11.10.1984
Sameinað þing: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti.

Ríkisstj. þótti rétt að gera Alþingi þegar í upphafi grein fyrir þeirri kjaradeilu sem nú setur mjög svip sinn á íslenskt þjóðlíf og það er einlæg von mín að umræða um hana geti orðið málefnaleg og verði til þess að lægja þær öldur sem nú eru fremur en að ýfa. Ég hefði gjarnan kosið að hægt hefði verið að útvarpa umræðunni, eins og reyndar allir þingflokkar óskuðu eftir, en því miður er það ekki fært. Ég hefði talið gott í þessu fjölmiðlaleysi að þjóðin hefði tækifæri til að heyra þann málflutning sem hér verður.

Mér þykir rétt að byrja á því að gera lauslega grein fyrir þeim samningum sem gerðir voru 29. febr. s.l. Þá voru undirritaðir heildarsamningar þar sem gert var ráð fyrir 5% launahækkun við undirskrift, síðan 2% 1. júní, 3% 1. sept. og 3% 1. jan. 1985. Einnig var gert ráð fyrir því að 10% hækkun yrði á lágmarkstekjutryggingu og svo jafnframt starfsaldurshækkanir eins og þá var um samið.

Kjararannsóknarnefnd mat þessa samninga og komst að þeirri niðurstöðu að í þeim fælist hækkun fyrir verkafólk við undirskrift samnings sem næmi 8%, fyrir aðra meðlimi Alþýðusambands Íslands 5.5% og fyrir meðlimi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja 5.3%.

Til viðbótar þessum samningum ákvað ríkisstj. að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins að verja hátt í 350 millj. kr. til félags- og skattamála. Því fé var varið á grundvelli ítarlegrar athugunar sem gerð var af Kjararannsóknarnefnd fyrir tilstuðlan ríkisstj. Ég hygg að svo ítarleg athugun á láglaunahópum hafi ekki áður verið gerð. Þetta fjárframlag fór fyrst og fremst til einstæðra foreldra, ellilífeyrisþega og öryrkja. Komið hefur fram mat forustumanna Alþýðusambands Íslands á þessum félagslegu umbótum þar sem talið er að hér sé um að ræða allt að 30% hækkun fyrir einstaka hópa í þessum flokki.

Almennt mun hafa verið um það samkomulag við gerð þessara kjarasamninga að kaupmáttur kauptaxta í lok ársins 1983, þ.e. á síðasta ársfjórðungi, væri lagður til grundvallar. f þessum kjarasamningum var jafnframt gert ráð fyrir því að þeir væru uppsegjanlegir annaðhvort fyrir 1. sept. í ár eða fyrir 1. jan. n.k. Sá grundvöllur sem ég nefndi, þ.e. kaupmáttur kauptaxta síðasta ársfjórðungs 1983, kemur m.a. fram í fréttabréfi Alþýðusambands Íslands, 3. tölubl. 1984.

Þjóðhagsstofnun hefur metið breytingar á kaupmætti kauptaxta á árinu 1984 og kemst að þeirri niðurstöðu miðað við 100 á fjórða ársfjórðungi 1983 að ársmeðaltal kaupmáttar kauptaxta meðlima í Alþýðusambandi Íslands árið 1984 hefði orðið 99% kaupmáttar kauptaxta í lok ársins 1983 ef samningarnir hefðu gilt út árið og hjá meðlimum í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja 97.6%. Samtals hefði kaupmáttur orðið 98.5% af kaupmætti kauptaxta á síðasta ársfjórðungi 1983. Í þessum tölum er þó ekki tekið tillit til þeirra félagslegu umbóta sem ég nefndi áðan. Séu þær metnar með telur Þjóðhagsstofnun að meðalkaupmáttur kauptaxta á þessu ári hefði orðið 99.7% kaupmáttar kauptaxta í lok ársins 1983 eða m.ö.o. að hann hafði aðeins skerst um 0.3%.

Engu að síður var samningum sagt upp fyrir 1. sept. eins og heimilt var. Við uppsögnina kemur fram m.a. í fréttabréfi ASÍ, 11. tölubl. 1984 — mat á kaupmætti kauptaxta sem er mjög líkt mati Þjóðhagsstofnunar. Þar spáir hagdeild ASÍ að kaupmáttur kauptaxta meðlima ASÍ hefði orðið að ársmeðaltali 99.2% kaupmáttar kauptaxta á síðasta ársfjórðungi 1983, en eins og ég las áðan telur Þjóðhagsstofnun að þessi kaupmáttur hefði orðið 99% . Það munar sem sagt litlu sem engu.

Einnig kemur fram að hagdeild ASÍ metur ekki með þær félagslegu umbætur sem ákveðnar voru í sambandi við kjarasamningana í febrúar. Því er borið við að hækkanir hafi orðið töluvert miklar á ýmsum nauðsynjum og því étið upp þær félagslegu umbætur. Rétt er það að verðhækkanir hafa orðið meiri, t.d. á landbúnaðarafurðum, en á ýmsum öðrum vörum vegna þess að flutt var fé frá niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðum yfir í félagslegar umbætur og þær hækkanir hlutu því að verða nokkru meiri en almennt varð.

Það er hins vegar athyglisvert í þessu sambandi að skv. upplýsingum, sem fengist hafa frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, hefur verið minna um umsóknir um aðstoð til þeirrar stofnunar en áður var. Það gefur eindregið til kynna, sem betur fer, að þessar félagslegu umbætur hafi orðið þeim að liði sem þær voru ætlaðar.

