18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

128. mál, afurðalán bankakerfisins

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. fyrir svar hans sem bæði var ítarlegt og á margan hátt fróðlegt. Það mátti hins vegar lesa út úr svari hans að þær breytingar, sem gerðar hafa verið á afurðalánum Seðlabankans og viðskiptabankanna, hafi í raun og veru gengið svo skrykkjótt og ruglingslega fyrir sig á umliðnum mánuðum að ekki sé ofmælt að staða þessara mála sé nokkuð svo flókin.

Eins og ráðh. rifjaði upp var það upphaf þessa máls að ríkisstj. mótaði þá stefnu að horfið yrði frá sjálfkrafa endurlánum afurða- og rekstrarlána frá Seðlabankanum og hann bætti því við að skipti Seðlabankans við bankastofnanir ættu að ráðast af peningamálastefnu en ekki sjálfkrafa lánareglum varðandi atvinnuvegina. Jafnframt þessu viðurkenndi ráðh. í svari sínu að það hefði verið meginreglan að endurkeypt lán og afurðalán hefðu numið samtals um 75% þótt hann tæki að vísu fram að seinustu árin hefðu bankarnir ekki ábyrgst að heildarlánin væru nema rétt tæp 73%. Eri hann viðurkenndi að þegar um framleiðslu fyrir innlendan markað hefur verið að ræða virðist heildarlánafyrirgreiðslan hafa lækkað verulega. Hann nefndi í því sambandi að lækkunin næmi væntanlega úr 71% og niður í 62.5%. Þetta eru talsverð tíðindi og ég vil þakka ráðh. fyrir þessar upplýsingar sem hafa ekki legið jafn berlega fyrir áður. Þetta hefur hins vegar verið mönnum næsta ljóst, enda ekki skort umkvartanir.

Hæstv. ráðh. bætti því við í svari sínu hér áðan að áðurgreindum lækkunum endurkaupa Seðlabankans hefði ekki fylgt nein tilslökun í bindiskyldu. Þetta er nú einmitt eitt af því sem menn hafa rekið augun í. Auðvitað er það laukrétt, sem hann sagði hér áðan, að skilyrði til þess að bankarnir geti tekið á sig auknar byrðar er það að þeir fái til þess nokkurt svigrúm. Hann nefndi að þá kæmi tvennt til greina, annaðhvort lækkun bindingarinnar eða svigrúm til erlendrar lántöku á móti. Þar af leiðir að hann svaraði í raun þeirri spurningu minni jákvætt sem fólst í þriðja lið spurningalistans, að þessar breytingar hefðu leitt til þess að í auknum mæli væri vísað á erlendar lántökur. Hann sagði að vísu að á þetta hefði ekki mikið reynt varðandi Landsbankann og Útvegsbankann vegna þess að þeir hefðu þegar verið búnir að safna verulegum skuldum áður og ekki hefði verið um auknar erlendar lántökur að ræða hjá þessum bönkum að svo komnu máli, en aðrar innlánsstofnanir hefðu tekið aukin lán í þessu skyni og upphæðin næmi um 135 millj. kr. um miðjan október.

Ráðh. sagði að ráðgert væri að stíga til fulls það skref að afnema sjálfvirk endurkaup Seðlabankans og bætti þá við varðandi hina munnlegu fsp. mína áðan að þá yrði væntanlega gerð breyting á bindiskyldunni samhliða. Hér er því miður ekki tækifæri til að rökræða þetta mál frekar eða benda á augljósar hættur í þessu sambandi. En á það vil ég minna að lokum að það hlýtur að geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir byggðarlög þar sem framleiðsluatvinnuvegirnir eru meginþáttur atvinnulífs, ef viðskiptabönkum í viðkomandi byggðarlögum er ætlað að taka við þessum lánum og aðeins kemur brottfall bindiskyldu á móti. Það er hætt við að þá þrengist verulega útlánamöguleikar hjá slíkum lánastofnunum. Afurðalánin og bindiskyldan hafa verið ákveðið jöfnunartæki í okkar banka- og viðskiptakerfi og ég held að það hljóti að vera áhyggjuefni hvað við tekur þegar þetta jöfnunartæki er af lagt. Þetta vildi ég sem sagt að hæstv. ráðh. íhugaði í þessu sambandi í fyllingu tímans, eins og hann tók sjálfur til orða.