18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

229. mál, uppboð á fiskiskipum

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil á engan hátt gera lítið úr þeim vandamálum sem hér er við að etja. Hins vegar verða þau ekki umflúin. Það er ekki svo létt að ganga frá slíkum málum með almennum ráðstöfunum og þá spyrja menn: Hver á að greiða það?

Ég get tekið sem dæmi að skip sem skuldar t.d. Fiskveiðasjóði 220 millj. á skv. öllu eðlilegu, vegna þeirra vaxta sem við verðum að greiða erlendis, að greiða 22 millj. á ári bara í vexti. Það má gera ráð fyrir því að aflaverðmæti þessa skips séu 35–40 millj. hið mesta. Með þeim vaxtaafslætti, sem hefur verið ákveðinn, eru vextir 4% og þar með 13.2 millj. í vaxtaafslátt af þessu hugsaða dæmi. Þetta er að sjálfsögðu vaxtaafsláttur sem er tekinn af sjávarútveginum í heild vegna þess að útflutningsgjöld renna til Fiskveiðasjóðs og íslenskir útgerðarmenn og sjómenn þurfa að greiða það. Ef við ætlum að halda áfram að reka okkar sjávarútveg með því að byggja slík skip eins og hver vill og gefa mönnum síðan kost á að semja þannig að allir borga eins og þeir treysta sér til með góðu móti, þá verður lítill arður eftir í þessari atvinnugrein til að standa undir íslensku þjóðarbúi og til þess að bæta kjör þjóðarinnar. Það mættu menn jafnframt hafa í huga, þegar þessi mál eru rædd, án þess að ég sé á nokkurn hátt að gera lítið úr þeim vandamálum sem menn standa víða frammi fyrir. En það vandamál verður ekki leyst með því að hlaupa undan því ef menn meina eitthvað með því að ætla sér að bæta kjörin í landinu.