Kröfur sem settar voru fram eru hins vegar mjög breytilegar. Í þessu sama fréttabréfi ASÍ kemur fram orðrétt, með leyfi forseta:

„Í dag er ljóst að til þess að ná þeim kaupmætti á árinu, sem stefnt var að með samningum á s.l. vetri, þarf kauphækkun 1. sept. n.k. að vera um 7%.“

Kröfur ýmissa annarra stéttarfélaga hafa hins vegar verið af allt annarri stærðargráðu. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja krefst 30% kauphækkunar 1. sept. og 5% 1. jan. Félag bókagerðarmanna er með svipaða kröfu. Verkamannasamband Íslands krefst þess að lægstu launin hækki í 14 þúsund, en krefst jafnframt víðtækrar flokkatilfærslu sem erfitt er að meta, en er tvímælalaust langtum meiri í kauphækkun talið að meðaltali en þau 7% sem nefnd eru í fréttabréfi ASÍ.

Forsendurnar fyrir uppsögnunum koma þannig ekki glöggt fram, en ég fæ því miður ekki dregið aðra ályktun af því sem ég hef sagt um ýmsar kröfur en að almennt séð sé horfið frá því, sem lagt var til grundvallar við gerð kjarasamninga í febrúar, að viðhalda kaupmætti síðasta ársfjórðungs 1983.

Þegar meta á möguleika til þess að verða við þessum kröfum er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þróun efnahagsmála. Ég veit að ég þarf ekki að brýna það fyrir hv. þm. að þessir hlutir verða að haldast í hendur. Við höfum allt of slæma reynslu af kauphækkunum á síðasta áratug sem fóru langt fram úr því sem efnahagslífið gat borið og leiddu til þeirrar verðbólgu sem við vorum síðan mörg ár að súpa seyðið af. Ég veit að hv. þm. er að sjálfsögðu ljóst að kauphækkanir einar sér verða ekki til þeirrar framleiðsluaukningar í þjóðfélaginu sem nauðsynleg er til þess að kaupmáttarstig megi haldast, til þess að kauphækkanir verði til þess að auka kaupmáttinn eins og að er stefnt að sjálfsögðu hverju sinni.

Markmið þau sem ríkisstjórnin setti sér fyrir 1984 hafa í flestum tilfellum staðist. Að mati Þjóðhagsstofnunar er nú verðbólga á grundvelli þriggja mánaða framfærsluvísitölu 13%, en á þriggja mánaða grundvelli byggingarvísitölu 10% og svo virðist sem verðbólga muni fara lækkandi það sem eftir er af þessu ári. Sömuleiðis hafa gengisforsendur, sem lagðar voru til grundvallar, staðist. Gengi hefur verið breytt um nálægt því 5% eins og sagði í efnahagsstefnu ríkisstj. fyrir árið 1984. Eina frávikið frá þessu er leiðrétting á þeirri vog sem gengi íslenskrar krónu byggist á. Sú leiðrétting var óhjákvæmileg vegna þess að vægi gjaldmiðla í þeirri vog hafði breyst mjög mikið á undanförnum mánuðum. Veruleg breyting hefur orðið í innflutningi og útflutningi og til þess varð að sjálfsögðu að taka tillit við ákvörðun á gengisvog.

Erlendar skuldir þjóðarinnar eru nálægt því sem þær voru. Þær voru um s.l. áramót rúmlega 60%. Að mati Seðlabankans eru þær nú 61%. Ég viðurkenni að mjög æskilegt hefði verið að geta dregið úr þessum erlendu skuldum og tvímælalaust er það eitt mesta viðfangsefni okkar Íslendinga að draga á næstu árum úr erlendum skuldum þjóðarinnar. Ríkisstj. taldi það hins vegar ekki fært á yfirstandandi ári, m.a. vegna ótta um atvinnuöryggi sem er fyrsta markmið eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstj., enda hefur atvinna verið næg. Ekki hafa komið fram þeir spádómar sem heyrðust tíðum fyrir og um áramótin, að atvinnuleysi yrði mikið í kjölfar efnahagsráðstafana ríkisstj. Atvinna hefur verið næg þegar á heildina er litið. Henni hefur að vísu verið nokkuð misskipt og það harma ég. Þensla og eftirspurn eftir atvinnu hér á höfuðborgarsvæðinu hefur verið of mikil og hefur m.a. átt nokkurn þátt í því að eitt markmiðið hefur ekki gengið upp, markmið um viðskiptahalla.

Gert var ráð fyrir því að viðskiptahalli á árinu yrði um 2–3% en hann verður að öllum líkindum um 4–5%. Þann þátt í okkar efnahagslífi verður að taka fastari tökum á næstunni. Staða ríkissjóðs mun verða stórum betri en gert var ráð fyrir við gerð fjárlaga og endurskoðun þeirra á s.l. vetri. Að vísu mun hann ekki verða alveg rekstrarhallalaus en það mun þó nálgast.

Staða atvinnuveganna hefur verið mjög breytileg. Staða iðnaðar hefur verið allgóð eins og fram kemur í þeirra eigin mati. Staða þjónustugreinanna er góð. Staða verslunar er sömuleiðis góð og stafar það ekki síst af því að veltan í þjóðfélaginu hefur verið töluvert meiri en gert var ráð fyrir.

Staða landbúnaðar hefur verið erfið sökum mikillar skuldasöfnunar á fyrri árum. En árferði hefur verið gott fyrir landbúnaðinn og er það von manna að staða hans lagist nokkuð. Í landbúnaði er nú unnið að einhverjum þeim víðtækustu breytingum sem ráðist hefur verið í um langt skeið. Gert er ráð fyrir því að ár frá ári dragi á næstu þremur til fimm árum úr þörf fyrir útflutningsbætur en í staðinn verði staðið að uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra í sveitum. Ég geri mér fastlega vonir um að þær framkvæmdir og þau frv., sem nauðsynleg eru í þessu sambandi, verði lögð fyrir þingið von bráðar.

