19.12.1984
Efri deild: 36. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

214. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Það væri synd að segja að samstaða hafi verið í fjh.- og viðskn. um afgreiðslu þessa máls. Satt best að segja er alls ekki meiri hl. í nefndinni til stuðnings því að þetta mál hljóti samþykki hér á þingi. Nefndin klofnaði í þrjá parta og mæli ég hér fyrir öðrum stærsta hluta nefndarinnar, þ.e. fyrir hönd fulltrúa Alþb., Alþfl. og Samtaka um kvennalista í fjh.- og viðskn., en fulltrúi Bandalags jafnaðarmanna, sem situr að jafnaði fundi nefndarinnar, er samþykkur áliti okkar. Við leggjum til að frv. verði fellt.

Formaður nefndarinnar, sem veitt hefur henni löngum ágæta leiðsögn og forustu, er ekki reiðubúinn til að styðja þetta mál og skilar því séráliti og mun væntanlega sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Nú verður að játa að vissulega er staða ríkissjóðs ekki góð, en hér er um tekjuöflunarfrv. að ræða. Staða ríkissjóðs er svo uggvænleg að hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson lætur hafa það eftir sér í Morgunblaðinu í dag að útlit um rekstrarhalla ríkissjóðs á komandi ári sé geigvænleg tala, eins og hann kemst sjálfur að orði. Jú, það er sannarlega rétt, það blasir við geigvænlegt gat hjá ríkissjóði á næsta ári. Og ekki nóg með það. Verðbólga æðir upp um þessar mundir og erlend skuldasöfnun fer mjög vaxandi. Hæstv. fjmrh. hafði sannarlega áhyggjur af erlendri skuldasöfnun áður en hann kom í sitt embætti og gaf þá frægar yfirlýsingar um að hann mundi ekki una því að skuldahlutfall þjóðarinnar út á við færi yfir 60%. En svo er nú að sjá í viðtali, sem hann á við Morgunblaðið í morgun, að viðhorf hans í þessum málum hafi nokkuð breyst.

Nú get ég að vísu tekið undir með honum þegar hann segir í viðtali við blaðið, með leyfi forseta: „Fólk hlýtur að skilja að þegar þjóðarframleiðsla dregst saman eykst þessi prósenta í erlendum lánum. En þegar þjóðarframleiðsla er mikil minnkar prósentan þó að erlenda skuldin sé hin sama í báðum tilfellum.“ Þetta er laukrétt hjá ráðh. og einhvern veginn finnst mér ég kannast við þessa röksemdafærslu. Ætli ég hafi ekki sjálfur einhvern tíma haft hana uppi? Þetta er vissulega kjarni máls, að erlendu lántökurnar sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hreyfast ekki aðeins eftir því hvað erlendu lánin eru mikil heldur einnig eftir því hvernig gengur um þjóðarframleiðsluna. Hins vegar finnst mér hæstv. ráðh. fara nokkuð létt með hlutina þegar hann segir í viðtali við Morgunblaðið til viðbótar, með leyfi forseta:

„Hann sagði þessa tölu hugsanavillu sem einhver óábyrgur stjórnmálamaður eða stofnun hefði fundið upp og því væri ekkert mark á henni takandi.“

Þarna þykir mér hæstv. ráðh. taka nokkuð mikið upp í sig því að vissulega er fullt mark á þessari tölu takandi. En það verður bara að skoða hana eins og hún er vaxin. Hún er byggð upp af tvennum stærðum, þ.e. annars vegar upphæð erlendu lánanna og hins vegar af þjóðarframleiðslunni og hreyfist eftir báðum stærðunum samtímis. Hins vegar held ég að allir verði að taka mark á þeim orðum hæstv. ráðh:, sem hann mælti hér fyrirein ári síðan, að hætta sé á ferð og þörf á að stinga við fótum í sambandi við erlenda skuldasöfnun og að æskilegt sé að þessi prósentutala fari ekki yfir 60%. En hann er sem sagt orðinn annars sinnis nú.

Satt best að segja er staðan í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar með þeim ósköpum gerð um þessar mundir að þar stendur nánast ekki steinn yfir steini, eins og ég hef nú rakið. Og það er ekki annað að sjá en að ríkisstj. reki áfram í brimgarði stefnulaust án þess að nokkur tilraun sé gerð til að stinga við fótum eða ná valdi á þróun mála. Er þá þetta tvennt einna óhugnanlegast, eins og hæstv. forsrh. nefnir, að erlendar skuldir halda áfram að hækka, þótt ekki sé hægt að segja að þjóðin standi í sérstaklega miklum framkvæmdum eins og stundum hefur áður verið þegar skuldahlutfallið hefur verið á uppleið, og staða ríkisfjármálanna er mjög uggvænleg. Einhver nefndi í mín eyru í morgun að stefna ríkisstj. væri eins og lík sem enginn nennti að veita nábjargirnar. Ég hygg að nokkuð sé til í þeirri lýsingu.

