18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

Um þingsköp

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég hygg að þessi fsp., sem hv. 7. þm. Reykv. vék að, sé ekki efst á blaði af þeim sem ósvarað er hér í hv. Sþ. En til þess að geta veitt svar við spurningu þarf að vita um svarið. Í fyrri lið þessarar fsp. er spurt hversu mörg tonn af óunnu kjöti eru flutt frá Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum til vinnslu í Reykjavík. Ég býst við að flestum hv. alþm. sé ljóst að svar við þessari spurningu muni ekki liggja í landbrn. og það kom einnig í ljós að svar var ekki til hjá neinum opinberum aðila. Þess vegna varð að senda viðkomandi aðilum, sem taka á móti kjöti og flytja það hingað til Reykjavíkur, fsp. um það hvað mikið hefði verið flutt á þeirra vegum. Þegar ég spurði um það nú í morgun í rn. hafði ekki borist svar frá þeim. Ég býst ekki við að það sé nein lagaskylda fyrir þá að svara en ég vænti þess að þeir geri það svo fljótt sem kostur er. Ég veit ekki heldur hversu auðvelt það er fyrir þá að finna þetta nákvæmlega upp á tonn, hvað er óunnið af kjöti sem flutt er, en vænti sem sagt upplýsinga frá þeim. En fyrr en þær upplýsingar hafa borist, sem um hefur verið beðið, sé ég mér því miður ekki fært að svara þessari fsp.