Það sem veldur mestum áhyggjum og vitanlega gerir allt okkar svigrúm mjög lítið í þessari stöðu er fyrst og fremst staða sjávarútvegsins. Aflabrögð hafa að vísu verið svipuð og gert var ráð fyrir. Hins vegar hafa markaðsmál sjávarútvegsins verið stórum erfiðari en menn leyfðu sér að vona í upphafi ársins. Markaður fyrir skreið í Nígeríu hefur ekki opnast og þrátt fyrir samninga sem búið er að gera höfum við því miður enga vissu fyrir því að hann opnist á næstunni. Nokkur verðlækkun hefur orðið á saltfiski og veruleg verðlækkun á afurðum eins og mjöli og lýsi, einhver sú mesta sem við Íslendingar höfum kynnst. Þó hefur það líklega valdið einna mestum erfiðleikum að sölutregða hefur orðið á Bandaríkjamarkaði og reyndar lækkun á sumum afurðum sjávarútvegsins eins og t.d. á blokk og u.þ.b. 40% lækkun á ufsaflökum. Þetta er mikið áhyggjuefni og efni til mikillar umræðu hér á landi og hér á hinu háa Alþingi. Við Íslendingar eigum í vaxandi mæli í samkeppni við niðurgreiddar sjávarafurðir frá okkar mestu keppinautum eins og Kanadamönnum og Norðmönnum. Virðist ekkert lát vera á þeirri samkeppni. Það boðar því miður ekki gott fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Ákvarðanir þarf um hvernig því verður mætt.

Þegar allt þetta er tekið til athugunar telur Þjóðhagsstofnun þó að þjóðarframleiðsla dragist ekki eins mikið saman og óttast var í upphafi ársins. Hún telur að samdráttur þjóðarframleiðslu verði um 1% á árinu 1984. Þessu veldur m.a. að framkvæmdir hafa verið miklar, eins og ég rakti áðan, m.a. vegna þess að menn hafa viljað tryggja fulla atvinnu. Í þeirri þjóðhagsáætlun, sem lögð verður fyrir Alþingi strax eftir helgina, koma fram langtum ítarlegri upplýsingar um allt þetta og einnig um horfur 1985 og því stikla ég á stóru.

Á árinu 1985 er ekki talið að viðskiptakjör muni batna að nokkru ráði. Það er vissulega ekki góð spá þegar tekið er tillit til þess að alþjóðlegar stofnanir á þessu sviði, eins og t.d. Efnahags- og framfarastofnunin í París, spá því almennt að 3% hækkun verði á vöruverði í sínum meðlimaríkjum. En svo virðist sem þessar spár gildi ekki um sjávarafurðir. A.m.k. er því ekki spáð að verðhækkun verði á sjávarafurðum, t.d. á Bandaríkjamarkaði.

Talið er að staða atvinnuveganna verði nokkuð svipuð og hún er nú. Að vísu er þess vænst að einhver hækkun geti orðið á lýsi og mjöli, fyrst og fremst í ljósi þess að það hefur aldrei lengi verið eins lágt og það er nú. Að vísu er mikil uppskera í heiminum á soyabaunum sem við er keppt og vel kann að vera að lengra sé í slíka verðhækkun en menn leyfa sér að vona. Ljós punktur í þessu á næsta ári er að mjög mikilvægir samningar hafa nú náðst við Sovétríkin um sölu á saltsíld og öðrum fiski. Um aukið magn er að ræða, að vísu verðlækkun í dollurum eins og komið hefur fram í fréttum, en miðað við sterka stöðu dollarans tel ég þetta stórum betri samninga en við gátum í raun og veru gert okkur vonir um. Sala á saltsíld til annarra landa virðist hins vegar vera töluverðum erfiðleikum háð vegna mikilla veiða nágranna okkar í Norðursjó og við Noregsstrendur.

Að öllu þessu athuguðu og sömuleiðis þegar metnar eru framkvæmdir í orkumálum og á fleiri sviðum telur Þjóðhagsstofnun þó að við séum komnir niður í botn í þeirri lægð sem við höfum verið í undanfarin þrjú ár og von sé á bata á næsta ári. Sá bati er metinn á forsendum þjóðarframleiðslu upp að 1%. Það er ekki mikið, það er satt að segja mjög lítill vöxtur þjóðarframleiðslu þegar skoðaður er vöxtur þjóðarframleiðslu í okkar nágrannalöndum og er vitanlega mikið áhyggjuefni þegar til lengri tíma er litið.

Miðað við þessar horfur hefur ríkisstj. og stjórnarflokkarnir sett sér markmið á næsta ári og leiðir að þeim markmiðum. Ríkisstj. telur mjög nauðsynlegt að hjöðnun verðbólgu haldi áfram. Að vísu getum við unað því að hjöðnun verði að sjálfsögðu ekki eins ör og hún hefur verið á undanförnum mánuðum. Það væri ekki heldur eðlilegt. Menn þurfa að gæta þess í því sambandi hvert atvinnuöryggi verður o.s.frv. Ríkisstj. hefur því sett sér það markmið að verðbólga í lok ársins 1985 verði komin í eða niður fyrir 10%.

Ríkisstj. telur einnig að sporna verði gegn því með öllum ráðum að erlendar skuldir aukist og hefur sett sér sem markmið í því sambandi að erlendar skuldir í lok ársins 1985 fari ekki yfir 61%, þ.e. verði á svipuðu róli og þær hafa verið nú.

