18.12.1984
Sameinað þing: 36. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2181 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

36. mál, laxveiðileyfi opinberra stofnana og fyrirtækja

Fyrirspurnin hljóðar svo:

„1. Hvaða embætti og stofnanir ríkisins eða fyrirtæki, sem ríkið er eignaraðili að, keyptu laxveiðileyfi á árunum 1980, 1981, 1982 og 1983?

2. Hvaða upphæðir greiddu fyrrnefndir aðilar árlega fyrir laxveiðileyfi?

3. Hvaða einstaklingar nýttu laxveiðileyfi þau sem keypt voru?“

Svar: Forsætisráðuneytið sendi fyrirspurnina til allra ráðuneytisstjóra ásamt bréfi þar sem m.a. sagði:

„Þess er hér með farið á leit, að þér veitið umbeðnar upplýsingar af hálfu ráðuneytis yðar og þeirra stofnana ríkisins eða fyrirtækja, sem ríkið er eignaraðili að og heyra undir ráðuneyti yðar.“

Svör hafa nú borist frá öllum ráðuneytum og skulu rakin hér:

Svar forsætisráðuneytis:

Forsætisráðuneytið keypti engin laxveiðileyfi og hið sama gildir um Þjóðhagsstofnun og embætti húsameistara ríkisins. Svar Framkvæmdastofnunar ríkisins hljóðar svo:

„Með vísun til bréfs yðar, dags. 14. nóvember s.l., vegna fyrirspurnar um keypt laxveiðileyfi opinberra stofnana 1980–1983:

Framkvæmdastofnun ríkisins keypti laxveiðileyfi á umræddu tímabili: 1981 fyrir kr. 12 000, 1982 kr. 21 600 og 1983 kr. 35 100.

Starfsmenn stofnunarinnar nýttu veiðileyfi ásamt gestum hennar.“

Í skrifstofu forseta Íslands fengust þær upplýsingar, að þar hefðu engin laxveiðileyfi verið keypt.

Svar dómsmálaráðuneytis:

„Skírskotað er til bréfs forsætisráðuneytis, dags. 14. f. m., varðandi fyrirspurn um keypt laxveiðileyfi á vegum embætta og stofnana ríkisins. Eftir könnun á þessu efni og að höfðu samráði við ríkisendurskoðun þykir mega fullyrða, að embætti eða stofnanir, sem heyra undir þetta ráðuneyti, hafi ekki leitað slíkra leyfa eða slíkur kostnaður komið á reikninga þeirra þau ár, sem um er spurt. Reyndar mundi svarið vera hið sama, þótt spurt væri um jafnmarga áratugi og ár.“

Svar félagsmálaráðuneytis:

„Með vísun til bréfs yðar, dags. 14. f.m., þar sem spurst er fyrir um kaup á laxveiðileyfum af hálfu þessa ráðuneytis og embætta þeirra og stofnana, sem undir það heyra, á árunum 1980, 1981, 1982 og 1983, vill ráðuneytið hér með tjá yður að hvorki ráðuneytið né þær stofnanir og embætti, sem undir það heyra, hafa keypt laxveiðileyfi á hinum tilgreindu árum, né öðrum og fyrri árum.

Þetta tilkynnist yður hér með.“

Svar fjármálaráðuneytis:

„Vísað er til bréfs forsætisráðuneytisins, dags. 14. nóv. s.l., um kaup laxveiðileyfa.

Eigi er það í minnum manna hér í ráðuneytinu eða stofnunum þess að laxveiðileyfi hafi verið keypt á árunum 1980, 1981, 1982 og 1983.

Á árinu 1984 varði ráðuneytið hins vegar 500 kr. til kaupa á tveimur leyfum til að veiða silung í Meðalfellsvatni hálfan dag. Tveir erlendir viðsemjendur ríkissjóðs um skattamál þáðu leyfi þessi.“

Fyrirspurnin var einnig send Fjárlaga- og hagsýslustofnun og ríkisendurskoðun og kom fram í skriflegu svari, að af hálfu hvorugs þess aðila hafa verið keypt laxveiðileyfi.

Svar Hagstofu Íslands.

„Hagstofan hefur aldrei keypt laxveiðileyfi.“

Svar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis:

„Ráðuneytið vísar til bréfs forsætisráðuneytisins frá 14. nóvember s.l., þar sem óskað er upplýsinga af hálfu ráðuneytisins og stofnana er undir ráðuneytið heyra um það, hvaða aðilar keyptu laxveiðileyfi á árunum 1980, 1981, 1982 og 1983, svo sem nánar greinir í bréfinu. Ráðuneytið hefur fengið svör frá stofnunum, svo sem hér greinir:

1. Frá Tryggingastofnun ríkisins, þar sem segir að engin laxveiðileyfi hafi verið keypt af Tryggingastofnun ríkisins á árunum 1980, 1981, 1982 og 1983.

