18.12.1984
Neðri deild: 30. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

235. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég gerði mér ekki ljóst fyrr en í gærkvöldi að e.t.v. væri ágreiningur um það mál sem hér liggur fyrir. Reyndar mun ekki vera efniságreiningur, heldur vilja hv. þdm. fá tækifæri til að skoða málið betur. Það hafði einungis vakað fyrir mér að þar eð hér væri um gjörsamlega ágreiningslaust mál að ræða væri ástæðulaust að tefja það þar til á útmánuðum. Það mætti þá fá afgreiðslu um leið og önnur mál nú. Háskólinn sæi þá fram á þessa möguleika þegar hann stendur andspænis því að framkvæmdafé er mjög skert í þeim fjárlögum sem væntanlega verða afgreidd hér á næstu dögum. Fannst mér eins og þarna væri þó nokkur ljósglæta ef Háskólinn fengi lög um þetta efni um svipað leyti og fjárlögin væru afgreidd.

Þær stofnanir, sem hv. 4. landsk. þm. nefndi, eru einmitt þær stofnanir sem hér hafa hagsmuna að gæta og hafa hagsmuni af þessu frv. Þess vegna er þetta frv. flutt. Ástæðan til þess að ekki fylgir kostnaðaráætlun er sú að frv. er flutt til þess að afla Háskólanum fjár en ekki til þess að baka honum útgjöld. Það er auðvitað ekki hægt að segja um það fyrir fram hve mikil sú fjáröflun gæti orðið því að það fer vitanlega eftir hinu margfræga lögmáli um framboð og eftirspurn. Þar verður eftirspurnin vissulega mikið að ráða, framboðið er á þekkingunni og stundum skortir aðstöðu til að nýta hana.

Ég held að menn séu á einu máli um að sú heimild, sem þetta frv. mun veita ef að lögum verður, felur í sér miklu rýmri möguleika en nú eru til að selja verkefni út í atvinnulífið. Hún getur líka þess vegna rennt stoðum undir meiri grunnrannsóknir í Háskólanum, en þær eru dýrar. Þær skila oft ekki árangri fyrr en eftir alllangan tíma en eru allt að einu undirstaða allrar framþróunar í þekkingu á þeim sviðum sem stunduð eru í Háskólanum. Þetta vil ég sérstaklega taka fram, því vera má að sú breyting, sem gerð var í hv. Ed., hafi valdið því að menn teldu að þarna ætti að setja á laggirnar nýja dýra stofnun. Það sem um er að ræða er í raun og veru eins konar þjónustuskrifstofa fyrir þá starfsemi sem hér færi fram.

Það er raunar svo að til þess að stofna slíka skrifstofu þarf ekki lagaheimild. Geri ég ráð fyrir að það hafi vakað fyrir flestum hv. Ed.-mönnum að ganga frá því í lögunum að sú samræmingarstarfsemi sem þarna væri ætlunin að hafa og meiri háttar ákvarðanir þar yrðu að heyra undir háskólaráð. Mönnum mun hafa þótt málið eins og með tryggari umbúnaði ef þetta lægi fyrir. Menn hér í hv. deild hafa e.t.v. haldið að þarna væri um einhver meiri háttar kostnaðaratriði að ræða, en svo er ekki. Það er einmitt til þess að greiða fyrir því að unnt sé að gera þá starfsemi, sem fram fer í stofnununum, fjölbreyttari, laða að nýja þekkingu og virkja betur þá þekkingu sem þar er. Og sá hlutur, sem þær stofnanir eða menn sem þar starfa mundu leggja fram í fyrirtækin, er þekkingin og aðstaðan.

Þetta getur orðið, að því er ég tel, mjög mikilvægt spor til að virkja betur þann auð sem íslensku þjóðfélagi stendur til boða að nýta og geymdur er í Háskóla Íslands og stofnunum hans. Eins og ég hef áður nefnt nú nýlega á þingi, þegar til umfjöllunar var tillaga um tengingu atvinnulífs og fræðslukerfis, er Háskóli Íslands vel staddur að því leyti til að þar eru menn með mjög fjölbreytta þekkingu frá ýmsum albestu menntastofnunum heimsins. Ég held að þarna séu möguleikar sem við eigum og verðum að nýta betur til að byggja upp enn árangursríkara atvinnulíf og stuðla að enn verðmætari framleiðslu og vinnslu í landinu.

Hv. 4. landsk. þm. nefndi í þessu sambandi sérstaklega vandasamt og flókið svið sem er hugverkaréttur, eins konar höfundarréttur. Þetta er svið sem er í mikilli þróun víða um heim og það atriði má náttúrlega ekki verða til þess að þetta mál vefjist fyrir mönnum. Þær þjóðir, sem við eigum í samkeppni við, hafa rekið slíka starfsemi með miklum og verðmætum árangri án þess að reglurnar um hugverkaréttinn væru orðnar ýkja rækilegar og skýrar. Það breytir ekki því að alveg rétt var að vekja athygli á þessu máli. Það er eitt af því sem vafalaust kemur til skoðunar og á e.t.v. eftir að auka áhuga manna á þessu sviði og hafa áhrif líka á þau umsvif sem verða í atvinnulífinu. Ég vil enn fremur taka fram að þegar nefnd er í frv. þróunarmiðstöð er átt við eins konar þjónustuskrifstofu til að greiða fyrir tengslum Háskólans við atvinnulífið. Þar er einungis um heimild að ræða. Fyrirkomulag allt verður auðvitað nánar ákveðið af Háskólanum sjálfum innan reglna hinna almennu laga.

Þegar rætt er um ýmis önnur atriði sem tengjast fyrirtækjarekstri fer það að sjálfsögðu eftir almennum lögum og svo sérlögunum um Háskólann að öðru leyti. Það má vel vera að það eigi eftir að verða skiptar skoðanir um einstök atriði eða einstakar framkvæmdir meðal manna í Háskólanum, en það er eins og gengur með stjórnunaratriði sem upp koma. Og til þess er háskólaráð að taka ákvarðanir um slíka hluti. En að meginstefnu til munu menn vera sammála um þetta atriði. Mér tjáir háskólarektor að menn séu upp til hópa sammála um að fá þessa heimild þó að menn kunni e.t.v. að greina á um einstök smáatriði í framkvæmd sem er síður en svo óeðlilegt og það getum við ómögulega girt fyrir í nokkrum lögum. Aðalatriðið er heimildin sem frv. gerir ráð fyrir. Ég vil taka fram að lokum að ég vil fúslega láta nefndinni í té þær upplýsingar sem kynnu að vera þessu máli til fyllingar og til eru í rn., hafi menn þær ekki þegar í höndum. Ég hélt satt að segja að svo væri, að menn hefðu fyllri gögn sem borist hefðu frá Háskólanum um efni sem þessu tengjast. En sé svo ekki er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að útvega þau og ég er því fylgjandi að nefndin fái álit þeirra stofnana sem hér um ræðir.

Ég ítreka það, herra forseti, að ég legg til að málinu verði svo vísað til 2. umr. og menntmn. Ég vonast til að jólahléið verði notað, þegar eitthvað líður á janúarmánuð a.m.k., til að vinna úr þeim upplýsingum sem fram kunna að koma. En að sjálfsögðu mundi enginn fagna því meira en ég ef menn sæju nú að þeir gætu komist að niðurstöðu jafnvel fyrr. Væri ég síður en svo mótfallin því, en vissulega fagna ég því að menn virðast nú hafa hug á að athuga málið vel.