Ríkisstj. telur ákaflega mikilvægt að þegar á næsta ári verði skapað svigrúm til nýsköpunar í atvinnulífinu. Reyndar tel ég að þegar til lengri tíma er litið sé þetta eitthvert það mikilvægasta markmið sem við þurfum að setja okkur. Enginn vafi er á því að renna verður fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf, ekki vegna þess að sjávarútvegurinn muni ekki áfram verða mikilvægastur íslensku efnahagslífi og þaðan sé ekki að vænta töluverðs hagvaxtar þegar aflabrögð og markaðir batna sem þeir hljóta að gera. Hins vegar verða menn að gæta þess að það verður ekki ausið upp úr sjónum eins og gert hefur verið á undanförnum árum og ekki þess að vænta að minnsta kosti að vöxtur afla verði eins og verið hefur á undanförnum árum. Því er ákaflega nauðsynlegt að nýjar greinar fái skotið rótum í íslensku efnahagslífi og til þess verður að skapa svigrúm. Ríkisstj. hefur því ákveðið að erlend lántaka á næsta ári verði 7200 millj. kr. og mun leggja það fyrir Alþingi. Af því renna 4500 millj. til afborgana af eldri lánum. Þá eru aðeins 2700 millj. til ráðstöfunar fyrir atvinnuvegina fyrir þá nýsköpun í atvinnulífinu sem ég nefndi. Það er nokkru lægri tala en til ráðstöfunar var fyrir atvinnuvegina á þessu ári.

Til þess að ná þessum markmiðum hefur ríkisstj. ákveðið að fylgja áfram gengisstefnunni sem svo hefur verið nefnd og gerir ráð fyrir því að hámarksbreyting á gengi á næsta ári verði 5% eins og verið hefur á þessu ári. Þessu fylgir að sjálfsögðu að efnahagslífinu er settur mjög þröngur rammi. Út frá þessum forsendum má reikna með að beinar launahækkanir gætu á næsta ári orðið að meðaltali 5% eða á milli áranna 1984 og 1985 10%.

Ég mun nú koma að því hvaða leiðir eru til kjarabóta ef höfð er í huga sú mynd sem ég hef dregið upp af íslensku efnahagslífi. Að sjálfsögðu má reikna á ýmsa vegu. M.a. má leggja til grundvallar þá sáttatillögu sem sáttasemjari gerði í deilu ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Hins vegar er ljóst að sú tillaga gerði aðeins ráð fyrir því að samningar giltu til 15. apríl og er óljóst hvað þá tæki við. Ef við gæfum okkur að engin launahækkun yrði eftir 15. apríl, sem ég tek fram að er vafalaust óraunhæft, er ljóst að verðbólga mundi hjaðna ekki minna en skv. þeim forsendum sem ríkisstj. hefur gefið sér. Að vísu mundi árshraði framfærsluvísitölu fara upp nú í lok ársins, líklega upp í 16–17% að mati Þjóðhagsstofnunar, en hins vegar falla ört miðað við engar launahækkanir eftir 15. apríl á næsta ári og vera kominn niður í 4.5 í lok ársins 1985. Þá er einnig ljóst að kaupmáttur kauptaxta mundi skerðast á árinu 1985 og telur Þjóðhagsstofnun að ársmeðaltal þá yrði 97.2 miðað við 100 á síðasta ársfjórðungi 1983. Þjóðhagsstofnun telur hins vegar að jafnvel miðað við þetta mundi kaupmáttur ráðstöfunartekna heldur aukast og kemur þar fram launaskrið.

Ég sagði áðan að þetta væri eflaust óraunhæft dæmi ef menn eru að tala um samninga út 1985. Ég hef því einnig látið skoða önnur dæmi, t.d. lagt sáttatillöguna til grundvallar og 2% hækkun 1. apríl og 2% 1. sept. 1985. Þá kemur í ljós að mati Þjóðhagsstofnunar að verðbólga í lok ársins 1985 yrði um 7.5 sem er ekki langt frá því sem forsendur ríkisstj. gefa. Þá yrði kaupmáttur kauptaxta um 98.7 að meðaltali á árinu 1985 en kaupmáttur ráðstöfunartekna ykist um 2%. En þegar meta á enn meiri peningalaunahækkanir vaknar að sjálfsögðu spurning um það hvað gengið þoli. Þegar peningalaunahækkanir verða meiri en atvinnuvegirnir geta borið er raunar ekki nema um tvennt að ræða. Annaðhvort stöðvast þessir sömu atvinnuvegir með þeim afleiðingum að atvinnuleysi verður á viðkomandi stöðum eða þá að gengið lætur undan, hvort sem það verður með gengisfellingu eða einhverjum öðrum ráðum. Og ef gengið lætur undan hygg ég að menn hafi þá óyggjandi reynslu að það leiði til nýrrar verðbólguöldu. Allt mat á meiri hreinum peningalaunahækkunum hlýtur þá að byggjast á mati á því hvort gengið mundi láta undan.

Vissulega hafa slíkar talnaraðir verið metnar, t.d. talnaröð sem er nálægt þeim kröfum sem hafa verið settar fram og hljóðar svo: 6% nú, 8% 1. jan., 8% 1. apríl, 7% 1. júlí, 9% 1. okt. Við getum sagt að þetta séu öfgarnar á hinn veginn ef menn vilja kalla það svo.

Þá er talið að ef menn vildu halda atvinnuvegunum gangandi hlyti gengi að láta undan og þá væri verðbólga eða framfærsluvísitala á árinu 1985 yfir 30%, líklega 33–34%. Þetta veit ég að mönnum hér er öllum ljóst.

