19.12.1984
Efri deild: 36. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

214. mál, söluskattur

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Alþb. leggur til að frv. verði fellt. Kvennaframboðið leggur til að frv. verði fellt. Alþb. leggur til að þessi slæmi skattur verði ekki aukinn, heldur tekinn skattur af skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Kvennaframboðið gerir það sama. Svona er hægt að halda áfram. Ég ætla því að biðja virðulegan starfsfélaga minn, 11. þm. Reykv., að taka til sín svar mitt til hv. 3. þm. Norðurl. v. (RA: Hvers á Alþfl. að gjalda?) Alþfl. er óháður Alþb. enn þá.

Ég hef hér lagt fram frv. um söluskattsauka að hálfu prósenti. Það er talað um og mikil áhersla lögð á að hér sé verið að hækka söluskatt til að draga úr áhrifum af niðurfellingu tekjuskatts. Við skulum segja að þetta sé allt rétt, við skulum ekkert vera að deila um það. Hér er verið að leggja á söluskattsauka, þó að ekki sé hár, sem á að gefa 200 millj. kr. Það er staðreynd. Ég sé ekki neina ástæðu til þess að vera að della um hvort þessar 200 millj. kr. koma upp í tekjumissi ríkissjóðs af þessu eða hinu tilefninu. En staðreyndin er, svo að við tölum um tekjumissi ríkissjóðs á annan hátt, að ríkissjóður mun ekki innheimta sem svarar 600 millj. af tekjuskatti. Ríkissjóður mun greiða sem svarar, eins og hann hefur lofað, 400–500 millj. til sjávarútvegsins til baka. Ríkissjóður mun endurgreiða vegna loðnunnar og mun endurgreiða uppsafnaðan söluskatt af olíu til fiskiflotans. Þetta er staðreynd. Og það er staðreynd að það er á annan milljarð, hve mikið get ég ekki sagt, kannske 1 milljarður og 200 millj., sem ríkissjóður verður af með. Við skulum viðurkenna að það koma 200 millj. rúmar til baka í söluskattsinnheimtu. Ef við lítum á hvað ríkissjóður innheimtir og hvað ríkissjóður lætur af sínum tekjum er dæmið raunhæft, hvort sem stjórnarandstaðan er að reyna að gera lítið úr því eða ekki. Það er verið að létta tekjuskattsbyrðina með því að innheimta ekki 600 millj. kr. eins og til stóð skv. framlögðu fjárlagafrv., en hækka söluskatt á móti niðurfellingu á tekjuskatti. Það voru allir sammála um það frv. sem lagt var fram. Þar var gert ráð fyrir að beina beinni skattheimtu frekar inn á óbeina skattheimtu. En óbeina skattheimtan skv. frv. er felld niður. Við skulum því ekkert vera að deila um það. Við vitum hvað er skorið niður af ríkissjóðstekjum og hvað kemur í staðinn.

Frsm. fjh.- og viðskn. eru nú orðnir þrír þannig að það er orðin heil eldhúsdagsumræða um stjórnmál almennt.

