18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

218. mál, norskt sjónvarp um gervihnött

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Maður hlýtur að undrast hvernig mál ber að í íslensku þjóðlífi. Einn ráðh. talar við annan ráðh. og þau fara að spjalla um hvort það væri nú kannske hugmynd að Norðmenn veittu Íslendingum hlutdeild í sjónvarpsefni. Að mínu viti er þetta ákaflega einkennilega að farið. Enginn hefur í raun og veru beðið um þetta, hvorki íslenska þjóðin né Norðmenn formlega, allt er þetta á einhverju óformlegu stigi. Ef hinn íslenski menntmrh. hæstv. vill beita sér fyrir því að Íslendingar fái að sjá norskt sjónvarp væri eðlilegt að fyrir Alþingi Íslendinga væru lagðar tillögur um slíkt með upplýsingum um hvað slíkt hefði í för með sér, hver væri stofnkostnaður, hvort ætti að leggja í þá vinnu að þýða erlent tungumál fyrir gamla fólkið og börnin, sem helst mundu njóta þessarar dagskrár, því að annað fólk er væntanlega í vinnu sinni á þeim tíma sem til greina kæmi. Velta mætti fyrir sér hvort heldur bæri að efla íslenska sjónvarpið, sem að mörgu leyti er ágætt og að mínu viti skv. því sem ég hef til séð síst verra en það norska, eða hvort dreifa eigi fjármagni til annars. Veita þyrfti slíkar upplýsingar og síðan taka einhverjar formlegar ákvarðanir.

En það er gamla sagan hér í okkar landi að hlutirnir eru ekki gerðir, þeir gerast. Eitthvað dengist yfir okkur án þess að nokkur hafi í raun og veru tekið ákvörðun. Þetta er eins og með ratsjárstöðvar hæstv. utanrrh. sem enginn hefur beðið um formlega, hvorki íslenska þjóðin né bandaríska þjóðin né bandaríska þingið. Hlutirnir einhvern veginn gerast.

Ég vil leyfa mér að mótmæla þessum aðferðum. Ég held að hér þurfi til að koma nákvæm athugun af hálfu Alþingis í samráði við íslenska ríkisútvarpið og starfsmenn þess.

Ég er ekki fyrir fram að dæma um það hvort þetta er góð hugmynd. En ég vil fyrst fá að vita hvort hún er góð eða vond, dýr eða ódýr, hvort við ættum að eyða fjármagni í annað fyrst áður en að þetta kæmi til og annað slíkt. Mér finnst þetta satt að segja ekki nokkur vinnubrögð.