Mönnum er að sjálfsögðu ljóst, eins og ég sagði áðan, að peningalaunahækkanir einar út af fyrir sig skapa ekki þau verðmæti sem geta staðið undir þessum sömu hækkunum, þau þurfa að koma annars staðar frá. Þess vegna hafa stjórnarflokkarnir og ríkisstj. talið rétt að skoða hvort mæta megi þessum kröfum stéttarfélaganna að einhverju leyti með skattalækkunum. Ég held að öllum hljóti að vera ljóst að skattalækkanir, t.d. að sömu krónutölu fyrir þjóðarheildina, gefa miklu meiri kjarabót en peningalaunahækkanir að þessari sömu krónutölu. Í fyrsta lagi eru skattalækkanirnar ekki skattlagðar, ef ég má orða það svo, en peningalaunahækkanirnar að sjálfsögðu skattlagðar. Þetta er öllum vitanlega ljóst. Sömuleiðis fara peningalaunahækkanir miklu fremur út í verðlagið en skattalækkanir sem koma þess vegna ekki eins í bakið á mönnum.

Þjóðhagsstofnun hefur gefið mér lauslegt mat á slíkri leið og telur að 500 millj. kr. skattalækkun mundi samsvara svona allt að 2.5% í launahækkun. En yfir þjóðfélagið í heild er þó 2% í launahækkun í kringum milljarður, þ.e. tvöfalt meiri en skattalækkunin. Það skal tekið fram að þetta eru aðeins samanburðartölur en ekki nákvæmur útreikningur, enda er slíkt ákaflega erfitt án þess að meta alla aðra þætti þessara mála.

Í fjárlagafrv., eins og það hefur verið sýnt, er gert ráð fyrir 600 millj. kr. tekjuskattslækkun. Er það í samræmi við ákvörðun Alþingis frá s.l. vori um að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum. Ríkisstj. hafði þegar samþykkt að gera það í þremur áföngum. Í fjárlagafrv. er hins vegar gert ráð fyrir því að ríkissjóði verði aflað tekna með óbeinum sköttum. Kemur það fram m.a. í grg. með fjárlagafrv. Ef aftur á móti þessi skattalækkun er framkvæmd, ég nefni það aðeins sem dæmi, án þess að tekna væri aflað þannig að auki framfærslukostnað fjölskyldunnar, þá breytist dæmið að sjálfsögðu verulega. Ef gert er ráð fyrir 6% peningalaunahækkun 1. sept. og 4% 1. jan. og 600 millj. kr. skattalækkun yrði breyting kaupmáttar ráðstöfunartekna 1984–1985 + 1.5 og kaupmáttur kauptaxta yrði einhvers staðar á milli 98 0 99% af kaupmætti kauptaxta í lok ársins 1983. Ég held hins vegar að skynsamlegt sé að leita leiða til þess að peningalaunahækkanir geti orðið enn minni. Þá er jafnframt von til þess að gengisbreyting á árinu 1985 gæti orðið eitthvað minni en sett hefur verið sem hámark og þá er vissa fyrir því að verðbólgan mundi hjaðna enn örar. Hins vegar er alveg ljóst, og ekki síst öllum ljóst sem hér eru inni, að með mjög víðtækum skattalækkunum er að sjálfsögðu vandanum velt yfir á ríkissjóð. Í raun og veru má orða þetta svo í örfáum orðum. Spurningin er sú: Hvar á að mæta þessum vanda? Á að mæta þeim vanda sem skapast með peningalaunahækkunum í atvinnulífinu, með aðgerðum í gengi og þess háttar? Á að mæta honum þar eða á að færa þennan vanda inn í ríkissjóð og mæta vandanum í ríkissjóðsdæminu?

Ég tel fyrir mitt leyti síðari kostinn betri. Það er orðinn mikill samdráttur í íslensku efnahagslífi af ástæðum sem allir þekkja. Við þær aðstæður kemur að mínu mati mjög til greina að færa eitthvað frá samneyslunni tímabundið yfir til einkaneyslunnar til að halda uppi kaupmætti einstaklinga, t.d. að hann yrði svipaður og á síðasta ársfjórðungi 1983. Þannig má að sjálfsögðu reikna fjölmörg dæmi og ég skal ekki halda því lengi áfram.

Ég hef einnig látið setja upp dæmi um meiri skattalækkanir, t.d. 1100 millj. skattalækkun og 300 millj. í útsvarslækkun. Er þá gert ráð fyrir að launahækkun verði eingöngu 6% 1. sept. en engar 1. jan. Þessar tölur eru valdar þannig að þessar skattalækkanir eru í krónutölu nokkurn veginn þær sömu sem útgjöld þjóðarbúsins yrðu af 4% launahækkun 1. jan. Það eru u.þ.b. 1500–1600 millj. kr. Þegar þetta er borið saman kemur að sjálfsögðu strax í ljós þetta sem ég hef áður sagt, að skattalækkunin gefur miklu meiri kaupmáttaraukningu. Með slíkri skattalækkun og jafnvel með 5% gengissigi á næsta ári tækist að mati Þjóðhagsstofnunar að halda að fullu kaupmætti kauptaxta fjórða ársfjórðungs 1983 og veruleg aukning yrði eða um 1.5% á kaupmætti ráðstöfunartekna. Með þessu móti telur Þjóðhagsstofnun að verðbólga í árslok 1985 á þriggja mánaða grundvelli yrði 4.5 og frá upphafi til loka ársins 5.5. Þetta er að mörgu leyti glæst mynd, held ég að við getum sagt, en öllum má vera augljóst að sjálfsögðu að þetta skapar gífurlegan vanda fyrir ríkissjóð. Ég vil ekki fullyrða að sá vandi verði leystur svo að viðunandi sé. Ég tek það skýrt fram að ég tel að sveitarfélögin eigi að taka þátt í þessari lausn. Gæti það komið til viðbótar t.d. 600 millj. kr. skattalækkun ríkissjóðs.

