18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

229. mál, uppboð á fiskiskipum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 4. þm. Norðurl. e., spyr í fyrsta lagi: „Hefur sjútvrh. í hyggju að gera einhverjar ráðstafanir til að koma í veg fyrir nauðungaruppboð á þeim fiskiskipum sem skulda umfram veð?“ Um þetta er það að segja að stjórnvöld hafa á þessu ári gripið til mjög víðtækra ráðstafana til fjárhagslegrar endurskipulagningar í sjávarútvegi. Skuldbreyting stofnlána fiskiskipa skiptir þar mestu. Gefinn var kostur á eins til sjö ára lengingu á stofnlánum, endurlán á vanskilum og allt að 60% afslætti af vöxtum 1984 og 1985 í stofnlánasjóðum.

Samhliða þessum aðgerðum hefur verið unnið að skuldbreytingu viðskiptaskulda útgerðar og fiskvinnslu. Þessar aðgerðir hafa komið í veg fyrir að mikill fjöldi skipa ætti ekki fyrir, eða gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Það má því segja varðandi þessa spurningu að þegar hafi verið gerðar mjög miklar ráðstafanir til að forða slíku.

Það er hins vegar ljóst að í nokkrum tilvikum verður ekki hægt að tryggja það að viðkomandi aðilar geti staðið við sínar skuldbindingar og er þá komið að öðrum lið: „Mun sjútvrh. ef til uppboða kemur,“ — og þá er gengið út frá því að til þeirra komi — „beita sér fyrir því að skip hverfi ekki úr þeim byggðarlögum þar sem þau eru burðarásar atvinnulífs?“

Um þennan vanda, sem skapast vegna þeirra, hefur verið fjallað á ríkisstjórnarfundum og samþykkti ríkisstj. eftirfarandi bókun 11. des. 1984:

Ríkisstj. beinir því til stjórnar Fiskveiðasjóðs að þeim fiskiskipum, sem sjóðurinn kann að eignast á næstu mánuðum, verði ráðstafað með eftirgreind meginsjónarmið í huga. Fiskveiðasjóður ákveður viðmiðunarverð fyrir einstök fiskiskip miðað við ákveðinn greiðslutíma og greiðslukjör. Útgerðaraðilum í þeim byggðarlögum, sem hafa byggt afkomu sína á útgerð skipanna, verði að höfðu samráði við sjútvrn. gefinn kostur á að semja um kaup á skipunum með framangreindum kjörum, enda bjóði aðrir aðilar ekki betra heildarverð og greiðslukjör.“

Um þetta atriði er stjórn Fiskveiðasjóðs að fjalla og það er ekki enn búið að ganga frá öllum málum. Gefinn hefur verið lokafrestur til áramóta til að ganga frá þeim málum sem enn eru í vinnslu. Það liggur fyrir að allt hefur verið gert sem frekast er kostur til að viðkomandi aðilar gætu skuldbreytt sínum skuldum.

Um síðustu spurninguna er það að segja, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í sjávarútvegsmálum á þessu ári, hafa komið í veg fyrir stórfellda rekstrarstöðvun fyrirtækja og atvinnuleysi.

Um málið almennt og það sem hv. þm. sagði hér skal ég játa að ég skildi ekki alveg fullkomlega með hvaða hætti hann vildi ganga frá þessum málum. Hann sagði að rétt væri að ganga til samkomulags — ég skildi hann svo — um nánast það sem menn treystu sér til að borga. Nú eru það fleiri aðilar í landinu, sem eru í miklum erfiðleikum, en þessi skip. Það eru mörg skip sem skulda ekki stofnlánasjóðunum og ekki eiga kost á því að semja við opinbera aðila. Ef eiga að fara að gilda allt aðrar reglur um þá en hina er stórkostlega farið að mismuna aðilum.

Hv. þm. sagði einnig að þetta þýddi að endurnýjun væri ekki möguleg með eðlilegum hætti. Ég skil það svo að hann sé að mæla fyrir því að það eigi að endurnýja skip og fara í fjárfestingu alveg án tillits til þess hvort það muni skila sér eða ekki. Ég skildi hann svo og ég skildi að hann væri hér að mæla fyrir munn síns flokks. Það liggur fyrir að þessi fjárfesting við núverandi afla getur ekki staðið undir sér. Það verður að gera þau mál upp og eftir því sem það dregst lengur, þeim mun sárara verður það.

Það er búið að vera að tala um það til margra ára og það er ekkert um annað að ræða en að ganga til þessa uppgjörs. En ég er hins vegar sammála því að það ber að taka tillit til þeirra byggðarlaga sem þarna eiga mikið í húfi. Þeim tilmælum hefur verið beint til stjórnar Fiskveiðasjóðs. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvernig vinnst úr þeim málum á næstunni. Það er því miður ekki hægt að fullyrða algjörlega hvernig því muni lykta frekar en öðrum skuldamálum í þjóðfélaginu.