18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

135. mál, skólakostnaður

Fyrirspyrjandi (Kristófer Már Kristinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 140 fsp. til hæstv. menntmrh. um skólakostnað. Annars vegar er spurt hvað líði lagasmíð um þetta atriði og hins vegar um stefnu hæstv. ráðh í skiptingu skólakostnaðar.

Þessi fsp. var lögð fram á hv. Alþingi 6. nóv. þannig að líkur benda til að nægur tími hafi gefist til að vinna ítarleg og greinargóð svör við henni. Hv. þm. er aðdragandi og umhverfi þessa máls gjörkunnugt og út af fyrir sig óþarfi að flytja um það eða þau atriði langan fyrirlestur. En um þetta er spurt vegna svara hæstv. ráðh. við fsp. frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um lög um framhaldsskóla, en í svari ráðh. kom fram að ekki væru uppi nein áform um samræmda löggjöf um þau mál. Það hlýtur þess vegna að vera ætlun hæstv. menntmrh. að gefa út reglugerðir um framhaldsskóla, skv. lögum um heimild til að stofna fjölbrautaskóla frá 13. apríl 1973. Sveitarstjórnarmenn, skólamenn og aðrir sem höfðu bundið miklar vonir við löggjöf um framhaldsskóla og skólakostnað, bæði til jöfnunar á námsaðstöðu og nýrrar sóknar í skólamálum, velta því þess vegna fyrir sér hvort það sé jafnframt stefna hæstv. ráðh. að það fyrirkomulag á skiptingu skólakostnaðar sem við lýði er skuli standa óbreytt. Sú mismunun sem felst í núverandi ástandi er ekki af hinu góða. Kostnaðarhlutdeild ríkisins í framhaldsnámi að háskólanámi undanskildu er þrenns konar:

1. Ríkisskólar, menntaskólar og nokkrir sérskólar, en ríkissjóður greiðir allan kostnað við rekstur þeirra.

2. Einkaskólar, Samvinnuskólinn og Verslunarskólinn sem eru ríkisreknir að fullu.

3. Samreknir skólar, fjölbrautaskólar og iðnskólar sem reknir eru á móti sveitarfélögum og hafa mismunandi reglur um kostnaðarskiptingu.

Það er mjög mikilvægt að stefna hæstv. ráðh. sé glögg. Spyrja má t.d.: Stendur til að breyta einhverju með það fyrir augum að jafna námsaðstöðu landsmanna allra? Á að beita sameiginlegum sjóðum landsmanna til að jafna námsaðstöðu eða námsvistargjöldum? Hvað með viðhald á skólamannvirkjum, svokallaðan kennslukvóta, aksturskostnað? Þannig mætti lengi telja. Ég vona að hæstv. ráðh. sjái sér fært að gera þingi og þjóð grein fyrir stefnu sinni og áformum í þessu afar mikilvæga máli.