Ég skal ekki lengja umr. með því að ræða þetta lengur, en legg á það áherslu að það er ekki launþegum til bóta að fara með peningalaunahækkanir út yfir þau mörk sem tryggja áframhaldandi hjöðnun verðbólgu. Það held ég að öllum launþegum muni vera ljóst. Ný verðbólguskriða er hvorki þeim né þjóðfélaginu til hagsbóta og ég held reyndar að ég verði að taka miklu dýpra í árinni. Ný verðbólguholskefla er þjóðfélaginu mjög hættuleg. Ég held að fullyrða megi að tekist hafi á þessu ári að tryggja t.d. löng erlend lán með viðunandi kjörum og lagfæra þannig greiðslustöðu okkar gagnvart útlöndum fyrst og fremst vegna þess að sá árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum, þ.e. hjöðnun verðbólgu eins og hún hefur verið, hefur skapað traust hjá lánveitendum erlendis.

Ég leyfi mér að fullyrða að ef þetta snýst við og verðbólga fer vaxandi á ný muni þetta traust ekki vera fyrir hendi. Þjóð, sem skuldar erlendis um 60% af sinni þjóðarframleiðslu, hefur ekki efni á því að glata því trausti sem nauðsynlegt er hjá lánveitendum.

Í þeirri umr. sem fer fram um kjarasamninga kemur ýmislegt fleira til greina, t.d. verðtrygging á ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa reyndar þegar sagt að þeir telji að afnema eigi verðtryggingu á skemmri fjárskuldbindingum og á þeim öðrum sviðum þar sem það er unnt. Þetta má gera sem fyrst.

Ég get einnig tekið undir ýmislegt sem fram hefur komið. T.d. er sjálfsagt að framkvæma einhvers konar samanburð á því hvernig laun eru í þjóðfélaginu. Á það hefur BSRB lagt höfuðáherslu. Ég vek athygli á því að fyrir fimm árum sögðu verslunarmenn upp samningum á þeirri forsendu að þeir hefðu dregist aftur úr opinberum starfsmönnum í launum. Þá var málið leyst með samkomulagi um gerðardóm sem mat þetta. Mér sýnist eðlilegt að reyna svipaða leið nú.

Ég vil því að lokum fara nokkrum orðum um þá lausn sem mér sýnist helst líkleg á þessari deilu. Í fyrsta lagi legg ég á það mikla áherslu að sú heildarlausn verði fundin sem nær út árið 1985. Okkur veitir ekkert af vinnufriði til þeirra stóru hluta sem þarf að framkvæma á næsta ári, m.a. til þeirrar nýsköpunar í atvinnulífi sem ég hef þegar nefnt.

Ég vil einnig leggja áherslu á það að peningalaunahækkanir verði sem minnstar. Ég tel að peningalaunahækkanir að meðaltali samtals á samningstímabilinu á bilinu 6–10% séu nálægt því hámarki sem atvinnuvegirnir og gengisstefnan þolir. Ég vil lýsa þeirri persónulegu skoðun minni að í þessum peningalaunahækkunum ætti tvímælalaust að vera meiri hækkun fyrir þá sem lægstu launin hafa. Þetta var gert við síðustu samninga. Satt að segja hafa kröfur um það ekki verið mjög háværar í þeim viðræðum sem nú eru í gangi. En ég tel að tvímælalaust ætti að athuga slíkt.

Mér sýnist jafnframt að í þessu sambandi og í tengslum við heildarsamning beri að skoða skattalækkun sem tryggi óbreyttan kaupmátt frá síðasta ársfjórðungi 1983. Það er nokkru meira en ríkisstj. hefur talið æskilegt í þeirri stöðu sem nú er. Ég tel þó að þetta langt megi teygja sig. Sumir kunna að segja hér: Þetta er ekki nálægt því nógu langt. En ég vek þá athygli á því sem ég hef áður sagt um það svigrúm sem er í þjóðarbúinu.

Mér finnst einnig sjálfsagt að aðilar hafi með sér samráð um að meta hvernig kaupmáttur þróast á þessu tímabili og að menn ræði þá um leiðir til að halda þessum kaupmætti á samningstímabilinu öllu. Mér finnst sjálfsagt að afnema verðtryggingar á sem flestum sviðum. Ég held að menn eigi ekki að gera það á lengri lánum, t.d. væri það líklega nokkuð varasamt á húsnæðislánum til 25 ára, en á skemmri lánum og ýmsum öðrum skuldbindingum í þjóðfélaginu tel ég rétt að afnema verðtrygginguna.

