19.12.1984
Efri deild: 36. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2214 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

214. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. minntist hér lítillega á fyrrv. ríkisstj., ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens, sem ég átti sæti í. Ég vil biðja hæstv. fjmrh. að tala ekki illa um þá stjórn því að hann verður nú að teljast guðfaðir hennar og veitti henni dyggan stuðning oft og tíðum.

Hann minntist þess að fyrir tveimur árum, haustið 1982, voru kreppuboðar miklir í aðsigi og menn sáu fram undan að þjóðartekjur mundu verulega rýrna. Þá var það sem Alþb. lagði það til að þjóðarsamstaða yrði um efnahagsaðgerðir sem hefðu það hvort tveggja að markmiði að þjóðin gæti siglt í gegnum þá váboða sem fram undan voru og að ekki þyrfti samtímis að skerða kjörin meira en nam falli þjóðartekna. Þetta var sú áætlun sem hæstv. ráðh. var að vitna til og þeir gera það oft, sjálfstæðismenn, að vitna til þessarar áætlunar, sem við settum fram, og mega sannarlega rifja upp tillögur okkar sem oftast því að þetta voru orð í tíma töluð.

Hins vegar fannst mér ekki alveg nákvæmt frá sagt af hans hálfu þegar hann fór að tala um hag ríkissjóðs á þessum tíma og bera saman við hag ríkissjóðs nú vegna þess að hann veit það allra manna best að ríkissjóður hefur líklega aldrei staðið betur að vígi á undanförnum tíu árum en einmitt á árinu 1982. Ríkissjóður kom út á árinu 1982 með 800 millj. kr. afgang. Það þýðir ekki að hrista höfuðið og neita þessu því að ríkisreikningur fyrir árið 1982 hefur nýlega verið lagður fram. (Fjmrh.: Hvað var þá í útistandandi skuldum?) Þær eru þá meðtaldar. (Fjmrh.: Nei.) Jú, jú, jú. Ríkisreikningur gengur út frá tekjum og gjöldum ríkissjóðs og mismunurinn heitir afgangur. Vegna þess að hæstv. ráðh. er sjálfur alveg nýlega búinn að leggja fram í þinginu ríkisreikning fyrir árið 1982 ætti hann að vita það að í þessum ríkisreikningi kemur ljóslega fram að afgangur á þessu ári var rúmlega 800 millj. kr., þannig að það þarf ekki að halda því fram að ástandið núna, með 1000 millj. kr. gat fram undan eins og forsrh. er að upplýsa okkur um eða 700 millj. kr. gat eins og sagt er að fjvn. gangi frá dæminu eða hvort sem það er nú, sé betri staða en þá var. En við skulum ekki þrátta um þetta. Þetta eru staðreyndir sem liggja á borðinu.

En hæstv. ráðh. spurði: Úr því að verið er að gefa okkur þessi góðu ráð um hvernig ríkissjóður eigi að afla tekna, hvers vegna notuðuð þið ekki þessi ráð sjálfir? Staðreyndin er auðvitað sú að þeir tekjustofnar sem við höfum gert till. um, þar er ég að tala um hærri skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði en nú er lagður á, á ferðagjaldeyri, bankaskatta, hærri skatta á atvinnurekstur — allir þessir skattar voru á lagðir á þessum tíma. Ég bið hæstv. ráðh. að taka eftir því að allir þessir skattar voru á lagðir á þessum tíma. (Gripið fram í.) Ástæðan fyrir því að staðan er þetta miklu verri en hún var þá er sú að þessir skattar hafa nú verið numdir á brott. Þetta er ein skýringin á því að staðan er miklu verri nú en hún var þá.

Ég ætla annars ekki að fara að eyða tíma deildarinnar til að þjarka um þessi efni. Við höfum gert það svo oft, við hæstv. ráðh., og við eigum sjálfsagt eftir að gera það seinna. En það var ein ábending í ræðu hæstv. ráðh. sem mér þótti sérstaklega eftirtektarverð og athygli verð fyrir alla þjóðina. Það var þegar hann átti orðaskipti við hv. þm. Eið Guðnason og skaut því þá að að það sem þjóðina vantaði, það sem okkur vantaði, væri forsrh. Þetta var sannarlega ábending sem getur flokkast undir orð í tíma töluð. Forsrh. er höfuð ríkisstj. Ég er ekki að tengja það neitt saman við þann kafla í ræðu ráðh. þar sem hann talaði um vandamálið sem gengi á tveimur fótum. Ég er ekkert viss um að það sé beint samband þar á milli. En mér fannst að þessi ábending hans væri sérstaklega athyglisverð, að okkur vantaði fyrst og fremst nýjan forsrh., því að við vitum öll að það þýðir nýja stjórn. Ég tek mjög eindregið undir þetta með ráðh. Það er einmitt það sem okkur vantar. Okkur vantar nýja stjórn og nýjan forsrh.