18.12.1984
Sameinað þing: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

212. mál, innkaup opinberra aðila á innlendum iðnaðarvörum

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Till. þessi, sem hv. þm. spyr um framkvæmd á, var samþ. 2. apríl 1981 á hinu háa Alþingi og ári síðar, hinn 1. júní, flytur þáv. iðnrh. till. í ríkisstj. um ríkisstjórnarsamþykkt um fyrirmæli til stofnana og fyrirtækja ríkisins varðandi opinbera innkaupastefnu, og segir þar m.a.:

„Í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmála og með hliðsjón af þáltill. frá 2. apríl árið 1981 um innkaup opinberra aðila ályktar ríkisstj. að beina eftirfarandi fyrirmælum til allra stofnana og fyrirtækja ríkisins að svo miklu leyti sem þau geta átt við“, og vitna ég hér orðrétt til þessarar samþykktar, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki skulu leitast við að kaupa íslenskar vörur til opinberra nota, enda telji yfirmaður eða stjórn viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis

a) að kaupin séu þjóðhagslega hagkvæm,

b) að kaupverð vara sé eðlilegt,

c) að gæði þeirra séu fullnægjandi.

2. Ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki skulu stuðla að iðnþróun og vöruþróun í landinu á markvissan hátt með því m.a. að leitast við að haga útboðum, hönnunarsamningum og verksamningum þannig að þeir miðist við íslenskar vörur og aðstæður.

3. Hvert rn. skal sjá um framkvæmd þessara fyrirmæla gagnvart þeim fyrirtækjum og stofnunum sem undir það heyra.

4. Viðkomandi ríkisstofnanir og fyrirtæki skulu senda því rn. sem þær heyra undir svo og Innkaupastofnun ríkisins hálfsárslegt yfirlit um innkaup þau sem fyrirmæli þessi ná til. Skýrslur þessar skulu vera stuttar og aðgengilegar, þannig að yfirlit fáist um árangur þessarar samþykktar. Skulu meginniðurstöður kynntar ríkisstj. fyrir hvert misseri.

5. Til þess að fylgja eftir framkvæmd þessarar ályktunar samþykkir ríkisstj. að skipa sérstaka samstarfsnefnd um opinber innkaup.“

Tilvitnun lýkur í þessa samþykkt ríkisstj. frá 1. júní 1982.

Í framhaldi af þessu voru síðan settar starfsreglur fyrir samstarfsnefnd um opinber innkaup og er sú nefnd skipuð sjö mönnum og eins og segir í 2. gr., með leyfi forseta:

„Iðnrh., fyrir hönd ríkisstj., skipar menn í samstarfsnefndina til þriggja ára í senn. Einn mann án tilnefningar og eftir tilnefningu einn mann frá Félagi ísl. iðnrekenda, einn frá Landssambandi iðnaðarmanna, einn frá Verktakasambandi Íslands, tvo frá Alþýðusambandi Íslands og einn frá fjmrn. Ráðh. skipar formann úr hópi nefndarmanna.“

Þessi nefnd starfaði undir forustu Jafets Ólafssonar, fyrrv. deildarstjóra í iðnrn., og mun hafa haldið allmarga fundi, en eins og ég segi er erfitt að meta hver árangur hafi orðið, og víst er um það að ég tel að hér sé um mjög mikilsvert mál að ræða sem þurfi að leggja áframhaldandi mjög mikla áherslu á.

Vegna opinberrar innkaupastefnu flutti ég í núv. ríkisstj. hinn 11. jan. till. um opinbera innkaupastefnu, þar sem segir svo:

Ríkisstj. samþykkir að beina eftirfarandi fyrirmælum til allra stofnana og fyrirtækja ríkisins í því skyni að efla innlenda atvinnustarfsemi“, og er tilvitnun, með leyfi forsetans virðulegs:

„1. Ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki skulu leitast við að kaupa íslenskar vörur til opinberra nota.

2. Ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki skulu leitast við að hafa útboð á hönnunar- og verksamningum þannig að þeir miðist eins og frekast er kostur við íslenskar vörur og atvinnustarfsemi.

