömul, en þar kemst höfundur þannig að orði eftir að hafa fjallað nokkuð um þessi mál, með leyfi forseta:

„Hér að framan hafa verið rakin lagaboð um vanhæfi til stjórnsýslustarfa. Þau eru óneitanlega heldur sundurleit og sýnist erfitt að draga af þeim einum út af fyrir sig nokkrar almennar reglur.

Rekur höfundur síðan að það virðist þörf nánari laga og reglugerða í sambandi við þessi mál. Ég held að til viðbótar við frv. til stjórnsýslulaga, sem mun væntanlega víkja að þessu máli þegar það kemur fram, sé nauðsynlegt að ganga frá nánari vinnureglum fyrir stofnanir og ráðuneyti. Þar væru á ferðinni reglur sem ekki ættu kannske bein erindi í lög, en kvæðu á um framkvæmd þess eftirlits sem er augljóslega æskilegt og í mörgum tilfellum nauðsynlegt í þessu efni og þar sé rakinn gangur mála sem upp kynnu að koma vegna ágreinings um þessi atriði. Við ættum að líta vel á þessi mál vegna smæðar hins íslenska samfélags og frændsemi og vinskapar sem er ekkert annað en gott um að segja og er ein af gersemum okkar lífshátta. Óneitanlega eru hættur á að hagsmunir geti rekist á og þess vegna tel ég að til viðbótar við frv. eða löggjöf, sem kæmi að þessum málum og kannske setti þar um nánari ramma, sé brýn nauðsyn að setja nánari framkvæmdareglur fyrir einstakar stofnanir, fyrir einstök ráðuneyti til að fara eftir við eftirlitið.