18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil í tilefni af þeim umræðum sem hér hafa farið fram minna á að Alþingi hefur samþykkt þáltill. um afnám tekjuskatts í áföngum og af því er ríkisstj. vitanlega bundin. Ég vil líka minna á samkomulag ríkisstj. frá því í sept. s.l. Ég tel að þessar yfirlýsingar séu afdráttarlausar og að hér sé um lágmarksaðgerð að ræða til að fylgja vilja þingsins vegna þeirrar þáltill. sem samþykkt var.

En ég vil jafnframt nota tækifærið til að ítreka þær spurningar, sem hv. þm. Karl Steinar bar hér fram til ríkisstj., um það hvort boð hennar standi eða ekki. Standa hennar boð eða loforð eða ekki?

Ég verð hins vegar að segja að af orðum hæstv. forsrh. fannst mér mega skilja að þær kjarabætur, sem menn væru nú að berjast fyrir, yrðu aftur teknar í verðlagshækkunum og með öðrum hætti. Þetta vekur menn vitaskuld til umhugsunar um það hvernig aðrar þjóðir með sambærilegar þjóðartekjur fari að því að greiða kannske 50% hærri laun en greidd eru á Íslandi. Hvernig má það vera að þjóðfélagsgerðin sé slík að hér skuli ævinlega aftur tekið það sem menn ávinna sér og eigi, ef skilja má forsrh. með þeim hætti sem ég sagði áðan, enn að gerast? Það er auðvitað óviðunandi fyrir okkur Íslendinga að þjóðir með sambærilegar þjóðartekjur geti, og geri það, borgað langt um hærri laun eða réttara sagt: Það er óbærilegt fyrir okkur að við skulum ekki geta fetað sömu braut. Þá er eitthvað mikið að og að því finnst mér að menn ættu að hyggja.

En það var annað í ræðu hæstv. forsrh. sem vakti mig til umhugsunar. Mér fannst liggja í orðum hæstv. forsrh. að hann væri í rauninni á móti þeim samningum sem hæstv. fjmrh. er að gera þessa stundina í umboði ríkisstj. Og þegar þetta bætist við það sem við fengum að heyra hér í gær af hálfu formanns þingflokks Framsfl. varðandi afstöðu Framsfl. hlýtur það að vekja okkur til enn frekari umhugsunar um ástandið í ríkisstj. og hvert sé raunverulegt stefnumið Framsfl. og hvað hann sé að gera í ríkisstjórn.

Í ræðu hér í gær sagði hv. þm. Páll Pétursson að þm. Framsfl. hefðu verið á móti þeirri ákvörðun ríkisstj. að greiða ekki laun hinn 1. okt. Hann sagði líka að þm. Framsfl. upp og ofan, og hann sérstaklega, væru á móti stjfrv. því sem var til umfjöllunar um útvarpsmál. Hann upplýsti enn fremur að þm. Framsfl. hefðu verið á móti þeirri ákvörðun ríkisstj. að hækka vexti og að þm. Framsfl. hefðu verið á móti þeirri ákvörðun ríkisstj. að gefa vextina frjálsa. Það er orðið æðimargt sem þingflokkur Framsfl. er orðinn á móti af því sem ríkisstj. er að gera og ef það bætist svo við að forsrh. er á móti þeim samningum sem hún er að gera hlýtur að verða að spyrja: Hvernig stendur á því að Framsfl. er með ríkisstj. ef hann er á móti öllu sem hún er að gera?

Þetta er dálítið einkennileg afstaða að því er varðar hvert málið á fætur öðru því að Framsfl. segir: Ég er á móti því. Vaxtahækkunin. Framsfl. segir: Ekki ég. Frjálsir vextir. Framsfl. segir: Ekki ég. Útvarpsmál. Framsfl. segir: Ekki ég. Ákvörðun um að greiða ekki laun. Framsfl. segir: Ekki ég. — Og nú spyr ég: Er það eins með það sem forsrh. var að segja áðan, er það eins og í litlu gulu hænunni að ríkisstj. sé á móti þeim samningum sem hún er að gera og forsrh. segi: Ekki ég?