18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

229. mál, uppboð á fiskiskipum

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir að vakin er athygli á þessu máli. Þetta er vissulega mjög brennandi á ýmsum þessa dagana. Það er ljóst að milli tíu og tuttugu skip verða boðin upp. Með hvaða hætti síðan verður gengið frá þeirra málum, það er það sem hér er verið að velta fyrir sér. Ég held að ég geti tekið undir það með hæstv. ráðh. að það er verst fyrir byggðarlögin sjálf að horfa ekki á staðreyndir, það er búið að benda mönnum á þetta æði lengi. Ég veit heldur ekki nákvæmlega hvað hv. fyrirspyrjandi átti við þegar hann talaði um að ákveðið fyrirtæki teygði sig eins langt og mögulegt væri. Ef það er það sama dæmi og ég hygg að það sé þá teygði það sig u.þ.b. svo langt að það nægði til að standa undir greiðslum af u.þ.b. helmingi þeirrar skuldar sem áhvílandi var, lengra var ekki hægt að ganga. Mér er líka kunnugt um það ef þetta ákveðna dæmi er það sama og við erum að tala um báðir, að þegar það skip var keypt þurfti það að fiska u.þ.b. 12000 tonn á ári til að geta með nokkru móti staðið undir sér. Þetta vissu menn auðvitað að var ekki hægt.

Það er misjöfn staða hjá ýmsum þessara skipa og erfitt að setja neinar almennar reglur í þeim efnum. En hitt er alveg ljóst að mörg þeirra geta ekki borið sig með nokkru móti miðað við þann afla sem nú verður dreginn úr sjó. Ég held að það sé rétt sem ráðh. sagði að lengra verði ekki gengið með neinum almennum aðgerðum en þegar er búið að gera. Sumum finnst þegar meira en nóg að gert með almennum aðgerðum til skuldbreytinga í þessum sérstaka atvinnuvegi. Það er rétt að það verður ekki lifað lengi hér í landi ef skipin úreldast og við höfum ekki ráð á að endurnýja þessi atvinnutæki okkar. En þann vanda sem við höfum steypt okkur út í með of mikilli fjárfestingu á þessu sviði, verður að gera upp og því fyrr því betra.