En það er rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, að það eru viss ummæli forsrh. landsins í Morgunblaðinu í dag sem ég er alls ekki sammála. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef áhyggjur af erlendum skuldasöfnunum. Þær voru orðnar það miklar fyrir síðustu kosningar að eftir flokksráðsfund eða hvað það er kallað hjá Alþb. kom formaður Alþb. fram og hvatti til þjóðstjórnar, til þjóðareiningar vegna þess að ástandið væri orðið þannig að engir pólitískir flokkar, alveg sama hvernig kosningarnar færu, gætu ráðið við ástandið. Ég er alveg sammála um að það var orðið svona slæmt. En við skulum bara líta á þær staðreyndir að ríkissjóður stendur ekki lengur svo illa, og ef þessar nýju álögur á ríkissjóð, sem að hluta til eru mér að kenna sem fjmrh., þ.e. niðurfellingin á tekjuskattinum og svo aðrar tillögur sem voru samþykktar, eins og endurgreiðslan á söluskattinum til sjávarútvegsins, hefðu ekki komið til núna, þær voru ekki inni í dæminu síðast, þá væri ríkissjóður ekki með 600–700 millj. kr. halla núna við fjárlagaafgreiðslu, heldur góðan tekjuafgang þrátt fyrir allt. Það var ákveðið, og m.a.s. fyrir gengislækkun, að erlendar skuldir skyldu ekki fara yfir ákveðinn ramma og þessi rammi var talinn þurfa að vera um 7200 millj. Hann verður í kringum það, kannske 7300 millj. Staða ríkissjóðs hefur batnað. Bæði alþm. og ég tala nú ekki um fjölmiðlar eiga að leggja áherslu á björtu hliðarnar, ekki að varpa skugga yfir þjóðina, yfir Alþingi og yfir framkvæmdavaldið. M.a.s. er hér á Alþingi ekki gert annað en að tala um að það þurfi að breyta þessu og breyta hinu, það þurfi að breyta um menn í ríkisstj. Haldið þið hver og einn að þið séuð allir alltaf færari um að hafa með höndum framkvæmdavald en þeir sem það gera hverju sinni? Ég dreg það í efa.

Auðvitað hef ég áhyggjur af skuldasöfnun. En ég hef ekki meiri áhyggjur af skuldasöfnuninni en svo ef peningamál þjóðarinnar geta gengið áfram eins og þau hafa gengið, að ég er sannfærður um að við getum unnið okkur út úr þeim vanda sem við erum í. Og við getum unnið okkur út úr mörgu af því sem við viljum losna við. Ég er á móti þessari skattheimtu. Ég hef sýnt það og ég hef talað þannig síðan ég kom á Alþingi að ég er á móti slíkri skattheimtu yfirleitt vegna þess að ég held að þjóðfélagið eigi að fara að gefa það mikið af sér að við eigum að geta lækkað ríkissjóðstekjurnar.

En við skulum ekki gleyma því, og ég gat um það í hv. sameinuðu Alþingi fyrir nokkrum dögum, að það er ekki lengra síðan en 1944 að við öðlumst sjálfstæði og þjóðin er gjörsamlega gjörsneydd öllu því sem aðrar menningarþjóðir töldu sjálfsagt. Við höfum verið að byggja upp þjóðfélag. Hér var ekki malbikuð gata, aðalgata, um það leyti sem við fengum sjálfstæði. Ég bjó hér í miðbænum, ég bjó á smiðjustígnum og bleytan frá Bergstaðastrætinu og Laugaveginum rann niður Smiðjustíginn ef rigndi. Hér eru nú atvinnutæki, hér hefur verið dregin upp mynd af sjálfstæðri menningarþjóð sem lifir því lífi sem er sambærilegt við hvað sem er hvar sem er. Svo var ekki þá. Og haldið þið að það kosti ekki peninga? Peningar voru ekki heldur til þá. Auðvitað þurftum við að fá þá að láni. Og þegar nú er verið að tala um að við séum að færa skuldir yfir á börn framtíðarinnar getum við alveg eins sagt: Við erum að gera það sem þeim ber skylda til að halda áfram að gera, en við þurftum að byrja seint miðað við aðrar þjóðir vegna þess að við vorum ekki sjálfstæðir. Það er líka talað um það og hvert mannsbarn les um að sá auður sem átti að fara hér í uppbyggingu var notaður til að byggja upp Kaupmannahöfn að hluta. (Forseti: Ég verð því miður að trufla hæstv. ráðh. í ræðunni. Það var meiningin að fresta fundi núna og halda síðan áfram kl. hálfsex nema ráðh. sé að ljúka máli sínu.) Nei, virðulegi forseti. Ég er ekki að ljúka máli mínu því að svo margt hefur komið fram sem er sagt til þess að gera ríkisstjórn landsins og ráðh. erfiðara fyrir. Ég get því ekki lokið máli mínu á skömmum tíma. — [Fundarhlé.]

