18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

218. mál, norskt sjónvarp um gervihnött

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Vegna þess að mér entist ekki tíminn, sem ég hafði til umráða í svari mínu, til þess að gera betur grein fyrir málinu held ég að ég verði þegar hér er komið sögu að skýra betur frá því um leið og ég ítreka að samningaviðræður af minni hálfu hafa ekki farið fram, það er ljóst. Menn hljóta að hafa heimild til að ræðast óformlega við, bæði eru orð til alls fyrst og síðan eru okkar norrænu fundir og samstarf með öðrum stjórnmálamönnum yfirleitt ætlað til þess að við getum kynnt okkur mál með óformlegum hætti áður en til frekari og formlegri atriða kemur.

Það sem menntmrn. hyggst fyrir í þessu er að fela Ríkisútvarpinu að gera sérstaka athugun á þessu af sinni hálfu og þá m.a. eftir atvikum með viðræðum og sambandi við norska útvarpið. Þessar viðræður hafa ekki enn farið fram. Það er það sem fyrir liggur. Meðan niðurstaða þess eða upplýsingar úr þeim viðræðum liggja ekki fyrir er ekki hægt að segja með nokkurri vissu hvaða kostnað væri hér um að ræða. Ég ítreka það einungis að ég hygg að þetta sé ekki mjög dýrt fyrirtæki.

Ég læt hins vegar ósvarað þeim yfirlýsingum sem hv. síðasti ræðumaður hafði uppi. Hann fór heldur háðulegum orðum að mér þótti um vináttu okkar við Norðmenn, eða þeirra við okkur og um samstarf við þá er hann var að tala um „þessa norsku ölmusu“ o. s. frv. Ég veit ekki til að það sé nein ölmusa að horfa á í fjölmiðlum sínum efni sem hvort sem er er dreift um himingeiminn yfir manni.

Hv. 10. landsk. þm. undrast það bara alveg hreint að það skuli ekki borið undir Alþingi, að einhverju sé bara dengt yfir mann. Ég verð að játa að það hefur bara ekki hvarflað að mér að láta mér detta það í hug að Norðmenn þyrftu að spyrja okkur hvort þeir sendu sjónvarpsefni til Svalbarða. Það vill bara svo til að geislinn fer hér yfir landið, því er bara dengt yfir okkur. Þannig er mál með vexti að yfirráðasvæði okkar nær ekki til himingeimsins þótt Alþingi sé virðuleg og voldug stofnun en þannig er tæknin nú til dags að þjóðir senda sjónvarpsefni um himingeiminn án þess að spyrja e.t.v. alla íbúana á jörðu niðri eða þing þeirra.

Það sem hér er um að ræða kann vel að verða spurning um lítils háttar aukið fé til þessa fyrirtækis og þá er það spurning hvaða þjónustu viljum við veita því fólki sem heima situr og á ekki kost á því að horfa á sjónvarpsefni á öðrum tímum en þeim sem íslenska sjónvarpið sendir út dagskrá. Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti. (JBH: Hvað kostar þetta?) Ég gat þess áðan að það getur ekki legið fyrir fyrr en viðræður hafa farið fram milli norska útvarpsins og Ríkisútvarpsins, sem mun verða falið að leita upplýsinga um það, og niðurstaða þeirra liggur fyrir.

En hitt veit ég að þær tölur, sem fram komu í fréttaþætti í sjónvarpinu nú nýlega, voru fráleitar, svo háar voru þær. Það er vegna þess m.a. að þar var getið um gjald sem skv. samþykktum eigenda gervihnattarins væri tekið af hverju landi sem tæki við efni. Í fyrsta lagi er búið að greiða gjald af hálfu þess lands sem dreifir efninu. Hversu mikið hugsanlegt gjald væri til þeirra sem tækju það, sem kallað er „overspill“ á sjónvarpsmannamáli, um það skal ég ekki segja. Það er trúlega hverfandi lítið. Það segir sig auðvitað sjálft, að það væri heldur ekki fullt gjald þegar um er að ræða efni eða dagskrá sem e.t.v. er einungis 4–6 tíma á sólarhring þegar mest er. Það er allt annað en ef það er full nýting á möguleikum þessa gervihnattar. Þannig að þetta atriði eitt sýnir hversu fráleitt það er. Þannig er þetta eitt dæmi um þann mikla misskilning sem vart hefur orðið við í sambandi við kostnað. Hinar endanlegu tölur eru því miður ekki til því að ekki hafa farið fram samningaviðræður og það verður verkefni þeirra sem hugsanlega mundu taka þetta að sér að afla þeirra. Ákvörðun verður ekki tekin um það fyrr en þær liggja fyrir.