2. Frá Atvinnuleysistryggingasjóði, þar sem segir að Atvinnuleysistryggingasjóður hafi aldrei keypt laxveiðileyfi.

3. Frá Lyfjaeftirliti ríkisins, þar sem segir að Lyfjaeftirlitið hafi aldrei keypt eða nýtt laxveiðileyfi á kostnað hins opinbera.

4. Frá landlækni, þar sem segir að landlæknisembættið hafi ekki keypt nein laxveiðileyfi á árunum 1980–1983.

5. Frá Hollustuvernd ríkisins, þar sem segir að frá því hún tók til starfa, 1. ágúst 1982, hafi engin laxveiðileyfi verið keypt.

6. Frá St. Jósefsspítala, Landakoti, þar sem segir að St. Jósefsspítali, Landakoti, hafi hvorki fyrr né síðar keypt laxveiðileyfi né nein önnur veiðileyfi.

7. Frá Fjórðungssjúkrahúsinu, Akureyri, þar sem segir að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri muni ekki hafa keypt laxveiðileyfi, hvorki þau ár sem spurt er um né önnur ár.

8. Frá ríkisspítölum, þar sem segir að ríkisspítalar hafi engin laxveiðileyfi keypt á árunum 1980–1983. Á hinn bóginn er upplýst að tekjur ríkisspítalanna af veiðihlunnindum námu 34 þús. kr. á árinu 1983.

Þá er þess að geta, að af hálfu ráðuneytisins sjálfs hafa aldrei verið keypt laxveiðileyfi né önnur veiðileyfi. Ráðuneytið væntir þess að forsætisráðuneytið telji þessi svör fullnægjandi um aðild heilbrigðisstofnana að kaupum veiðileyfa fyrrgreind ár.“

Svar iðnaðarráðuneytis:

„Vísað er til bréfs forsætisráðuneytisins, dags. 14. nóvember s.l., varðandi fyrirspurn til forsætisráðherra um kaup á laxveiðileyfum.

Hjálagt sendast svör Íslenska járnblendifélagsins og Landsvirkjunar, en aðrar stofnanir og fyrirtæki, sem heyra undir iðnaðarráðuneytið, voru með neikvæð svör.“

Íslenska járnblendifélagið hf.

„Járnblendifélaginu hefur símleiðis borist fyrirspurn um kaup félagsins á laxveiðileyfum o. fl. í því sambandi vegna fyrirspurnar um þetta efni, sem mun hafa verið lögð fyrir forsætisráðherra á Alþingi.

Vegna þessa er eftirfarandi upplýst.

1. Sumurin 1980, 1981 og 1982 keypti járnblendifélagið þrjá veiðidaga hvert ár fyrir sjö stangir til laxveiði. Sumurin 1983 og 1984 hefur þetta ekki verið gert.

2. Greiðslur fyrir þessi veiðileyfi voru: 1980 kr. 12 600, 1981 kr. 33 600 og 1982 kr. 58 800.

3. Járnblendifélagið hefur ekki haldið skrá um hverjir nýttu þessi laxveiðileyfi og getur því ekki veitt um það óyggjandi upplýsingar. Að uppistöðu til voru þessir gestir félagsins framkvæmdastjórar stærstu verktaka við byggingarframkvæmdir, hinna mikilvægustu erlendra seljenda hráefna til járnblendifélagsins og skipafélaga, sem flutt hafa efni að verksmiðjunni og frá, auk fulltrúa eigenda hennar.

Þá tóku stjórnarmenn og framkvæmdastjóri járnblendifélagsins þátt í þessum veiðiskap sem gestir og/eða gestgjafar.

Ekki er talið ráðlegt að reyna að skrá eftir minni hvaða einstaklingar nýttu veiðileyfin hverju sinni. Félagið væntir þess, að þessar upplýsingar séu fullnægjandi.“

Landsvirkjun. Landsvirkjun hefur borist orðsending ráðuneytisins, dags. 23. þ.m., ásamt erindi forsætisráðuneytisins, dags. 14. þ.m., þar sem óskað er eftir svari svo fljótt sem auðið er við spurningu um kaup Landsvirkjunar á laxveiðileyfum 1980, 1981, 1982 og 1983 og hverjir hafa nýtt þau.

Sem svar við fyrirspurn þessari skal upplýst að Landsvirkjun keypti laxveiðileyfi fyrir kr. 68 000 á árinu 1980 og fyrir kr. 144 000 á árinu 1982, en engin á árunum 1981 og 1983 og sama gildir reyndar fyrir árið 1984. Á árinu 1980 nýttu leyfin menn frá Manufacturers Hanover Trust Company, New York, Hambros Bank, London og Electrowatt Engineering Services, Zürich. Á árinu 1982 var um að ræða menn frá Manufacturers Hanover Trust Company, New York, Scandinavian Bank, London, og Electrowatt Engineering Services, Zürich. Í báðum tilvikum voru leyfin að nokkru jafnframt nýtt af fulltrúum Landsvirkjunar.