En hver er þá afstaða stjórnarandstöðunnar til þess þegar fram kemur á Alþingi till. um auknar tekjur í ríkissjóð? Tekur ekki stjórnarandstaðan því fagnandi að reynt sé að draga úr hallanum á fjárlögunum? Ég held að það verði ekki af stjórnarandstöðunni skafið að hún hefur verið harla tillögugóð þegar um hefur verið að ræða tekjuöflun í ríkissjóð. Satt að segja er leitun að stjórnarandstöðu á seinni árum sem hefur gert jafn ítrekaðar tilraunir til að koma fjmrh. þjóðarinnar til hjálpar í sambandi við stöðu ríkissjóðs með tillögugerð í ýmiss konar skattlagningu. En það hafa verið tillögur sem hæstv. ráðh. hefur ekki viljað hlusta á, ráðleggingar sem hann hefur ekki viljað þiggja.

Við höfum, eins og kunnugt er, verið andvígir því að sköttum væri létt af stórfyrirtækjum, hlutafélögum og yfirleitt atvinnurekstri í þeim stórfellda mæli sem raun ber vitni. Við höfum líka talið að heimta ætti meiri skatt af skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Við töldum að ástæðulaust væri að leggja niður skatt á skemmtiferðir til útlanda og fleira mætti nefna í þessu sambandi. Því segi ég enn og aftur að vafalaust er leitun að stjórnarandstöðu sem lent hefur í því að bjóða atbeina sinn æ ofan í æ til að hjálpa fjmrh. að fylla í hans stóra gat en án þess að sú aðstoð væri þegin.

Auðvitað mótast afstaða stjórnarandstöðunnar í þessu máli af því að við teljum að sú tekjuöflun, sem hér er gerð tillaga um, sé einhver sú óheppilegasta sem völ getur verið á. Hækkun söluskatts kemur fram í öllu almennu vöruverði og kemur sérstaklega illa við lágtekjufólk ofan á þær álögur sem felast í ákveðinni gengislækkun. Við teljum sem sagt flest annað hyggilegra til að rétta hallann hjá ríkissjóði en að leggja á söluskatt eða hækka hann. Auk þess bendum við á að hér er að sjálfsögðu um að ræða skattaskipti, þ.e. hér er verið að fylla upp í það gat sem varð þegar tekjuskattur var lækkaður. Þegar það mál var til umr. töldum við að flestar aðrar leiðir væru hyggilegri í þeim skattaskiptum en að afla teknanna með hækkun söluskattsins.

Hæstv. ráðh. hefur haft sínar aðferðir til að rökstyðja og réttlæta hækkun söluskattsins og hefur m.a. bent á að hækkun söluskattsins komi í staðinn fyrir endurgreiðslu söluskatts til sjávarúfvegsins. Öllum málum má stilla upp með ýmsum hætti og eins er um þetta mál. En ég tel að þetta sé ekki eðlilegur málflutningur þegar haft er í huga að endurgreiðsla söluskatts til sjávarútvegsins var ákveðin fyrir mörgum mánuðum og fólst í fjárlagafrv. sem var lagt fram á Alþingi í októberbyrjun. Þar er gert ráð fyrir að endurgreiðsla söluskatts til sjávarútvegsins eigi sér stað og ekkert á það minnst að reynt verði að bæta upp þann tekjumissi með álagningu söluskatts. Hins vegar er í fjárlagafrv. sérstaklega tekið fram að til standi að lækka tekjuskattinn og hækka óbeina skatta á móti og mundi ég að sjálfsögðu vera fús til að leiðbeina hæstv. ráðh. um hvar má lesa þetta í grg. fjárlagafrv. því að þar stendur þetta alveg skýrum stöfum.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta mál. Í raun og veru höfum við Alþb.-menn og raunar stjórnarandstæðingar allir gert skýra grein fyrir afstöðu okkar til söluskattshækkunar í umr. hér í deildinni margsinnis að undanförnu og því ætti hið gagnorða nál. okkar að duga. En ég vil samt nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðh. að því hvort hann geti gefið upplýsingar um það hvernig endurgreiðslu söluskatts til sjávarútvegsins verður háttað. Þá er ég að hugsa um það hvernig framkvæmdinni verður háttað. Það hlýtur að vera forvitnilegt fyrir þm. að frétta af því hvernig staðið verður að endurgreiðslu söluskatts til sjávarútvegsins. Um það hafa engar upplýsingar verið gefnar fram til þessa. Ég tel að hæstv. ráðh. beri að fræða okkur þm. um það hvernig hann ætlar að endurgreiða söluskattinn til sjávarútvegsins.

Virðulegi forseti. Ég minni enn á nál. okkar í 1. minni hl., að vísu ekki ítarlegt nál. en gagnort. Þar leggjum við til að frv. verði fellt.