Virðulegi forseti. Það er erfitt að þurfa að gera hlé á svarræðu, hugsanlegt að áheyrendur, ef þeir eru þá fyrir hendi, gleymi því sem fram hefur komið í fyrri hálfleik og standi sig þar af leiðandi illa í seinni hálfleik.

Ég vildi gjarnan að hv. 3. þm. Norðurl. v. sýndi mér þann heiður að hlusta á svar mitt til hans, en hann var eins og ég áhyggjufullur út af erlendum skuldasöfnunum. Það er ég ekkert síður nú en áður en ég kom til starfa í því embætti sem ég gegni tímabundið þó að vandamálið sé mér nær nú en áður. Öll þau ummæli mín, sem hann kann að hafa heyrt þegar hann var fjmrh., eiga við enn þann dag í dag. Leiðir að því marki að losna við erlendar skuldir, leiðir út úr þeim vanda, sem virðast vera margar hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. í dag, voru honum lokaðar þá. En í mínum huga eru þær ekki margar. Þær eru fáar, en sumar auðveldar, t.d. áframhaldandi skuldasöfnun til að leysa þann tímabundna vanda sem hver einstaklingur þarf að glíma við í embættistíð sinni og hins vegar að vinna sig út úr vandanum, sem alltaf er að sjálfsögðu hin grýtta leið, og reyna þá að skila verkinu eitthvað áfram þó að ekki komist menn á leiðarenda. Ég tel að það hafi komið í ljós að hægt er að vinna sig út úr þeim fjárhagsvanda sem þjóðin er í og þá verði hægt að hefja þá miklu vinnu, sem fram undan er, að hreinsa til í frumskógi skatta og álaga á fólkinu í landinu. Slíkt væri raunhæft með því að vinna sig út úr vandanum í stað þess að taka lán á lán ofan erlendis frá til þess að komast út úr honum tímabundið. Ég held að við séum öll sammála um að það er kominn tími til að fara að vinna í þá átt eða, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. og fleiri en hann hafa sagt, að stinga við fótum í erlendri skuldasöfnun.

En ég er ekki sammála honum um að ríkisstj. sé stefnulaus. Ég svaraði honum fyrir nokkrum dögum í sameinuðu Alþingi og ég ætla að leyfa mér að endurtaka það sem ég sagði þá, þegar hann taldi að ekki kæmi fram nein stefna í fjárlagafrv., en við erum að ræða hér hluta af tekjuhlið fjárlagafrv. Ég tel að það komi fram pólitísk stefna í því að draga úr framlögum til niðurgreiðslu á vöruverði, að nú skuli stefnt að því að greiða niður 1.2% í framfærsluvísitölu í stað 3–4% eins og var hjá fyrrv. ríkisstj. Ég tel að það sé pólitísk stefna að takmarka framlög til útflutningsbóta, þannig að þau verði 380 millj. í stað yfir 500 millj. sem útflutningsbótarétturinn kallar á. Ég tel að það sé pólitísk stefna að takmarka framlög til atvinnuvegasjóða og annarra framkvæmdasjóða. Og ég tel að það sé líka pólitískt stefnuatriði að framlög til húsnæðismála hafa tvöfaldast frá árinu 1984, úr 400 millj. í 800 millj. Ég tel að það sé pólitísk stefna þegar framlög til vegamála eru eins mikil og raun ber vitni, en áætlað er að þau verði tæpir 1.5 milljarðar kr. Ég tel að það sé pólitísk stefna að stórauka framlög til málefna fatlaðra eða um 40–50% milli ára. Ég tel líka að það sé pólitísk stefna þegar ákveðið er að endurgreiða 450 millj. í söluskatti til sjávarútvegsins eða um það bil. Og ég tel líka að það sé pólitísk stefna þegar ákveðið er að tekjuskattur skuli lækkaður um 600 millj. Ég álít því að það vanti ekki pólitíska stefnu. Þannig er ekki rétt með farið hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. Ég tel líka að það sé pólitísk stefna að ákveða að leggja fram 50 millj. í fjárlögum til nýþróunarverkefna í iðnaði. Það er líka áformað að afla 500 millj. kr. lánsfjár í sama tilgangi fyrir það nýja þróunarfélag sem um hefur verið rætt og allir kannast við og ég ætla mér ekki að lýsa.

