18.12.1984
Neðri deild: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2188 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

235. mál, Háskóli Íslands

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í athugasemdum um þetta lagafrv. eru hér eiginlega á ferðinni þrjú atriði, þrjú mál. Í fyrsta lagi er verkfræði- og raunvísindadeild skipt í tvær sjálfstæðar háskóladeildir. Í öðru lagi er heimild í gildandi lögum til að flytja lektor úr lektorsstöðu í dósentsstöðu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð víkkuð þannig að hún taki einnig til flutnings forstöðumanns háskólastofnunar í prófessorsembætti. Í þriðja lagi er opnuð leið fyrir Háskólann til að eiga aðild að rekstrarfélögum eða stofnunum sem stunda rannsókna- og þróunarstarfsemi og par með til að stofna þróunarmiðstöð við Háskóla Íslands.

Um þetta mál er það að segja að á þeim litla tíma, sem ég hef haft til að athuga það — sá tími er stuttur, það er mjög skammt síðan þetta mál sást hér í þinginu og það hefur farið nokkuð hratt — sýnist mér fyrri tvö atriðin vera ágæt. Ég tel að það sé rétt og þarft skref að skipta verkfræði- og raunvísindadeild upp í tvær sérstakar deildir. Það mun bæta stöðu þeirra stjórnunarlega og væntanlega aðstöðu þeirra bæði til kennslu og rannsókna.

Annað atriðið, í sambandi við stöðubreytingarnar, held ég að sé breyting ágætlega til bóta. Hins vegar virðist mér þurfa að kanna nokkuð vel þriðja atriðið. Hér er verið að stíga nýtt merkilegt spor, þetta er spor sem við höfum minnst á hér á Alþingi að þurfi að stíga, þ.e. að tengja Háskólann atvinnulífinu á virkan hátt. Það þarf hins vegar að skoðast mjög vel hvernig þetta spor verði best stigið.

Hér koma fram í grg. upplýsingar um hvernig þessum málum hafi verið háttað erlendis, það er óþarfi að rekja það nánar. Í sambandi við ýmiss konar tæknigreinar og þróaðar vísindagreinar hafa háskólarnir í löndunum í kringum okkur orðið uppspretta nýjunga og nýsköpunar í atvinnulífi. Það er brýnt verkefni að búa þannig um hnútana að Háskóli Íslands verði það sömuleiðis. En það er mjög nauðsynlegt að þetta sé gert í nánu og fullkomnu samráði við þær stofnanir Háskólans sem eru uppspretta þessara hugmynda. Þá á ég við stofnanir eins og Verkfræðistofnun, Líffræðistofnun, Raunvísindastofnun, Tilraunastöð í meinafræði á Keldum og hugsanlega einhverjar fleiri sem ég man ekki eftir í augnablikinu. Þarna eru líka stofnanir utan Háskólans sem hafa hingað til tengst rannsóknastarfseminni þar á ýmsan máta, svo sem Hafrannsóknastofnun og ekki síst Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og hugsanlega fleiri. Eitt dæmið enn er Reiknistofnun sem yrði væntanlega aðsetur einhverrar starfsemi í tölvufræðum sem eru svo mjög á döfinni.

Ég held að það sé skynsamlegt þegar málið fer í n. að óska umsagnar þessara aðila allra um þetta mál til þess að kynnast þeirra hugmyndum og þeirra reynslu sem hugsanlega kann að vera af slíku rannsóknarsamstarfi. Slík reynsla gæti verið til komin bæði vegna starfa vísindamanna erlendis og sömuleiðis, eins og ég sagði áðan, af störfum þeirra við þessi mál hér á Íslandi.

Það er komin af stað rannsóknarsamvinna af ýmsu tagi milli aðila í atvinnulífinu og Háskólans. Nýjasta dæmið á þessu sviði er samstarf prófessors Sigmundar Guðbjarnasonar á Raunvísindastofnun og Lýsis og Mjöls. Þeirri rannsóknarsamvinnu hefur t.d. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins tengst, þannig að við sjáum að þarna koma mjög margir aðilar við sögu. Það er eðli þessa starfs að það er margþætt, fjölvirkt. Þess vegna álít ég mjög skynsamlegt að afla umsagna þeirra um þessi mál.

