18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

208. mál, framlag til hjálparstarfs í Eþíópíu

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 246 leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til forsrh., með leyfi forseta:

„Hyggst ríkisstj. láta fé af hendi rakna til hjálparstarfs á þurrka- og hungursvæðunum í Eþíópíu?“

Ég tel mig ekki þurfa að hafa um þetta mál ýkja mörg orð. Ég er sannfærður um að þingheimur allur hefur séð í sjónvarpi þær myndir sem brugðið hefur verið upp frá þessum hörmungasvæðum, þar sem mannleg þjáning og hörmungar koma í heimsókn inn í stofurnar til okkar hér norður á Íslandi. Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja hverju tiltölulega litlar upphæðir geta áorkað í þessum efnum. Ég nefni aðeins hér sem dæmi að fyrir 400–500 ísl. kr. er hægt að sjá einu barni fyrir þurrmjólk og nauðsynlegum eggjahvítuefnum í heila tvo mánuði. Fyrir 400–500 kr. íslenskar er hægt að kaupa lyf sem duga 50 manns í heilan mánuð.

Ég hygg að það sé staðreynd að flestar ríkisstjórnir nágrannalanda okkar hafa látið nokkrar fjárupphæðir af hendi rakna til þessarar söfnunar sem kirkjufélög, alþjóða Rauði krossinn og hjálparstofnanir kirknanna hafa gengist fyrir. Hér á landi hefur þessi söfnun hlotið afar góðar undirtektir, að ég hygg, og mér leikur hugur á að vita hvort íslenska ríkisstj. hyggist leggja eitthvað af mörkum. Þó svo að mönnum sýnist að fjárhagur ríkisins sé knappur og leyfi ekki stórar aðgerðir á þessu sviði held ég að við megum ekki gleyma því, Íslendingar, að við sitjum við gnægtaborð. Hvað sem ástandi þjóðmála líður, sitjum við við mikið veislu- og gnægtaborð miðað við það sem aðrir mega við búa, t.d. það fólk sem okkur hafa verið sýndar myndir af og sagt hefur verið frá í sjónvarpi hér á undanförnum vikum. Þess vegna fyndist mér eðlilegt að opinberir aðilar hér létu eitthvað af hendi rakna í þessu augnamiði. Þar sem vitneskja um það liggur ekki fyrir hef ég leyft mér að bera fram þessa fsp. í von um jákvæð svör.