19.12.1984
Efri deild: 36. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

214. mál, söluskattur

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þess gerist kannske ekki þörf að verða mjög langorður hér við umr. um þetta mál sem þegar hefur hlotið afgreiðslu Nd. og sá tími, sem hér er til umráða nú, er kannske ekki svo mjög rúmur. Það er þó ástæða til að fara um þetta nokkrum orðum enda þótt hv. 3. þm. Norðurl. v. hafi, fyrir hönd þess minni hl. n. sem ég á aðild að, þegar gert góða grein fyrir afstöðu okkar sem leggjum til að frv. verði fellt.

Það er hins vegar ástæða fyrir hv. þm. að veita sérstaka athygli því nál. sem hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur skilað. Ég get í rauninni tekið undir hvert orð í röksemdafærslu hans fyrir afstöðu sinni nema það að hann hefur tekið þá ákvörðun að sitja hjá við afgreiðslu málsins þótt e.t.v. væri honum mun kærara að greiða atkv. gegn því. En þetta er að sjálfsögðu afar skiljanleg afstaða og skynsamleg hjá hv. þm. eins og hans var von og vísa.

En ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á því að hæstv. fjmrh. mundi hér á hinu háa Alþingi mæla fyrir hækkun á söluskatti. Það er hálfgerður hallærisbragur á þessu öllu saman þar sem verið er að hækka söluskattinn samtímis því að allir vita að sá skattur skilar sér alls ekki í ríkissjóð. Hér er verið að hækka neysluskatt og keyra verðbólguna þannig áfram, eins og segir í nál. hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar.

Það er kannske orðin of gömul lumma til að vitna í að hæstv. fjmrh. hefur ekki einu sinni heldur afar oft sagt að hann mundi fremur segja af sér en leggja á nýja skatta. Hér er verið að hækka skattana, hér er verið að leggja á nýjan skatt, hálft söluskattsstig með öllum þeim annmörkum sem söluskattinum í núverandi mynd fylgja. Nú hefur hæstv. fjmrh. að vísu látið dreifa hér frv. til l. um virðisaukaskatt og ég hygg að allir flokkar hafi lýst fylgi við hugmyndina um virðisaukaskatt, a.m.k. margir stjórnmálaflokkanna. T.d. hefur Alþfl. gert það fyrir býsna löngu síðan og það er í stefnuskrá flokksins að stefnt skuli að því að taka upp virðisaukaskatt í stað söluskatts.

En ég verð að gera þá játningu að því meir og lengur sem ég hef horft á þetta virðisaukaskattsmál, þeim mun meira aukast mínar efasemdir um ágæti þess. Ég hygg að svo kunni að vera um ýmsa fleiri. Það er kannske ekki endilega söluskatturinn sjálfur sem slíkur sem veldur því að hann skilast illa heldur fyrst og fremst allar þær undanþágur sem veittar hafa verið frá skattinum. Hér hafa verið nefnd ýmis dæmi um það hversu fáránlegt þetta kerfi er í rauninni orðið. T.d. af því að menn sjá snjómoksturstæki hér að störfum þessa dagana, þegar miklu hleður niður af snjó, má nefna það að ef menn fá dráttarvél til að moka snjó af bílastæði Alþingis er það söluskattsskylt. Ef hins vegar er fenginn vörubíll með tönn framan á til að vinna þetta sama er ekki greiddur af því söluskattur. Ágætt dæmi var nefnt hér í Sþ. um daginn, þar sem um var að ræða sams konar súkkulaðikex eða sælgætisbita sem annars vegar voru settir í lítinn pappakassa og hins vegar voru seldir ópakkaðir. Af öðrum var greiddur söluskattur og hinum ekki. Þetta kerfi er náttúrlega orðið hreint rugl og vitleysa og það er eins gott að viðurkenna það. (Fjmrh.: Söluskattur er ekki af sælgæti.) Sumt sælgæti heitir víst súkkulaðikex og er þá víst öðruvísi flokkað.

Ég ætla ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð. En þó að hæstv. fjmrh. sé að hækka hér söluskattinn þá hef ég ekki heyrt hann gefa neinar yfirlýsingar um það að hann ætli að segja af sér. Ég er svo sem ekkert að óska eftir því. En ég vil bara minna á það sem hann sjálfur sagði, ekki einu sinni heldur oft. Sömuleiðis hafði hann það á orði að ef hækkun erlendra skulda yrði umfram ákveðið mark mundi hann segja af sér. Hvort tveggja hefur gerst. Skuldirnar hafa hækkað meira en ráð var fyrir gert og skattar á almenningi hafa verið hækkaðir og enn situr hæstv. fjmrh. Ég vek bara athygli á þessu, að þarna fara ekki fyllilega saman orð og gerðir. Ég veit að þótt hæstv. fjmrh. segði af sér væri Sjálfstfl. ekki í neinum vandræðum með að leggja til nýjan mann í það embætti. (Gripið fram í.) Það eru áreiðanlega nógir um boðið ef hæstv. fjmrh. vill meina að það embætti liggi á lausu, sem sýnist nú ekki vera í augnablikinu, en það gæti hins vegar orðið skemmra í það en ýmsa grunar. Ég er ekki í neinum vafa um að þar munu færri fá en vilja. Ég bendi aðeins á að þessi mál væru ekki í slæmum höndum ef t.d. hv. formaður fjh.- og viðskn. þessarar deildar gegndi þessu embætti, því að þær hugmyndir sem hann hefur í skattamálum falla ekki allar aldeilis í sama farveg og þær hugmyndir sem efstar eru á blaði hjá þessari hæstv. ríkisstj. Og ég veit að hæstv. núverandi fjmrh., sá ágæti maður fær ekki sínar hugmyndir allar fram í þessari ríkisstj. Ég þykist vita að þetta séu honum ekkert sérstaklega létt spor hingað í þennan ræðustól þegar hann í raun verður að tala fyrir málum sem mér býður í grun að stundum séu honum býsna þvert um hug og sem hann raunar hafði aðrar skoðanir á áður en hann tók við embætti ráðh.

Þegar menn eru að fjalla um þessa söluskattshækkun, sem ég legg til að nái ekki fram að ganga, er nauðsynlegt að huga að því hvernig þessi ríkisstj. hefur í stuttu máli staðið að skattbreytingum. Hún hefur aukið skattbyrði einstaklinganna. Hún hefur lækkað skatt á fyrirtækjum. Hún hefur lækkað skatta á bönkum og hún hefur lagt á alveg sérstaka lyfja- og sjúklingaskatta, þau gjöld hafa hækkað meira en mörg önnur. Hún hefur bætt stöðu þeirra sem betur mega sín, en staða hinna sem minna mega sín í þjóðfélaginu hefur versnað. Þetta eru meginatriði.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að nú er knappur tími til starfa hér og mörg verkefni við að fást ætla ég ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni. En ég legg til að þetta frv. verði fellt og mun greiða atkvæði gegn því.