Það er býsna margt sem tengist svona máli sem ég tel að þurfi að skoða. Eitt lítið dæmi er t.d. eignarhald á þeim hugmyndum sem fæðast í svona vinnu og síðan greiðslur fyrir notkun slíkra hugmynda. Við getum kannske sett þetta mál fram á sem einfaldastan hátt þannig að opinber starfsmaður, sem er í vinnu hjá Raunvísindastofnun, hefur starfað hjá þeirri opinberu stofnun alla sína vísindatíð, hefur aflað allra sinna tækja fyrir opinbert fé og svo dettur hann skyndilega niður á að uppgötva eitthvað sem er mikilla peninga virði. Þá spyrja menn: Hver á þessa hugmynd? Hver á að njóta arðs af notkun hennar? Að hve miklu leyti á arðurinn að vera hans persónulega og að hve miklu leyti á arðurinn að falla í skaut þeirrar stofnunar sem hefur gert honum kleift að skapa þetta? Mér er kunnugt um — en hef því miður ekki haft tíma til að fletta upp í gögnum mínum — að bara þetta tiltekna atriði hefur orðið tilefni mikilla umræðna í sambandi við líftækni erlendis sem er eitt af þeim nýju sviðum þar sem þetta verður skyndilega áþreifanlegt vandamál. Stofnanir, sem alveg fram á síðustu misseri hafa verið kennslu- og rannsóknastofnanir — í þeim skilningi að þar hafa menn kannske sinnt þekkingarleit þekkingarleitarinnar vegna og aldrei dottið í hug að auðgast af því sjálfir á einhvern hátt — komast í þá aðstöðu með auknum samskiptum við atvinnulífið að hugmyndir í greinum eins og líffræði, sem hingað til hefur ekki verið beinlínis tengd því að auðgast sérstaklega, geta skyndilega orðið mjög arðbærar. Hugsanlega þyrfti að setja sérstaka löggjöf eða reglugerð um þátttöku eða stöðu opinberra stofnana og opinberra starfsmanna í sambandi við þetta.

Í öðru lagi eru þarna atriði sem varða skattamál. Stofnun eins og Háskólabíó, sem Háskóli Íslands á, ber enga skatta. En hvernig verður skattamálum fyrirtækis háttað sem Háskóli Íslands ætti kannske í samvinnu með Lýsi og Mjöl þar sem framleiddar væru hollar lýsispillur með fjölómettuðum fitusýrum sem allir vildu borða og Íslendingar mundu auðgast af? Í athugasemd með frv. stendur um 5. gr. í 6. tölul.: „Fáist lagaheimildin eru tekin af tvímæli um skattfrelsi Háskólans af starfsemi miðstöðvarinnar og fyrirtækja þeirra annarra er Háskólinn ætti aðild að.“ Skv. lauslegum upplýsingum, sem við höfum fengið um þessi mál í dag, liggur þetta mál alls ekki ljóst fyrir.

Í öðru lagi er t.d. í athugasemdum við þessa sömu gr. sagt: „Þróunarmiðstöðin gæti tekið lán til verkefna án afskipta ráðuneyta.“ Þá gæti komið upp sú aðstaða að fyrirtæki, sem Háskólinn væri aðili að, væri búið að binda sig í miklar fjárskuldbindingar, taka stór lán til verkefna sinna án afskipta fjmrn. og menntmrn. Síðan gæti svo farið að þetta fyrirtæki legði upp laupana og af því hlytust skuldir stórar. Hvernig stendur þá Háskólinn gagnvart því máli? Fær Háskólinn þær skuldir greiddar á næstu fjárhagsáætlun frá fjmrn. og menntmrn. sem ekki voru höfð með í ráðum og ekki spurð um leyfi?

Ég hef aðeins tiltekið hér nokkur atriði sem ég sé við fljótan yfirlestur og stuttan nætursvefn að eru augljóslega tengd þessu máli og þurfa skoðunar með. Mér er kunnugt um að innan Háskólans telja margir að þetta mál þurfi meiri kynningar við en það hefur fengið nú þegar. Þess vegna tel ég að það væri verðugt hlutverk hv. menntmn. Nd. að slá tvær flugur í einu höggi, afla umsagna um þetta mál frá sem flestum stofnunum, sem þetta mál varðar, og stuðla þannig um leið að kynningu þess og umræðum um þá möguleika sem í þessum atriðum felast.