Vextir hafa komið mikið til umr. í þjóðfélaginu upp á síðkastið og nokkuð skiptar skoðanir hafa verið um þá vaxtahækkun sem nýlega varð. Við erum þar í nokkrum erfiðleikum Íslendingar. Á því er ekki nokkur vafi. Sparnaður hefur ekki aukist eins og þyrfti að vera og e.t.v. er það eitt okkar versta mein. Sú vaxtahækkun sem hefur orðið er að sjálfsögðu gerð til að reyna að auka sparnað, draga úr útlánum og þannig draga úr þeirri þenslu sem orðið hefur á peningamarkaðinum. Hitt má vera ljóst að svo háir raunvextir sem nú eru fá aldrei staðist til lengdar. Þeir munu draga úr fjárfestingu í þjóðfélaginu sem er ákaflega nauðsynleg ef hagvöxtur á að hefjast. Ég lýsi því þeirri skoðun minni að vextir hljóti að fara lækkandi, bæði eftir því sem verðbólga lækkar og ekki síður eftir því sem við náum betri tökum á okkar efnahagsmálum, meiri staðfesta verður í okkar efnahagsmálum og við komumst lengra frá áhrifum af þeirri miklu verðbólgu sem við Íslendingar höfum búið við á undanförnum árum og frá þeim hugsunarhætti sem áreiðanlega á stóran hlut í of lítilli sparifjáröflun. Til þessa hefur verðbólguhugsunarhátturinn verið ríkjandi og menn eytt frekar en að spara. Að mínu mati hljóta vextir að lækka ef samstaða næst um hjöðnun verðbólgu og að festa betur þann mikla árangur sem náðst hefur.

Ég leyfi mér að vona að ef samstaða næst milli ríkisvaldsins og BSRB um þennan ramma sem ég hef nú lýst þá fallist BSRB á að aflýsa verkfallinu alveg eða fresta því einhvern tíma og yrðu þá laun að sjálfsögðu greidd út að fullu. Ég tel sjálfsagt að orðið verði við þeim kröfum BSRB að gera samanburð, eins og ég sagði áðan, á launum í þjóðfélaginu í heild sinni.

Ég skal svo að lokum hafa nokkur orð um framkvæmd deilunnar við BSRB. Í hana hefur færst töluverð harka sem því miður spillir því að viðræður séu eins og þær þyrftu að verða. Í því sambandi vil ég leggja á það áherslu að það ber að fara að lögum, fyrst og fremst að lögum. Af því að ég heyrði að menn voru hér áðan að gefa frá sér hljóð á pöllum út af útborgun launa er rétt að upplýsa það að um það eru mjög skiptar skoðanir á milli lögfræðinga hvort greiða eigi út eða ekki. Álitsgerð fékkst frá þremur lögfræðingum. Frá Jóni Steinari Gunnlaugssyni hæstaréttarlögmanni sem kemst að þeirri niðurstöðu, svo að ég lesi ekki alla þessa grg. því að hún er nokkuð löng, að óskylt sé að greiða starfsmönnum ríkisins 1. okt. laun nema fyrir þrjá fyrstu daga mánaðarins. Reyndar kemst lögmaðurinn að enn þá harðari niðurstöðu þar sem hann segir:

„Að fenginni þessari niðurstöðu má miklu frekar velta fyrir sér hvort fjmrh. sé heimilt að greiða úr ríkissjóði 1. okt. starfsmönnum ríkisins laun fyrir allan októbermánuð.“

Rökstuðningur lögmannsins, sem allir alþm. geta að sjálfsögðu fengið aðgang að, er sá að búið er að boða verkfall og allar líkur benda til þess að vinna verði ekki innt af hendi fyrir það framlag sem í laununum felst. Að sömu niðurstöðu kemst ríkislögmaður. Þar segir með leyfi forseta:

„Staða mála er sú að BSRB lýsti yfir verkfalli frá og með 4. okt. n.k. Við þessar aðstæður verður að telja vafalaust að vinnuveitanda sé óskylt að greiða starfsmanni laun nema fyrir þá daga sem hann hefur lýst yfir að hann muni vinna. Vinnuveitandinn, ríkið, mun fyrirsjáanlega ekki fá gagngjaldið, þ.e. vinnuframlagið, og því grundvöllur brostinn fyrir skyldu hans til greiðslu launa af sinni hálfu. Það er ótækt með öllu að laun séu greidd í verkfalli. Samningur eða lög um fyrirframgreiðslur launa breytir engu um þennan kjarna málsins.“

Ég fékk jafnframt greinargerð frá Benedikt Sigurjónssyni lögfræðingi og fyrrv. hæstaréttardómara. Hann kemst að annarri niðurstöðu og vísar eins og fyrri lögmenn til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, 20. gr. Þar segir:

„Föst laun greiðast fyrir fram mánaðarlega fyrsta starfsdag hvers mánaðar. Greidd laun eru óafturkræf þótt starfsmaður andist eða verði leystur frá starfa áður en mánuður er liðinn.“

Hann skiptir síðan í þessari greinargerð ríkisstarfsmönnum í þrjá hópa. Hann segir í niðurstöðu: „Enginn vafi er á því að skylt er að greiða þeim starfsmönnum laun sem ekki fara í verkfall. Deila má um hina flokkana, þ.e. þá sem eru skyldaðir til vinnu og þá sem ekki vinna. Þegar hins vegar er litið til hinna ákveðnu reglna í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 38/1954 og virtar verkfallsreglur laga nr. 29/1976 og þess gætt að hinn 1. okt. er alls ekki víst að til verkfalls komi, þar sem samkomulag gæti náðst innan þess tíma, tel ég eðlilegt að líta svo á að greiða beri októberlaunin. Mér finnst að það megi jafna þessu til þess að maður sé rekinn eftir þrjá daga. Það er ljóst að 20. gr. laga nr. 38/1954 leggur á ríkissjóð áhættuna af því að vinnusambandið haldist út mánuðinn.“

Þetta mál var að sjálfsögðu ítarlega rætt í ríkisstj. og þar komu fram skiptar skoðanir eins og koma fram í álitum lögfræðinganna. Í fundargerð ríkisstj. er bókað að fjmrh. ákveður þessa framkvæmd eftir að hafa heyrt afstöðu ráðh. í ríkisstj. Menn verða að gæta þess að íslensk ríkisstj. er ekki, eins og lögfróðir menn hafa hvað eftir annað sagt, fjölskipað stjórnvald. Skv. stjórnarskránni er lokaákvörðunin í svona máli tvímælalaust hjá fjmrh. Ef deilt er um slíka lagaframkvæmd á tvímælalaust að vísa henni til dómstóla til að fá úr skorið og reyna að hraða þeirri meðferð.

