18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Verkamannasambandið hefur undanfarnar víkur staðið í umfangsmiklum samningaviðræðum og þar hefur verið léð máls á því að fara nýja leið, aðra leið en tíðkast hefur í kjaramálum á undanförnum árum. Við höfum viljað fara þá leið sem gæti tryggt launþegum að hugsanlegir kjarasamningar yrðu ekki til baka teknir aftur af ríkisvaldinu, eins og aðrar ríkisstjórnir hafa leikið hver á fætur annarri. Við höfum horft á þá staðreynd með skelfingu að á síðasta áratug voru kauphækkanir 7000% að upphæð, en kaupmáttur hefur minnkað um 10%. Við gerum okkur líka ljóst að eldurinn brennur heitast í fiskiðnaði, í útgerð, á því fólki sem þar starfar, því fólki sem er á lægstu laununum. Þar er illa komið. Útgerð og fiskvinnsla eru í rúst. Á sama tíma eru hlutirnir þannig vaxnir að verkafólk og sjómenn, sem að þessu starfa, eru á hungurlaunum. Við þekkjum vel þessi vandamál í Verkamannasambandinu og við vitum að það eru tugir ef ekki hundruð manna atvinnulaus í sjávarplássunum í dag og sá vandi fer vaxandi. Við höfum talið það mjög mikils virði og númer eitt, ef svo mætti segja, að atvinnuöryggið sé tryggt og að það kapphlaup sem verðbólgan hefur skapað yrði aflagt, en kaupmátturinn tryggður fyrst og fremst.

Sameiginlega hafa aðilar vinnumarkaðarins, Vinnuveitendasambandið, Verkamannasambandið og Landssamband iðnverkafólks, haft samráð við ríkisstj. um þessa nýju leið og þar var okkur vel tekið. Þar var uppi sú skoðun fyrir nokkrum dögum að flytja bæri fjármuni frá ríkinu til fólksins, til heimilanna, það gæti orðið þáttur í því að tryggja kaupmáttinn. Í góðri trú héldum við þessum samningaviðræðum áfram. Við töldum okkur vera komna langt á leið með samninga og ég er sannfærður um að það hefði tekist að semja á þessum grundvelli. Við vorum líka sannfærðir um að með þeirri leið sem við höfðum þarna valið væri tryggt að þessar kjarabætur yrðu ekki aftur teknar í einu vetfangi.

Þegar við leituðum til ríkisstj. var okkur lofað því að tekjuskattur skyldi lækkaður um 1100 millj. og útsvar um 300 millj. og síðan yrði rætt milli aðila hvernig þessu yrði fyrir komið. Það var talað saman í fullu bróðerni. Við kusum sérstaka nefnd til að fara ofan í þessi mál og reyna að vinna úr þessu, hvernig best mætti koma þessu til skila. Nú hafa viðhorf breyst. Það hefur orðið mikil kúvending í samningamálum. Þegar hæstv. forsrh. kom hér upp ræddi hann um niðurlag þeirrar ályktunar sem við í Verkamannasambandinu gerðum, hvar við stóðum með rýtinginn í bakinu, en ég hefði heldur ætlað að því hefði verið mótmælt, sem við sögðum í ályktuninni, að fyrri yfirlýsingar um 1400 millj. kr. skattalækkanir samtals stæðust ekki lengur. Því spyr ég nú: Standa fyrri yfirlýsingar gagnvart láglaunafólkinu í landinu eða ekki eða stöndum við þannig að Reykjavíkurborg og bæjarfélögin hér í kring, sem stunda hinn arabíska markað, ráði þeirri ferð sem hér verður farin? Hefur ríkisstj. skipt um skoðun eða ætlar hún að standa við fyrri fyrirheit þannig að við getum e.t.v. haldið áfram?

Það er hins vegar skoðun mín að það sem skeð hefur á undanförnum dögum breyti myndinni allmikið og ég óttast að sú leið, sem við höfðum talið vænlega fyrir láglaunafólk, fyrir fólkið í landinu, svo að það gæti haldið kaupmætti launa sinna og látið hann vaxa, leið Verkamannasambandsins og Landssambands iðnverkafólks, verði ekki valin.

En ég vil ekki út af fyrir sig átelja þá samninga sem átt hafa sér stað að undanförnu. Forustumenn Sjálfstfl. hafa valið aðra leið en við vorum að tala um. Þeir hafa valið gömlu leiðina. Og borgarstjórinn í Reykjavík, meiri hluti borgarstjórnar í Reykjavík, er ekkert ótengdur ríkisstj. í dag, það skulu menn vita. (Gripið fram í: En í Kópavogi?) Þeir eru sporgöngumenn. Það er borgarstjórinn í Reykjavík, einn af höfuðforustumönnum Sjálfstfl. í Reykjavík, sem gefur tóninn og valdi þessa leið og fram hjá því verður ekki komist. Ég óttast að þessi stefnubreyting verði til þess að við hinir séum dæmdir til þess af þessum postulum að fara þessa gömlu og slitnu leið vegna þess að þó að við vildum fara aðra leið stöndum við frammi fyrir því að tökum við ekki þátt í kapphlaupinu verðum við undir.

Ég bið hæstv. forsrh. að svara því hvort fyrra tilboð standi eða hvort frá því hefur verið fallið.