18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

208. mál, framlag til hjálparstarfs í Eþíópíu

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Því er skemmst frá að segja að ekki eru eða hafa verið í gildi neinar almennar leiðbeiningar í stjórnarráðinu eða einstökum ráðuneytum til að koma í veg fyrir að eigin hagsmunir hafi eða geti haft áhrif á störf. Hins vegar er þetta einmitt eitt af þeim málum sem stjórnkerfisnefnd sú sem ég skipaði í upphafi þessarar ríkisstj. er með til meðferðar og ég geri fastlega ráð fyrir því og hef reyndar gengið út frá því að í frv. að nýjum lögum um stjórnsýslu verði þetta atriði tekið með.

Þó er nú ekki svo að ekki sé gætt þessarar mikilvægu reglu í fjölmörgum verkum í stjórnarráðinu. M.a. hefur almennt verið svo litið á í einstökum rn., og ég vil leyfa mér að segja í stjórnarráðinu í heild, að sömu reglur gildi þar og gilda um dómara, sem skýrt er tekið fram í 36. gr. laga nr. 85 frá 1936 um meðferð einkamála í héraði. Og ég get nefnt mörg dæmi um það að t.d. ráðuneytisstjórar hafa ekki fjallað um mál sem talin hafa verið þeim að einhverju leyti tengd.

Ég vil einnig geta þess að svo segir í 34. gr. laga nr. 38 frá 1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með leyfi forseta:

„Áður en starfsmaður stofnar til atvinnurekstrar, hyggst taka við starfi í þjónustu annars aðila en ríkisins gegn varanlegu kaupi eða gangi í stjórn atvinnufyrirtækis ber honum að skýra því stjórnvaldi sem veitti stöðuna frá því. Innan tveggja vikna skal starfsmanni skýrt frá því ef áðurnefnd starfsemi telst ósamrýmanleg stöðu hans og honum bannað að hafa hana með höndum.“

Almennt hefur einnig, að því er ég best veit, þessarar reglu verið gætt þegar menn hafa verið ráðnir til starfa í stjórnarráðinu. Ég vil einnig vekja athygli á því að meðal ýmissa starfsstétta eru í gildi sérstakar siðareglur, þ.e. „codex ethicus“ sem stundum er svo nefnt. Skv. samþykktum eru síðan starfandi siðareglunefndir hjá ýmsum hópum manna og að sumu leyti teygir það sig einnig inn í stjórnarráðið, eins og t.d. hjá lögfræðingum sem þar starfa.

Ég vil einnig geta þess að m.a. þegar þessi ríkisstj. tók við óskaði ég eftir því á fyrsta fundi hennar að allir ráðherrar létu af öllum þeim störfum í stjórnum eða nefndum sem á einhvern máta gætu rekist á við þær skyldur sem ráðh. hefur með höndum í ríkisstj. Eftir því sem ég best veit urðu allir ráðherrar við þessum tilmælum.

En svar mitt getur út af fyrir sig verið stutt. Í undirbúningi er frv. til stjórnsýslulaga. Sérstök nefnd vinnur að því og fjallar m.a. um það mikilvæga mál sem hv. fyrirspyrjandi hefur hreyft hér. Hingað til hefur þetta verið heldur losaralegt, þótt í mjög mörgum og kannske flestum tilfellum sé gætt hinnar almennu siðareglna sem gilda um árekstra í starfi.