Svar landbúnaðarráðuneytis:

Ráðuneytið vísar til fyrirspurnar forsætisráðuneytisins, dags. 14. nóv. s.l., um kaup á laxveiðileyfum á vegum ráðuneytisins og stofnana þess árin 1980, 1981, 1982 og 1983.

Fyrirspurn þessi var send stofnunum ráðuneytisins og hafa svör nú borist. Eru þau öll á þann veg, sem fyrirfram var vitað, að hvorki hafi fjármunum stofnana né vinnutíma starfsmanna verið varið til kaupa og nota á laxveiðileyfum.

Engin laxveiðileyfi hafa verið keypt á vegum aðalskrifstofu ráðuneytisins.

Svar menntamálaráðuneytis:

Engin laxveiðileyfi hafa verið keypt á vegum menntamálaráðuneytis eða stofnana, sem undir það heyra, á umræddu tímabili.

Svar samgönguráðuneytis:

„Ráðuneytinu hafa borist meðfylgjandi svör, í myndriti, frá stofnunum sem heyra undir samgönguráðuneytið. Enn fremur hafa borist neitanir símleiðis frá Ferðamálaráði Íslands, Skipaútgerð ríkisins og Rannsóknanefnd sjóslysa.“

Vitastofnun Íslands.

„Vegna fyrirspurnar hins háa ráðuneytis í bréfi, dags. 19. nóv. 1984 varðandi kaup Vitastofnunar Íslands og Hafnamálastofnunar ríkisins á laxveiðileyfum, upplýsist.

Engin slík kaup hafa átt sér stað þau tuttugu og sjö ár sem ég hefi veitt stofnununum forstöðu.“ Skipulagsnefnd fólksflutninga.

„Sem svar við bréfi ráðuneytisins, dags. 19. nóv. s.l., skal fram tekið, að skipulagsnefnd fólksflutninga eða umferðarmáladeild hafa aldrei keypt laxveiðileyfi.“ Póst- og símamálastofnun.

„Með skírskotun til bréfs samgönguráðuneytisins S/090, dags. 19. nóv. s.l., varðandi kaup ríkisstofnana á laxveiðileyfum leyfi ég mér hér með að staðfesta að Póst- og símamálastofnun hefur aldrei staðið að slíkum kaupum mér vitanlega. Enn fremur skal upplýst að aðalendurskoðandi Póst- og símamálastofnunar kannast ekki við að hafa séð neitt er bendi til þess sem spurt er um.“

Landmælingar Íslands.

„Með vísun til bréfs ráðuneytisins, dags. 19. nóv. 1984, varðandi fyrirspurn um kaup ríkisstofnanna á laxveiðileyfum, er því hér með lýst yfir, að Landmælingar Íslands hafa ekki greitt fyrir eða keypt laxveiðileyfi á þeim árum sem upp eru talin í bréfi forsætisráðuneytisins, dags. 14. nóv. 1984.“

Siglingamálastofnun ríkisins.

„Svar við fyrirspurn forsætisráðuneytis varðandi kaup á laxveiðileyfum.

Siglingamálastofnun ríkisins hefur aldrei frá því að hún var stofnuð keypt laxveiðileyfi svo vitað sé.“

Vegagerð ríkisins.

„Með ofangreindu bréfi er spurst fyrir um kaup Vegagerðar ríkisins á laxveiðileyfum.

Þess finnast ekki dæmi að Vegagerð ríkisins hafi keypt laxveiðileyfi, hvorki fyrir starfsmenn sína né utanaðkomandi aðila.“

Flugmálastjórn.

„Sem svar við bréfi yðar frá 19. nóv. s.l. upplýsist það, að flugmálastjórn hefur ekki keypt laxveiðileyfi, hvorki í íslenskum né erlendum laxveiðiám á umræddum árum.“

Ferðaskrifstofa ríkisins.

„Ekkert leyfi keypt fyrir Ferðaskrifstofu ríkisins.“

Veðurstofa Íslands.

