18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

218. mál, norskt sjónvarp um gervihnött

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er nú trúlega að bera í bakkafullan lækinn fyrir mig að blanda mér í umr. af þessu tagi. Eigi að síður hef ég skoðun á þessu máli eins og ég geri ráð fyrir að aðrir hafi velflestir, kannske ekki allir. Ég held að það fari ekkert milli mála að þeir atburðir sem gerðust á s.l. hausti, löglegir sem ólöglegir, hafa vakið fólk til umhugsunar um að breytinga sé þörf í skynsemisátt. En þær breytingar verða ekki gæfuspor verði þær stignar eins og t.d. gert var á s.l. hausti með hinum ólöglegu útvarpsstöðvum, sjóræningjastöðvum, eins og sumir kölluðu þetta. Það er ekki til fyrirmyndar að mínu viti að ætla að stýra málum inn á þær brautir ef auka á þjónustu í þessum efnum.

Ég hygg að ef hv. þm. Ellert B. Schram skoðar hug sinn betur og ræðir þetta mál og íhugar í rólegheitum komist hann að þeirri niðurstöðu að þær till., sem Alþfl. hefur verið með um breytingar í þessum efnum, eru í skynsemisátt. Sumum finnst kannske að megi ganga lengra, en ég hygg að almennt séu menn um það sammála að þær ítarlegu tillögur, sem komið hafa fram hjá Alþfl. um útvarpsmálin og meira frelsi frá því sem er, eru skynsamlegar og ætti að stíga skrefið í þeim dúr sem þar er lagt til. (Gripið fram í: Veit ræðumaður hvaða mál er á dagskrá?) Já, já, ég veit alveg hvaða mál er á dagskrá en ég er að tala í svipuðum dúr og hv. þm. Ellert B. Schram talaði hér áðan. Ég hygg að mér sé það leyfilegt, hæstv. forseti, á svipuðum nótum eins og hv. þm. Ellert B. Schram nema þá því aðeins að það sé vegna þess að hv. þm. hefur ekki setið hér á þingbekkjum eins lengi frá síðustu kosningum og ég, þannig að hann hafi sérréttindi um að taka hér upp mál í þeim dúr sem hann lystir. En mér er ljóst hvaða mál er hér verið að ræða og á hvaða nótum það er. En ég bið menn, bæði hv. þm. Ellert B. Schram og fleiri sem vilja sleppa þessu gjörsamlega lausu og láta fjármagnið gjörsamlega ráða í þessum efnum eins og raunar mörgum fleiri, að huga að sínum viðhorfum. Það er oft skynsamlegra að fara fetið og ég hygg að menn komist að raun um það.

Ég skal ekki, herra forseti, íþyngja hv. þm. Ellert Schram né þingheimi frekar með umr. í þessum dúr. En ég held að það sé nauðsynlegt að menn átti sig á því að algjört frjálsræði í þessum efnum, eins og mér heyrist að sumir einstaklingar og jafnvel hellir flokkar vilji, verði ekki til hins betra og það komi ekki til með að þjóna þeim sjónarmiðum og þeim einstaklingum sem ég a.m.k. vona að velflestir þm. séu sammála um að eigi að bæta þjónustuna við og auka.