En það er fleira í þessari deilu sem orkar svo sannarlega tvímælis. Í lögum um verkfallsrétt opinberra starfsmanna segir, með leyfi forseta í 26. gr.:

„Þótt löglegt verkfall sé hafið er starfsmönnum, sem í verkfalli eru, skylt að starfa svo að haldið verði uppi nauðsynlegri öryggisvörslu og heilsugæslu. Kjaradeilunefnd ákveður hvaða einstakir menn skuli vinna í verkfalli og hún skiptir vinnuskyldu á milli manna. Um launakjör þessara manna meðan á verkfallinu stendur skal fara eftir þeim kjarasamningi sem gerður verður að loknu verkfalli.“

Í áliti Benedikts Sigurjónssonar, sem reyndar var formaður þeirrar nefndar sem samdi þessi lög, kemst hann eindregið að þeirri niðurstöðu að kjaradeilunefnd sé æðsti dómstóll í þessum málum eða réttara sagt að úrskurði hennar verði ekki hnekkt nema fyrir öðrum dómstólum, bæði ríki og BSRB beri að fara að úrskurði kjaradeilunefndar þar til honum hefur verið hnekkt fyrir öðrum dómstólum.

Ég hlýt að hanna það að BSRB hefur staðið gegn því að úrskurðir kjaradeilunefndar hafi fengið framgang. Um það eru því miður allmörg dæmi sem ég veit að hv. þm. þekkja. Það kann vel að vera að menn vilji breyta þessari grein og ég sé að þegar hefur verið lagt fram hér á hinu háa Alþingi frv. um að skjóta megi slíkum málum til Hæstaréttar sem beri að úrskurða án tafar. Það getur vel verið að einhver slík breyting komi til greina. En þegar frv. var samið og samþykkt á hinu háa Alþingi 1976 voru einmitt um þetta atriði mjög miklar og ítarlegar umræður og kom greinilega fram að menn treystu sér ekki til að takmarka verksvið eða valdsvið kjaradeilunefndar frekar en gert er í lögunum og að hún hlyti sjálf að ákveða hvert hennar valdsvið væri. Það er því að taka lögin í sínar hendur að hlýða ekki úrskurðum kjaradeilunefndar.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um það eða nefna þau dæmi sem skýrt hefur verið frá í fjölmiðlum nú upp á síðkastið. En ég legg á það mikla áherslu að menn leggi til hliðar slíkar deilur og sameinist um að leysa þessa deilu þannig að menn geti komist að kjarna málsins, að semja um ágreiningsatriði í kjaramálum.

Ég hef haft samband ásamt formanni Sjálfstfl. við ASÍ, Vinnuveitendasamband Íslands, Vinnumálasamband samvinnufélaganna, BSRB og reyndar aðildarfélög að ASÍ. Það samband hefur verið gott og ég geri mér fastlega vonir um að unnt verði að ná skynsamlegri lausn. Mér ber samkvæmt lögum að halda samráðsfundi með aðilum vinnumarkaðarins og það var gert fyrir nokkru. Þá kom þegar fram mjög ákveðinn vilji, að því er mér fannst, hjá þessum aðilum til að skoða aðrar leiðir en peningalaunahækkanir einar. Við áttum svo núna s.l. þriðjudag fund með samninganefnd Vinnuveitendasambands Íslands og þeirra viðsemjenda, þ.e. ASÍ og Verkamannasambandsins og félags iðnaðarmanna. Á þeim fundi var ákveðið að setja þegar á fót nefnd sem skoði skattalækkunarleiðina og ekki síður staðfest eftir þann fund að aðilar vilja leita leiða, leita möguleika til að fara þá leið og þá í staðinn fyrir meiri peningalaunahækkanir. Þessi nefnd byrjar starf sitt í dag og hafa verið skipaðir í hana fulltrúar frá ríkinu, Vinnuveitendasambandi Íslands, frá hinum almenna launamarkaði og frá BSRB og einnig er fulltrúi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Það verk, sem þessi nefnd á að vinna, er ekki auðvelt. Það er vitanlega vandséð hvernig verulegum skattalækkunum verður mætt. Ég hygg að þeim verði að mæta eftir þremur leiðum. Í fyrsta lagi með sparnaði og niðurskurði í ríkisrekstri til bráðabirgða á meðan svo ástatt er. Í öðru lagi með einhverri skattahækkun eins og ásættanlegast er og í þriðja lagi eflaust með einhverjum auknum lántökum. Þá vil ég leggja áherslu á að þau lán verði innanlands en ekki erlendis. Ég hygg að til þess séu möguleikar ef menn vilja.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vil aðeins að lokum endurtaka það sem ég sagði í upphafi. Það er einlæg von mín að þessi umræða geti orðið til þess að skýra málin og leysa þau fremur en að herða hnútinn. Ég veit að allir hv. þm. vilja að lausn fáist á þessum málum. Og ég veit að allir hv. þm. vilja að lausn fáist sem þjóðarbúið þolir og að lausn fáist sem launþegar geta sætt sig við. Að því er unnið og ég vona að allir hv. þm. vilji leggja því lið.