„Með vísun til bréfs hins háa samgönguráðuneytis, dags. 19. nóv. 1984, varðandi fyrirspurn um kaup laxveiðileyfa á vegum embætta stofnana og fyrirtækja ríkisins árin 1980–1983, vil ég taka fram að samkvæmt bókhaldsgögnum Veðurstofunnar hefir hún engin laxveiðileyfi keypt á umræddu tímabili.“

Svar sjávarútvegsráðuneytis:

„Með vísan til bréfs forsætisráðuneytisins, dags. 14. þ.m., varðandi fyrirspurn til forsætisráðherra skal tekið fram, að hvorki ráðuneytið né stofnanir, sem undir það heyra, hafa keypt laxveiðileyfi á þessum tilgreindu árum, 1980–1983.“

Svar utanríkisráðuneytis:

„Með vísun til bréfs forsætisráðuneytisins, dags. 14. f.m., tekur utanríkisráðuneytið fram að engin laxveiðileyfi voru keypt á þess vegum né undirstofnana ráðuneytisins á árunum 1980, 1981, 1982 og 1983.“

Svar viðskiptaráðuneytis:

„Ráðuneytið vísar til bréfs forsætisráðuneytisins, dags. 14. f.m., varðandi fyrirspurn á Alþingi um kaup ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja á laxveiðileyfum, og tekur fram að ráðuneytið sjálft hefur aldrei fest kaup á laxveiðileyfum. Að öðru leyti vísast til meðfylgjandi bréfa sem hafa að geyma svör þeirra ríkisstofnana, er undir ráðuneytið heyra.“

Seðlabanki Íslands.

„Til þess að svara bréfi ráðuneytisins frá 16. f.m. varðandi kaup bankans á laxveiðileyfum, þá skal þetta upplýst:

1) Kaup leyfa 1980 kr. 31 200.

Kaup leyfa 1981 kr. 57 750.

Kaup leyfa 1982 kr. 101 400.

Kaup leyfa 1983 kr. 246 000.

2) Árið 1980 voru leyfin notuð af gestum bankans frá Citybank og Manufacturers Hanover Trust, New York.

Árið 1981: Gestir frá Scandinavian Bank, London og Manufacturers Hanover Trust, London.

Árið 1982: Gestir frá Westdeutsche Landesbank, Girozentrale, Düsseldorf, og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Árið 1983: Gestir frá Federal Reserve Board, Washington og Bradbury Wilkinson, London.

Öll árin voru leyfin jafnframt notuð að hluta af innlendum gestum og fulltrúum Seðlabankans.“

Landsbanki Íslands.

„Svar Landsbanka Íslands við bréfi ráðuneytisins frá 16. f.m., varðandi kaup bankans á laxveiðileyfum, er þetta.

Keypt voru veiðileyfi sem hér segir:

1. Árið 1980 kr. 52 200.

Árið 1981 kr. 77 800.

Árið 1982 kr. 194 700.

Árið 1983 kr. 387 900.

2. Öll árin voru leyfi notuð að hluta af fulltrúum bankans og nokkrum innlendum gestum, auk erlendra gesta frá eftirtöldum stofnunum:

1980: Christiania Bank og Kreditkasse, Ósló, Svenska Handelsbanken, Stokkhólmi, Scandinavian Bank Limited, London, Union Bank of Finland, Helsinki, Reiknistofa danskra viðskiptabanka.

1981: Barclays Bank Limited, London, Chase Manhattan Bank, New York, Smith Barney, Harris Upham, New York, Kredietbank S.A. Luxembourgoise, Luxembourg, Royal Bank of Scotland, Edinborg, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.

1982: Skandinaviska Enskilda Banken, Stokkhólmi, Royal Bank of Scotland, Edinborg, Kansallis-Osake Pankki, Helsinki, sendiherra Sovétríkjanna á Íslandi.

1983: Skandinaviska Enskilda Banken, Stokkhólmi, Köbenhavns Handelsbank, Kaupmannaliöfn, Scandinavian Bank Limited, London.“

Útvegsbanki Íslands.

„Með tilvísun til bréfs yðar, dagsett 16. nóv. s.l., vegna fyrirspurnar á Alþingi um hugsanleg kaup bankans á laxveiðileyfum vill bankastjórnin taka fram, að aldrei hafa verið keypt laxveiðileyfi í nafni Útvegsbanka Íslands, eða nokkur einstaklingur nýtt sér slík leyfi í nafni hans.“

Búnaðarbanki Íslands.

„Svar Búnaðarbanka Íslands við fyrirspurn viðskiptaráðuneytisins, dags. 16. nóv. s.l., um laxveiðileyfi er á þessa lund:

1. spurning:

1980 keypt leyfi kr. 0.00.

1981 keypt leyfi kr. 0.00.

1982 keypt leyfi kr. 0.00.

1983 keypt leyfi kr. 0.00.

Samtals kr. 0.00.

2. spurning:

Engir. Vonandi fullnægja þessar upplýsingar fróðleiksfýsn hlutaðeigandi alþingismanns og valda ekki vonbrigðum.“

Verðlagsstofnun.

„Vegna bréfs yðar, dags. 16. nóv., skal tekið fram, að Verðlagsstofnun hefur engin laxveiðileyfi keypt á árunum 1980 til 1984.“