18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

229. mál, uppboð á fiskiskipum

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 4. þm. Suðurl. Margréti Frímannsdóttur leyft mér að bera fram við hæstv. sjútvrh. eftirfarandi fsp.:

„1. Hefur sjútvrh. í hyggju að gera einhverjar ráðstafanir til að koma í veg fyrir nauðungaruppboð á þeim fiskiskipum sem skulda umfram veð?

2. Mun sjútvrh., ef til uppboða kemur, beita sér fyrir því að skip hverfi ekki úr þeim byggðarlögum þar sem þau eru burðarásar atvinnulífs?

3. Hyggst sjútvrh. grípa til aðgerða til lausnar á vanda þess fólks sem kann að missa atvinnu sína af völdum rekstrarstöðvunar fyrirtækja í sjávarútvegi eða uppboða á fiskiskipum á næstunni?“

Það er út af fyrir sig sennilega ekki þörf á að hafa mörg orð um það mál sem hér er spurt um. Hv. þm. kannast væntanlega flestir við það sem hér er á ferðinni. Það er ljóst að miklir atvinnuhagsmunir tengjast þessu máli. Mörg þau skip, sem hér eiga í hlut, eru burðarásar atvinnulífs í sínum byggðarlögum. Í mínu kjördæmi veit ég a.m.k. um tvö skip sem talin eru vera á þessum fræga lista og þar eiga beinna atvinnuhagsmuna að gæta a.m.k. 200 manns auk allra þeirra sem óbeinna hagsmuna eiga þarna að gæta. Ég spyr því og við spyrjum fyrst og fremst um það hvað ríkisstj. sjálf og hv. sjútvrh. í hennar nafni hyggst gera — og þá á ég við fyrir utan bréfaskriftir með almennum tilmælum til Fiskveiðasjóðs. Við höfum um það dæmi frá síðustu dögum að það eru fleiri lánadrottnar sem eiga hagsmuna að gæta en Fiskveiðasjóður í þessu efni og það kann því að duga skammt og einungis í vissum tilfellum að beint sé almennum tilmælum til hans. Inn í þetta mál koma einnig skuldir ýmissa annarra viðskiptamanna þessara útgerðaraðila, sjálfskuldarábyrgðir bæjarfélaga og sveitarfélaga og svo mætti lengi telja.

Það er ljóst að uppboð skv. þeim hugmyndum, ef að þeim verður staðið með þeim hætti sem ríkisstj. gerir tillögur til Fiskveiðasjóðs um, eru ákveðin pennastriksaðgerð. En ég óttast að áhrif þeirrar aðgerðar verði þau eða geta orðið þau að stóri bróðirinn í þessu dæmi sem gjarnan er Fiskveiðasjóður eða ríkissjóður, hafi sitt á þurru en ýmsir aðrir, sem hagsmuna eiga að gæta, verði blóðmjólkaðir.

Ég þekki vel til í nokkrum af þessum fyrirtækjum. Ég veit til að mynda um að eitt af þessum fyrirtækjum, sem gerir út skip, vel rekið fyrirtæki, gerði um það till. til Fiskveiðasjóðs hvernig það treysti sér til að reyna að borga af sínu skipi á næstu árum. Það setti upp áætlun miðað við 3000 tonna afla og reyndi þar að teygja sig eins langt og þeir töldu nokkurn grundvöll vera til að borga af lánum skipsins. Því til viðbótar ætlaði fiskvinnslufyrirtækið, sem vinnur úr afla þessa skips og er í tengslum við það, að greiða ákveðið hundraðshlutfall af framleiðsluverðmæti sinnar framleiðslu og það ætlaði einnig að teygja sig eins langt og það treysti sér til.

Ég er þeirrar skoðunar að það hefði verið heppilegra fyrir alla aðila að ganga til samkomulags á þessum grundvelli og að uppboð sem slík kosti fremur peninga en að framleiða nokkur verðmæti. Það verða engir peningar til við uppboð, þvert á móti kostar það sitt fyrir utan allar þær áhyggjur og allt það öryggisleysi sem af þessu stafar.

Við í Alþb. höfum sett fram okkar till. um málsmeðferð í þessum efnum. Það er ljóst að hæstv. ríkisstj. hyggst fara öðruvísi að. Svo virðist reyndar að nauðungaruppboð séu einn af hornsteinum stjórnarstefnu þessarar ríkisstj. Nauðungaruppboð í sjávarútvegi og nauðungaruppboð almennt í þjóðfélaginu, þeim fer fjölgandi dag frá degi. En þessi nauðungaruppboðsstefna er harður dómur á þau byggðarlög og á þá menn sem varist hafa hetjulega við að gera þessi skip út á undanförnum árum. Þetta er harður dómur á íslenskan sjávarútveg og þetta er þó allra þyngstur örlagadómur fyrir þá þjóð sem á allt sitt undir íslenskum sjávarútvegi. Þetta er dómur um það að endurnýjun íslenska fiskiskipaflotans er ekki möguleg við ríkjandi aðstæður. Þetta er sem sagt dauðadómur á viðleitni þeirra manna sem hafa haft á því trú að íslenskur sjávarútvegur ætti nokkurn rétt á sér og það væri einhver grundvöllur fyrir því að standa að honum eins og öðrum atvinnurekstri, þ.e. að hægt væri að endurnýja með eðlilegum hætti þau atvinnutæki sem þessi atvinnuvegur byggist á.

Þetta er harður dómur og því höfum við hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spurt hæstv. sjútvrh. hvað ríkisstj. hefur á takteinunum í þessu máli, hvað hún hyggst gera. Ég held að það sé fyllilega réttlætanlegt þó að annir ríki hér á þinginu, herra forseti, að eyða fáeinum mínútum í þetta mál. A.m.k. tel ég það ekki síður réttlætanlegt en ýmsar þær umr. sem fóru hér fram í fyrirspurnatíma um síðasta mál sem hér var á dagskrá.