18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

218. mál, norskt sjónvarp um gervihnött

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Mér sýnist að hér sé uppi mikill misskilningur. Mér skildist að hv. fyrirspyrjandi hefði verið að beina fsp. til menntmrh. Íslendinga en fengið hugleiðingar frá menntmrh. Norðmanna í staðinn. Hér er spurt: Hafa farið fram samningaviðræður um þetta mál? Svarið er nei, en óformlegt jú. Síðan er spurt: Liggur fyrir hvern kostnað þetta mundi hafa í för með sér og svarið er ekkert.

Fyrsta spurning: Hver vill sjá þetta norska sjónvarp sem er almennt séð viðurkennt eitthvert lélegasta sjónvarp í heimi? Það veit ég ekki. Ekki vil ég sjá það en þeir kynnu að vera uppi sem vilja sjá þetta sjónvarp. En ég rifja upp að einn helsti andans maður þeirra sjálfstæðismanna, aðalritstjóri Morgunblaðsins Matthías Johannessen hefur skrifað skemmtilegar, fræðilegar greinar um það hvernig Norðmenn týndu máli sínu og sitja nú uppi með málleysur. En það var vegna þess að Danir buðu þeim í eina tíð að gefa þeim danskar þýðingar á Biblíunni. Norðmenn nenntu ekki að hafa fyrir því að þýða þetta á sitt eigið mál og enduðu með því að sitja uppi með brenglaða dönsku. Kannske þetta sé eitthvað svipað þeim óformlegu samningaviðræðum sem enginn tók ákvörðun um en gerðust bara.

Að öðru leyti fannst mér mjög athyglisvert að það kom fram í máli hæstv. ráðh. að Norðmenn væru út af fyrir sig þess fýsandi að þetta væri gert, að við fengjum þessa ölmusu svona fram hjá Svalbarða ásamt Færeyingum ef þetta kostaði ekki mikið, sér í lagi það efni sem unnið er af dagskrárgerðarmönnum norskum og mundi henta okkur fyrir hádegi og snemmendis dags og væri sérlega við hæfi aldraðs fólks, sjúkra og öryrkja. Ég spyr: Ætli þetta sé ekki best við hæfi framliðinna? (RH: Þeir eru nú ekki heima.) Ja, þetta er um gervihnött, það er aldrei að vita hvað gerist. Af hverju er verið að svara svona skilmerkilegum spurningum? spurt er: Er það vilji íslenska menntmrh. að semja um þetta mál? Hefur hann áhuga á þessu máli? Vill hann semja um þetta mál? Hafa farið fram viðræður um þetta mál? Mér skildist á svari hæstv. menntmrh. að hæstv. ráðh. hefði áhuga á þessu.

Síðan var spurt — og það er náttúrlega meginatriði málsins: Er þetta einhverra peninga virði á sama tíma og íslenska sjónvarpið er í algeru fjársvelti? Þar er varla hægt að borga mönnum laun og hæfustu starfsmenn fyrirtækisins eru á flótta og eru reyndar farnir út úr fyrirtækinu. Hvað viljum við borga marga milljónatugi fyrir þessa norsku ölmusu? Þó að ég fyrir mitt leyti vilji ekki borga neitt þá er það ekki málið heldur: Er menntmrh. þeirrar skoðunar að þetta sé einhverra peninga virði?