Hér er sem sagt farið með rangt mál þegar talað er um að engin pólitísk stefna komi fram í fjárlagagerðinni og að ríkisstj. sé stefnulaus. Það sæmir ekki reynsluríkum þm. að taka þannig til orða.

En það kom fram hjá hv. 8. þm. Reykv. og það furðar mig ekkert að allt sem ríkisstj. gerir og ráðh. yfirleitt er alltaf það vitlausasta sem hægt er að gera hverju sinni. Maður er orðinn vanur slíkum málflutningi og málefnafátækt stjórnarandstöðunnar, að úrræðaleysi ríkisstj. sé alltaf algjört. Auðvitað þarf að koma fram stórfelldum breytingum á stjórnkerfi landsins, að sjálfsögðu, en því er ekki að heilsa að einhverjar hugmyndir komi frá stjórnarandstöðunni. Það er ekki hægt að ætlast til þess að stjórnarandstaðan og síst af öllu hv. 8. þm. Reykv. geri neitt annað en að segja að það þurfi að gera þetta og það þurfi að gera hitt og allt sé vitlausast sem gert er í augnablikinu af ráðherrum.

Ég fagna því að hv. 3. þm. Norðurl. v. er svona viljugur að gefa okkur ráð til fjáröflunar í atvinnurekstri og víðar, en er það virkilega trú hv. þm., að þessi ríkisstj. sé eins stefnulaus og hann vill láta fólk halda með tali sínu, miðað við það sem ég gat um í upphafi máls míns og var niðurstaða miðstjórnarfundar Alþb. um sameiginlegt átak stjórnmálamanna um þjóðstjórn til að bjarga sér frá þeim villuvegi sem hann og fleiri góðir ráðherrar úr hans herbúðum voru búnir að leiða þjóðina út á að þeirra eigin mati? Af hverju notaði þá ekki hv. þm. sem hæstv. ráðh. og hans félagar öll þessi góðu ráð? Fjárhagurinn er miklu betri núna en hann var þegar öll þessi góðu ráð voru í gildi og allir þessir skattar, sem búið er að afnema núna, streymdu inn til ríkissjóðs. Fjárhagurinn er svo sannarlega miklu betri og furðulegt að svo skuli vera, miðað við þann málflutning sem virðulegur þm. hefur viðhaft.

Einhvers staðar skrifaði ég niður eftir hv. 8. þm. Reykv. að brjóta þyrfti upp fjárlagadæmið. Það er alveg rétt. Ég er margbúinn að segja það. Ég er margbúinn að taka fram að það er einmitt það sem þarf að gera. En vandamálið liggur ekki hjá ríkissjóði. Vandamálið felst ekki í þeim dauða pappír sem á eru tölurnar og liðirnir sem við köllum fjárlagadæmi. Vandamálið situr á Alþingi og gengur á tveimur fótum. Það eru alþingismennirnir. Jafnvel meðan við erum að afgreiða fjárlög, sem við vitum að verða afgreidd með hundruðum millj. kr. rekstrarhalla, þá streyma hér á borðin till. og frv. frá þm., frv. sem kosta tugi og hundruð millj. Ég hef margoft sagt að innan tíðar muni ég leggja fram úttekt á lögunum og lagasafninu, sem er nýútgefið, sem sýni okkur öllum hvernig vinnubrögð við höfum viðhaft þegar við höfum samþykkt kannske mörgum sinnum, — ég segi kannske ekki mörgum sinnum, það er orðatiltæki, en sem slíkt ætla ég að nota það, — heildartekjumöguleika ríkissjóðs í útgjöldum. Við hverju búist þið svo?

