18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

Umræður utan dagskrár

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég verð að játa að mér eru ekki geðfelld þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í kjarasamningum undanfarið. Mér er ekki geðfellt að heyra að ríkisstj. situr á fundum með samningsaðilum og lofar skattaafslætti með einum eða öðrum hætti úr eigin sjóðum eða annarra. Ég tel að slík loforð bindi hendur löggjafans meira en eðlilegt er. Á löggjafarþingi sitja menn með mismunandi skoðanir og hafa allir jafnan rétt til þeirra skoðana. Við vitum að á þessu þingi sitja menn sem eru á móti tekjuskattslækkunum eða útsvarslækkunum. Við gerum okkur jafnframt grein fyrir því að þegar aðild ríkisstj. að samningum er orðin að veruleika með þessum hætti getur enginn maður haft uppi andmæli á löggjafarsamkundunni gegn þeim aðgerðum. Samviska hans hreint og beint meinar honum að trufla svo gerðan hlut.

Ég vil líka lýsa því yfir að við í BJ styðjum bæði skatta- og tollalækkanir sem tengdar eru samdrætti í ríkisrekstri — samdrætti sem ekki skaðar þá einstaklinga sem við teljum okkur siðferðilega skylt að styðja. En við styðjum slíkar skattalækkanir ekki ef á að taka þær inn með skattheimtu með öðrum hætti, ef á að halda uppi viðtekinni venju og taka það úr öðrum vasanum sem stungið var í hinn.

Orð skulu standa, sagði einhver, og er mér enginn sérstakur akkur í því að vera að hengja menn á orð. En í yfirlýsingu hæstv. forsrh. koma fyrir fáein orð sem ég tel að verði að fá mjög nákvæma skýringu á. Í lok máls síns segir hæstv. forsrh., með leyfi forseta, eftir að hafa látið í ljós nokkuð svipaðar skoðanir og Verkamannasambandið og Landssamband iðnverkafólks:

„Enda er ljóst að það er eina leiðin til að koma í veg fyrir verðbólgu á nýjan leik með víxlhækkun verðlags og launa.“

Þetta merkir að meiri áhersla á skattalækkanir og minni peningalaunahækkanir sé eina leiðin til að koma í veg fyrir verðbólgu á nýjan leik með víxlhækkun verðlags og launa. Þýðir þetta að hæstv. forsrh. sé að gefa í skyn að með þeim samningum sem þegar hafa verið gerðir í Reykjavík, í Kópavogi og víðs vegar um landið og samningi sem má næstum því sjá hilla undir í samningsstarfi BSRB og fjmrh., ef marka á þann fréttaflutning sem við höfum haft af því, eigum við í vændum, strax að afloknum þessum samningum, verðbólgu á nýjan leik með víxlhækkun verðlags og launa?