18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

212. mál, innkaup opinberra aðila á innlendum iðnaðarvörum

Fyrirspyrjandi (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Hinn 2. apríl 1981 samþykkti Alþingi þáltill. um innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum sem hljóðaði þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir, í samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga, að fram fari athugun á því eftir hvaða leiðum sé unnt að auka verulega frá því sem nú er innkaup ríkis, sveitarfélaga og stofnana og fyrirtækja þeirra, er leiði til eflingar íslenskum iðnaði, og útboð verði notuð á markvissan hátt til að stuðla að iðn- og vöruþróun í landinu.“

Þessi till. hafði verið fyrst flutt af mér á þinginu 1978–1979. Till. var mjög vel tekið af fulltrúum allra flokka sem hvöttu til samþykktar hennar og framkvæmdar. Hún náði þó ekki fram í það sinn og var endurflutt á þinginu 1979–1980, en það var ekki fyrr en á þinginu 1980–1981 að hún hlýtur samþykki. En þótt gengið hafi erfiðlega að fá jafngott mál og þetta samþykkt er hitt verra ef framkvæmdin er lítil sem engin og þannig sniðgenginn vilji Alþingis.

Í grg. með þáltill. sagði m.a.:

„Staðreynd er, að það er á ýmsum öðrum sviðum sem mögulegt ætti að vera að hafa áhrif á innkaup er varða hag íslensks iðnaðar. Umsvif fjármála ríkis og sveitarfélaga eru mikil í þjóðarbúinu. Auk þess sem útgjöld opinberra aðila hafa bein áhrif á heildareftirspurn í þjóðarbúskapnum getur markviss beiting þeirra reynst mikilvægt tæki til áhrifa á einstakar atvinnugreinar, ekki síst á hagræna og tæknilega framþróun íslensks iðnaðar ...

Innkaupum opinberra aðila má einkum skipta í eftirfarandi flokka, eftir eðli þeirra: rekstrarvörur, þjónustu og fjárfestingarvörur.

Verulegum fjárhæðum er varið á vegum ríkis og sveitarfélaga til kaupa á hinum margvíslegustu rekstrarvörum. Má í því sambandi nefna innanstokksmuni, hreinlætisvörur, pappírsvörur og margvíslegar aðrar rekstrarvörur til skóla, sjúkrahúsa og annarra stofnana. Sama gildir um margvíslega viðhalds- og viðgerðarþjónustu þessara stofnana, svo sem Hafrannsóknastofnunar, Landhelgisgæslu, skipaútgerðar ríkisins og fjölmargra annarra.

Þeim aðferðum, sem beitt er í opinberum innkaupum, má skipta í bein innkaup, innkaup eftir að fram hefur farið sérstök verðkönnun og loks útboð. Varðandi útboð skal sérstaklega bent á nauðsyn þess að lengd skilafrests og stærð útboðseininga sé hagað þannig að innlendir framleiðendur geti boðið í verkin.“ Í skilgreiningum sé ekki einskorðað við ákveðnar erlendar gerðir, heldur séu þær almenns eðlis og taki mið af möguleikum íslensks iðnaðar.

Flm. till. þessarar vill minna á samþykkt sem gerð var fyrir nokkrum árum í borgarstjórn Reykjavíkur um innlend innkaup, þar sem sú stefna er mörkuð í innkaupum, að heimilt sé að taka tilboð innlendra aðila fram yfir erlendra, þótt verð hinnar innlendu vöru sé allt að 15% hærra, en gæði sambærileg. Flm. telur nauðsynlegt að slík regla eða svipuð verði tekin upp fyrir öll opinber fyrirtæki og er eðlilegt að slíkt verði metið í tengslum við þá athugun sem hér er lagt til að fram fari.

Það er ljóst, að þjóðarbúskapur okkar verður um ófyrirsjáanlega framtíð háður viðskiptum við önnur lönd. Benda má þó á, að í auknum mæli ber að athuga vandlega þegar um meiri háttar viðskipti hins opinbera er að ræða við erlenda aðila, sem innlendir framleiðendur ráða ekki við sem heild vegna umfangs verksins og tæknilegra atriða, að farið sé inn á þá braut að semja um að hluti framleiðslunnar fari fram hér innanlands. Auk þess sem slíkt eykur hlut innlendra aðila í innkaupum getur slíkt stuðlað mjög að flutningi nýrrar tækniþekkingar inn í landið.

Loks skal bent á þau tækifæri sem opinber innkaup bjóða varðandi nýjungar í framleiðslu og ný iðnaðartækifæri. Íslensk framleiðslufyrirtæki eiga oft erfitt með að takast á við meiri háttar vöruþróunarverkefni, þar sem áhætta er mikil. Víða erlendis hafa stjórnvöld gert sér grein fyrir hversu mikilvægu hlutverki opinberir aðilar geta gegnt á þessu sviði, með því að fela fyrirtækjum að leysa ákveðin tæknivandamál varðandi framleiðslunýjungar á þann hátt að greiða fyrir verkefni skv. samningi eða tryggja lágmarkssölu framleiðsluafurða. Slíkur stuðningur við nýsköpun er fjarri því að vera eingöngu hagsmunamál fyrirtækjanna sjálfra, heldur þjóðarinnar í heild. Því er nauðsynlegt að hið opinbera stuðli að slíkri starfsemi og geri hana eftirsóknarverða.“

Hér að framan var sagt frá tillögu sem samþykkt var í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir nokkrum árum um opinber innkaup. Því miður hefur hún ekki verið framkvæmd sem skyldi og það væri hægt að nefna mýmörg dæmi um hvernig unnið hefur verið í þveröfuga átt við það sem í þáltill. sagði. Nýjasta dæmið, sem gert hefur verið opinbert, eru erlend innkaup á hillum í bókasafn í Reykjavík. Eins hefur verið skýrt frá í fjölmiðlum að nefnd á vegum Seðlabankans hafi farið út í heim til að kaupa innréttingar og húsgögn í nýju höllina í stað þess að kaupa innlend. Svona mætti lengi telja.

Ljóst er að íslenskir framleiðendur ráða vel við þessi tvö dæmi, sem hér er minnst á, ef þeir fengju tækifæri til þess. En því er ekki að heilsa. Þvert á móti sýnist oft vera stuðlað að því að flytja inn atvinnuleysi og tefja framþróun íslensks iðnaðar. Það er því full ástæða til að minna á þáltill. frá 1981 um opinber innkaup og því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. iðnrh. eftirfarandi spurninga:

„1. Hvað hefur verið gert af hálfu rn. til að auka innkaup opinberra aðila á innlendum iðnaðarvörum, sbr. þál. sem samþykkt var á Alþingi 1981?

2. Hvaða áform eru núna fyrirhuguð í þessum efnum?“