18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

218. mál, norskt sjónvarp um gervihnött

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hér voru gefin. Þau voru að vísu ekki mjög fullnægjandi. Við fyrri spurningunni var svarið nei, en jafnframt liggur það fyrir að hæstv. menntmrh. ætlar að láta hefja samningaviðræður við norska ríkisútvarpið. (RH: Könnun.) Já, það má kalla það það.

En ég held að hæstv. menntmrh. hafi eitthvað misskilið þetta mál vegna þess að hún segir að þessum sendingum sé dengt yfir okkur hér. Það er mikill misskilningur, þessar sendingar fara til Svalbarða. Við eigum engan rétt á að taka á móti þessum sendingum. Þær eru verndaðar með höfundarréttarlögum í Noregi og hér, og við höfum ekki nokkurn rétt til að taka á móti þeim. Þess vegna er þeim ekkert dengt yfir okkur. Það þarf hér sérstakan útbúnað í fyrsta lagi til að ná þessum sendingum. Í öðru lagi, ef við viljum ekki vera lögbrjótar og gerast þjófar á efni sem nýtur höfundarréttar, þá getum við ekki tekið á móti þessu. Og þess vegna er þessu efni ekkert yfir okkur dengt. Þetta er misskilningur hjá hæstv. ráðh. (RH: Það fer hér yfir okkur.) Þetta efni er í loftinu eins og margt annað. Ef við tækjum á móti öllu því sem sent er í gegnum loftið yrði kannske upplitið á sumum eitthvað skrýtið. En það er bara ekki rétt að þessu efni sé dengt hér yfir okkur vegna þess að það er verndað og það er ekki okkur ætlað. Það gegnir allt öðru máli með auglýsingasjónvarp sem er öllum ætlað, eins og t.d. er sent núna til sumra Norðurlandanna. Þar er það akkur þeirra sem það reka að sem flestir sjái. Við erum hér að tala um ólíka hluti.

Ég hef ýmsar upplýsingar varðandi þær tölur sem hér hafa verið nefndar um kostnað. Ég ætla ekkert að fara að nefna þær. Ég veit að hæstv. ráðh. hefur þær upplýsingar líka. En það er alveg ljóst að þessu fylgir töluverður árlegur rekstrarkostnaður.

Í öðru lagi talaði hæstv. menntmrh. um að hér yrði um táknrænar greiðslur að ræða. Ég hygg að talað sé um táknrænar greiðslur meðan svona starfsemi hugsanlega væri á tilraunastigi, þegar hún ekki væri lengur á tilraunastigi yrðum við að greiða fullt gjald. Frændur okkar Norðmenn eru ekki alltaf billegir í viðskiptum þegar peningar eru annars vegar, það held ég sé okkar reynsla, gömul og ný.

Það sem ég held að sé mikilvægast í þessu máli er að hér fari fram umræða um þetta mál. Þetta er ekki og má ekki vera mál sem tveir ráðh. taka ákvörðun um sín á milli. Ég á sæti í menningarmálanefnd Norðurlandaráðs sem þm. Ég tel mig eiga heimtingu á því að þetta mál verði rætt hér á Alþingi löngu áður en til ákvörðunar kemur. Ég vil ekki una því að þetta sé mál tveggja ráðh., ég held að það sé alveg fráleitt.

Ég bendi á það líka að frá upphafi vega, frá 30. sept. 1966 þegar að íslenska sjónvarpið hóf sínar útsendingar, var tekin sú ákvörðun að sýna ekki erlent efni án texta í íslenska sjónvarpinu. Hinir skynsömustu menn sem þá áttu sæti í útvarpsráði og sem þá stýrðu Ríkisútvarpinu tóku þessa ákvörðun, ég held að það hafi verið rétt ákvörðun þeirra. Það er mikilvæg og stór menningarpólitísk ákvörðun ef á að taka um það ákvörðun að senda hér inn á næstum öll heimili í landinu, sem hafa sjónvarpstæki, óþýtt og ótextað erlent efni. Nú hef ég síður en svo á móti því að kunnátta okkar í Norðurlandamálum aukist, en ég held að það þurfi að gerast með öðrum hætti en þessum. Það er með þetta mál, eins og fleiri er varða þessa þætti menningarlífsins, að því lengur sem menn skoða, því fleiri fletir koma upp á málinu, og því ljósara verður mönnum að þetta er ekki svo einfali mál.

Nú má enginn skilja orð mín svo að ég sé að leggjast gegn þessu. En ég tel að við þurfum að athuga okkar gang, skoða þetta mál. Við erum hér að veita — ef þetta verður — einni þjóð vissan rétt í okkar menningarhelgi. Það var gert á sínum tíma að því er varðaði Reykjavíkursvæðið og Keflavíkursjónvarpið og þótti ekki öllum gott. Ég er ekki að líkja norska sjónvarpinu við Keflavíkursjónvarpið en við skulum samt hafa þetta í huga. Við eigum að hafa samstarf við Norðurlandaþjóðir og okkar frændur og vini þar, en hugmyndin um norrænt sjónvarpssamstarf byggist fyrst og fremst á því að menn geti valið norska, danska, sænska, finnska dagskrá og að hún sé textuð. Þetta eru grundvallaratriði í þeim hugmyndum sem til umræðu hafa verið og það veit hæstv. menntmrh. Það hefur verið mikið um það rætt hversu kostnaðarsamar þessar þýðingar væru, ég veit það. En þær hafa verið talin forsenda fyrir þessu samstarfi og aldrei um það talað að sleppa þeim. Ég skal ekki hafa á móti því að okkar kunnátta í Norðurlandamálunum aukist, eins og ég sagði áðan, en þetta er umhugsunarefni og ég uni því ekki sem þm. að tveir hæstv. ráðh., annar norskur og hinn íslenskur, taki um þetta ákvörðun.