19.12.1984
Efri deild: 36. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2204 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

214. mál, söluskattur

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Eins og þegar er fram komið hjá frsm. 1. minni hl. sat ég fundi nefndarinnar og er samþykkur minnihlutaáliti 1. minni hl. sem fram kom á þskj. 390.

Um þetta mál er það frá mínum bæjardyrum að segja að margt hefur maður nú séð vitlaust koma frá þessari ríkisstj., en þetta mun þó líklega vera það alvitlausasta. Ríkisstjórnarfulltrúar hafa hér gjarnan úr ræðustól talað um málefnafátækt stjórnarandstöðu, en ég held nú að aldrei hafi opinberað sig öllu meiri fátækt en úrræðafátækt þessarar ríkisstj.

Þegar við höfum gagnrýnt hér aðgerðir ríkisstj. og stjórnvalda yfirleitt höfum við oft og tíðum bent á að lausn vandans liggur að nokkru leyti og að stærstum hluta í því að koma verður á og það sem allra fyrst stórfelldum breytingum á stjórnkerfi landsins. Ég held að ef gögn þyrfti í málarekstri til sönnunar þessari fullyrðingu þá væri þetta mál sem hér er fram komið eitt rækilegasta sönnunargagnið. Ég vil ekki, að fengnum kynnum af þeim mönnum sem skipa stjórnarflokkana og að fengnum kynnum af þeim einstaklingum sem skipa þessa ríkisstj., ætla að þeir geri slíka hluti sem hér á að fara að gera öðruvísi en að þeir hreint og beint telji sig ekki geta annað. Og ef ástandið er þannig að stjórnvaldið hreint og beint kemst ekki hjá því að hegða sér með jafn vitlausum hætti og hér er gert hlýtur það að liggja í vitlausu stjórnkerfi. A.m.k. vil ég ekki halda því fram hér úr þessum ræðustól að það liggi í því að mennirnir, sem landinu stjórna, séu svo vitlausir að þeim detti ekki neitt annað í hug.

Hér fór fram fyrir nokkrum dögum ekki löng en að mínu mati mjög efnisrík umræða þar sem rætt var um hlutverk og afleiðingar neyslusköttunar. Við stöndum hér oft og tíðum í ræðustól og tölum um að hér sé tekist á um stefnur í skattamálum, um neysluskatta, eignarskatta eða tekjuskatta. Staðreyndin er reyndar sú að 80–90% allrar sköttunar á Íslandi eru neysluskattar. Neysluskattar eru sköttun í því formi að sköttunin leitar út í verðlag og er endanlega greidd af neytendum. Sem dæmi gildir þetta um öll innflutningsgjöld, eignarskatta á fyrirtæki, alls konar stimpilgjöld og aukakostnað sem fyrirtæki þurfa að standa í og þar fram eftir götunum. Það að auka sífellt á þessa neyslusköttun gerir ekkert annað en auka sífellt eftirspurnina eftir peningum og að kynda svo undir þessari eftirspurn með sífellt aukinni erlendri lántöku. Hér er dæmið náttúrlega hálfu verra. Það fæst engin bót með því að dæla inn í landið erlendu lánsfé og ætla sér síðan að reyna að ná einhverju af því með aðgerðum sem þessum aftur til baka.

Það er stórt orð Hákot, en ég held að það verði einfaldlega ekkert annað sagt í stöðu sem þessari en að þetta mál ásamt fjölda annarra mála, sem legið hafa fyrir þingi núna í haust, sanni það rækilegar með hverjum deginum sem líður að hér náum við engum úrbótum fyrr en allt fjárlagadæmið — og þá á ég við tekjuhlið dæmisins, útgjaldahlið dæmisins og lánsfjáráætlun — er bókstaflega tætt upp og skoðað eingöngu í ljósi markmiða sinna en ekki í ljósi þess að niðurstöðutölur fjárlaganna verði að einhvers konar heilögum kúm sem ekki má hreyfa við. Menn verða að eyða hér tíma í umr. um hlutverk ríkisvaldsins, menn verða að eyða hér tíma í umr. um verksvið og umfang verkefnanna og menn verða að eyða hér tíma í umr. um hvort haga megi bæði tekjuöflun og útgjöldum ríkisins með öðrum hætti en gert er hér í dag. Menn komast einfaldlega ekki lengra áfram öðruvísi en að breyta um stjórnarfar, breyta um stjórntæki. Við erum að smíða hér nútímaþjóðfélag með 19. aldar verkfærum. Og þessi verkfæri batna ekkert við það þó að skerpt sé á egginni með frumvörpum eða aðgerðum sem þessum. Það sem er kannske erfiðast að kyngja í málum sem þessum er það að eina vopnið sem tiltækt er er að greiða atkvæði á móti svona löguðu. Það er hart að verða að viðurkenna það að ekki skuli vera til áhrifameiri eða róttækari mótmælaaðgerðir þegar svona er staðið að málum.