3. Hvert rn. skal sjá um framkvæmd þessara fyrirmæla gagnvart þeim fyrirtækjum og stofnunum sem undir það heyra.“

Síðan, hinn 18. jan., skrifaði ég til allra stofnana og fyrirtækja, er heyra undir starfssvið iðnrn., bréf þar sem ég vitnaði til þessarar samþykktar, en sagði síðan, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytið leggur á það mikla áherslu að stjórnendur stofnunar eða fyrirtækis hafi þessa samþykkt framvegis til hliðsjónar við öll innkaup. Á hálfs árs fresti skal gera rn. grein fyrir hvernig staðið er að innkaupum hjá viðkomandi stofnunum eða fyrirtæki. Rn. skal send stutt skýrsla um öll meiri háttar innkaup, af hvaða aðilum er keypt, upplýsingar um magn og verð. Skýrsla fyrir tímabilið 1. jan. til 31. júní skal berast rn. í seinasta lagi 1. des. 1984“ og verður nú gengið fram í því að innheimta þessar skýrslur, en þær hafa ekki borist sjálfviljuglega enn sem komið er.

Af mikilli áhyggju, sem ég vissulega hafði af innkaupamálum hins opinbera, bað ég Hagvang um að gera lauslegar athuganir og senda mér hugleiðingar og tillögur um innkaupamál ríkisins. Ég sendi þær hugleiðingar til allra ráðh. í ríkisstj. í október s.l., en ég vil, með leyfi forseta, kynna hv. þd. þessar lauslegu hugleiðingar sem Hagvangur sendi mér eftir minni beiðni. Segir þar, með leyfi forseta:

„Verulegur hluti af útgjöldum hins opinbera eru hvers konar vörukaup. Þessi innkaup spanna alla vöruflokka“, segir þar. „Umsjón með innkaupum ríkisins er ýmist hjá einstökum stofnunum og fyrirtækjum ríkisins eða í höndum sérstakra innkaupstofnana. Áætluð útgjöld ríkisins árið 1984 eru rúmir 18 milljarðar kr. Miðað við að vörukaup ríkisins séu um 40–50% af útgjöldum, sem er algengt hlutfali í veltu fyrirtækja, nemur sú fjárupphæð 7–9 milljörðum kr. sem varið er til vörukaupa ef þessi samanburður stenst. Með hliðsjón af þessu er ljóst mikilvægi þess að vel takist til í innkaupum og birgðahaldsmálum hjá því opinbera.

Á s.l. áratug átti sér stað veruleg vakning meðal nágrannaþjóða okkar um mikilvægi þess að leita nýrra leiða til bættrar efnisstjórnunar, þ.e. öllu því er lýtur að innkaupum, birgðahaldi, flutningatækni, framleiðslustýringu og áætlanagerð. Ýmislegt varð til þess að Ísland fór meira og minna varhluta af umræddu átaki. Í þessu sambandi má nefna m.a. mikla verðbólgu, sem gerði öll innkaup vöru til endursölu varasama hjá innflytjendum, en ýtti undir hamstur hjá opinberum aðilum, og nefna má í því sambandi til að mynda Rafmagnsveitur ríkisins.

Aðstæður hér á landi“, segir enn í þessum hugleiðingum, „til að koma við bættri efnisstjórnun hafa batnað verulega nú í seinni tíð, m.a. með auknu framboði flutningavalkosta“, stendur hér, það eiga að vera flutningakostir auðvitað, — „auk þess sem efnahagsforsendur eru nú til staðar sem gera mögulegt að hægt sé að endurskoða vinnubrögð við innkaup og birgðahald og að tekið sé á þessum málum með nýjum skilningi.“

Síðan gera þeir í fimm liðum stuttar tillögur um athugun á innkaupamálum ríkisins og er hin fyrsta svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Lagt er til að athugað verði hvar megininnkaup ríkisins fari fram og hvers eðlis þau séu. Kannað verði hvernig vörukaup eru í meginafriðum skipulögð hjá ríkinu.

2. Athugaðar verði þær reglur sem gilda um vörukaup ríkisins og hvernig þeim er framfylgt. Sérstaklega verði lögð áhersla á að athuga hvernig þeir aðilar,sem sjá um innkaup ríkisins, eru faglega í stakk búnir til að sinna innkaupum.

3. Hlutverk Innkaupastofnunar ríkisins og annarra innkaupastofnana verði athugað og samskipti stofnana og fyrirtækja við þær.

4. Leitað verði leiða til að koma við aukinni hagræðingu við innkaup.

5. Kannað verði með hvaða hætti sé hægt að auka markaðshlutdeild íslenskrar framleiðslu í innkaupum ríkisins.“

Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef ástæður og aðstæður til að gefa í sambandi við fsp. hv. 6. þm. Suðurl., en ég endurtek að þetta er ákaflega mikilvægt mál sem þarfnast aukinnar umönnunar og ég mun enda í framhaldi af þessum athugunum, sem gerðar hafa verið, og þeim tillögum, sem ég hef undir höndum, leggja aukna áherslu á að mál þetta verði tekið nýjum og föstum tökum.