19.12.1984
Efri deild: 36. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

214. mál, söluskattur

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kem hérna aðeins til að leiðrétta dálítinn misskilning hjá hæstv. fjmrh. Mér er ávallt ljúft að rétta honum hjálparhönd. Hann talaði hér um þm. Kvennaframboðs og ég vil láta þess getið að Kvennaframboð á hér enga þm., heldur Samtök um kvennalista.

Síðan gæti verið að hæstv. fjmrh. hafi eitthvað ruglast í nál. því að þau eru óvenjumörg í þessu máli og ég vil þá aðeins benda honum á að allir stjórnarandstöðuflokkar eru andvígir þessu frv. og reyndar fleiri en stjórnarandstöðuþm., þar á meðal hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, formaður hv. fjh.- og viðskn., og að allir hafa þessir aðilar viljað standa að tekjuöflun ríkissjóðs með öðrum hætti.

Hv. 8. þm. Reykv. kom hérna áðan og minntist á að hæstv. ráðh. hefði látið mörgum spurningum ósvarað og ég vil ítreka þá spurningu, sem ég bar hér fram og ráðh. hefur ekki svarað, en hún var á þá leið að mig minnti að ráðh. hefði haft uppi orð og loforð um að athuga sína stöðu í ríkisstj. ef auknar skattaálögur kæmu til. Ég ítreka þá spurningu aftur: Hver er afstaða ráðh. til þess núna?

Það voru fleiri spurningar sem lagðar voru fram, en ráðh. mun koma hér aftur í stólinn og svara þeim, vænti ég.

Ráðh. talaði einnig um að það þyrfti að fara að vinna hið mikla verk sem biði stjórnvalda í því að grisja þann gjalda- og álögufrumskóg, sem um þessar mundir hvílir á öllum almenningi. Þetta hefur hæstv. ráðh. talað um í eitt og hálft ár núna og nú langar mig til að bæta annarri spurningu við til hæstv. ráðh.: Hvenær á að byrja á þessu verki fyrst það er ekki hafið?