Ég harma að hv. 8. þm. Reykv. skuli vera, eins og ég kalla það, af svokallaðri kóka kóla og prins póló kynslóð. Hann talaði um að við værum að smíða nútíma þjóðfélag með 19. aldar verkfærum. Verkfærin sem smíða það sem er árangurinn og afraksturinn af störfum Alþingis eru hugvit þeirra sem sitja Alþingi hverju sinni. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég átti því láni að fagna um þriggja ára skeið fyrir seinni heimsstyrjöldina — en ég var nú ekki fæddur fyrir þá fyrri — að fylgjast með vinnubrögðum þeirra sem við höfum kallað aldamótamenn og voru enn þá í fullu fjöri þá og fylgjast með hvernig þeir unnu, hvernig þeir töluðu og sem ungur sendisveinn hér að fylgjast með þeim á ýmsan annan hátt. Það verð ég að segja að aldamótamennirnir voru nútímalegra tæki til afkasta á Alþingi en það sem ég hef fyrir augunum í dag í mörgum stólunum.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa langa ræðu um þetta litla frv. sem í öllum þeim þrengingum sem við verðum að þola gefur ríkissjóði 200 millj. kr. á móti niðurfellingu á ríkissjóðstekjum sem eru yfir 1000 millj. Ég verð að segja alveg eins og er að ef einhver hefði viljað aðra skatta, sem voru eyrnamerktir sem annaðhvort fasteignagjöld eða skattar á fyrirtæki eða á þessa ríku einstaklinga sem hafa svindlað sig upp í það að verða sjálfbjarga, eins og sumir vilja halda fram, þá held ég að menn verði að hugsa sinn gang. Og ég vona að Íslendingurinn þurfi aldrei að taka á sig hliðstæðar kvaðir við það sem aðrar þjóðir verða að gera þegar þær verða að taka á sínum vandamálum, sem eru kannske og oftast nær miklu alvarlegri á friðartímum, svo maður tali ekki um stríðstíma, en þó að 200 millj. kr. sé dreift í óbeinum sköttum á íslensku þjóðina til að hlaupa undir bagga með undirstöðuatvinnuvegunum sem bera uppi velmegun okkar sem heildar. Minna gat það ekki verið úr því að einhverja skatta þurfti að innheimta.

Virðulegur þm. Eiður Guðnason talar um söluskattinn sem af hinu illa og segir alla vita hvernig hann skilar sér. Það getur vel verið að söluskatturinn skili sér illa. Það vil ég ekki fullyrða um að svo stöddu né heldur, ef það er rétt, af hverju hann skilar sér illa. En ég held að ef skattar skila sér illa sé það vegna þess að fólkið í landinu reynir að koma sér undan að standa skil á þeim. Ríkinu sem atvinnuveitanda, sem móttakanda á þessum gjöldum fólksins í sameiginlega sjóði ber skylda til að bera sig eftir þeim. Það er að tillögum Alþfl. sem verið er að herða söluskattseftirlit. Ég vona að hvort sem það er söluskattur eða einhver annar skattur skili það sér pínulítið betur í framtíðinni þannig að við gætum kannske lækkað skattana vegna þess að þeir skili sér betur eða gert eitthvað annað og meira. En eitt er víst, að það er ekki ríkisstj. að kenna að dregist hefur að lögleiða þann skatt sem Alþfl. hefur barist fyrir í gegnum árin, eins og kom fram hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni, virðulegum 5. landsk. þm., virðisaukaskattinn. Það er við Alþingi sjálft að sakast. Ég lagði virðisaukaskattsfrv. fram fyrst frumvarpa s.l. ár og hér er það búið að liggja allt síðasta þing og nú er það komið aftur og ég mun mæla fyrir því í annað sinn þegar virðulegur forseti ákveður að taka það á dagskrá. Ég reikna ekki með og ég legg enga áherslu á að það verði héðan af fyrir jól, en ég vona að það verði fljótlega eftir hátíðar.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um svör til þeirra sem hafa tekið til máls og ég vona að það gerist ekki neitt það hér sem geri það að verkum að ég þurfi að koma upp í ræðustólinn aftur í þessum umr.