19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2220 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

192. mál, málefni aldraðra

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. hefur gert grein fyrir brtt. sem við flytjum saman við það frv. sem hér er á dagskrá, frv. til l. um málefni aldraðra, sem er um breytingu á lögum nr. 91/1982, um málefni aldraðra með síðari breytingum.

Þetta mál kom seint inn í þingið frá ríkisstj. eins og fleiri mál og hefur ekki gefist mikill tími til að ræða það. Þess vegna er full þörf á, þar sem hér er stórmál á ferðinni, að því verði betri gaumur gefinn en þegar hefur gefist kostur á í umr. Þetta mál hefur þá sérstöðu meðal mála að þm. stjórnar og stjórnarandstöðu hafa sameinast um að flýta málinu, þó að það kæmi seint hér inn, í trausti þess að ríkisstj. tryggði fjármuni til þessa málaflokks á árinu 1985.

Þetta mál var t.d. til umr. við 2. umr. fjárlaga og þá sagði hæstv. fjmrh. orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég tel sjálfsagt að athuga þá liði betur sem hv. 3. þm. Reykv. gat um. Málefni aldraðra eiga eftir að skýrast betur og við skulum sjá hvernig niðurstaðan verður þegar kemur að 3. umr.

Þessi ummæli hæstv. fjmrh. var ekki hægt að skilja á annan veg en þann að það væri ætlun ríkisstj. að taka á þessu máli með jákvæðum hætti við 3. umr. fjárlaga. Þeir sem þá voru í þingsalnum gerðu sér því vonir um að það yrði um að ræða hækkun á framlagi ríkissjóðs til hjúkrunarheimila aldraðra við 3. umr. fjárlaga. Núna liggja fyrir brtt. fjvn. vegna fjárlaga fyrir árið 1985 til 3. umr. og þar hefur ekki átt sér stað nein hækkun á þessum lið, framlögum til hjúkrunarheimila aldraðra. Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur bent á að sjaldan sé liðum sem er skipt í tillögum fjvn. breytt við 3. umr., en þess eru að sjálfsögðu mörg dæmi og auðvitað er mögulegt fyrir Alþingi að breyta ef það vill. Fjárveitingavaldið er í höndum Alþingis. Afgreiðslu fjárlaga er ekki lokið þannig að það á að vera hægt að taka þetta mál fyrir og afgreiða núna við 3. umr. fjárlaga og þess vegna kostur á að koma til móts við þau sjónarmið sem hv. 10. landsk. þm. gerði grein fyrir áðan.

Þetta mál kom til 2. umr. í Ed. 10. des. s.l. Frsm. heilbr.- og trn. var hv. þm. Helgi Seljan, 2. þm. Austurl. Hann sagði í framsöguræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta, m.a.:

„Nefndin mælir með samþykkt frv. í trausti þess að heildarframlög til þessara mála verði ekki lægri að raungildi á næsta ári en fjárlög 1984 mæla fyrir um.“

Og til að hnykkja enn frekar á sagði hv. þm. Helgi Seljan enn fremur:

„Hins vegar leggur nefndin höfuðáherslu á að við afgreiðslu fjárlaga verði tryggt að jafnhá eða eigi lægri upphæð að raungildi renni til viðbótar sjóðstekjunum beint af fjárlögum til hjúkrunardeilda, þ.e. eigi lægri raungildisupphæð en er á fjárlögunum. Í frv. til fjárlaga er engin slík upphæð samsvarandi þessu, en þyrfti að nema minnst 30 millj. kr. ef sambærilegt ætti að vera til þessara verkefna miðað við síðasta ár skv. upplýsingum ráðuneytisstjóra heilbr.- og trmrn. Var upplýst í umr. í máli hæstv. ráðh. að á þetta skorti. Nefndin er öll sammála um að þetta verði að tryggja“ — öll nefndin, þ.e. þm. stjórnar og stjórnarandstöðu- „og stuðningur við frv. um breytingar frá núgildandi lagaákvæðum er bundinn því að við þetta verði staðið.“

Í lok ræðu sinnar sagði hv. 2. þm. Austurl. enn fremur:

„Ég endurtek það meginsjónarmið nefndarinnar að fjárveitingavaldið standi við sinn hlut ekki síður en áður. Nefndin telur frv. að öðru leyti til bóta og mælir með samþykkt þess. Ég vildi aðeins til frekari tryggingar óska eftir að hæstv. heilbr.- og trmrh., úr því að hæstv. fjmrh. er hér ekki, en það hefði verið æskilegra, gæfi um það ótvíræða yfirlýsingu að við þetta yrði staðið. Að hann beiti sér fyrir því við fjvn. að við þessa upphæð, sem þarf að vera að lágmarki 30 millj. til þessarar starfsemi, yrði staðið.“

Sem sagt, Ed.-nefndin féllst á frv. í trausti þess að raungildi fjárveitinga úr Framkvæmdasjóði aldraðra þyrfti ekki á árinu 1985 að verða minna en á árinu 1984. Og hæstv. heilbr.- og trmrh. steig í stólinn í hv. Ed. og hann svaraði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég lagði áherslu á,“ sagði hæstv. ráðh., „að þeirra tillaga (sjóðstjórnarinnar) yrði um 30 millj.“ Og enn fremur sagði hæstv. ráðh. í lok ræðu sinnar í Ed. þann 10. des. s.l.:

„Ég vil til viðbótar þessu segja frá því að þessi ákvæði komu inn í lögin um málefni aldraðra og voru þar með felld úr lögum um heilbrigðisþjónustu, þá hefur ekki verið staðið við þessi ákvæði frá hendi ríkisins.“

Hæstv. heilbrmrh. virðist vera þeirrar skoðunar að það hafi verið of skammt gengið í þessu efni á undanförnum árum og þess vegna nauðsynlegt að bæta um betur. Og hann sagði:

„Ég legg áherslu á að það verði gert. Hér er aðallega um að ræða Borgarspítalann í Reykjavík og fjórar aðrar stofnanir á Austfjörðum, Suðurlandi og Norðurlandi. Meira get ég ekki sagt um þetta. Ég hef ekki nema eitt atkv. á Alþingi, en ég hef lagt áherslu á þetta við formann fjvn.

M.ö.o., hæstv. heilbr.- og trmrh. lýsti því yfir í Ed. Alþingis að hann mundi beita sér fyrir að ríkisframlagið yrði 30 millj. kr, og Ed. samþykkti frv. samhljóða vegna þess að Ed. treysti yfirlýsingu hæstv. heilbr.- og trmrh. Þegar málið kom til meðferðar í hv. Nd. var í rauninni það sama uppi á teningnum við 1. og 2. umr. Hæstv. ráðh. sagði að vísu: „Ég hef ekki nema eitt atkv. á Alþingi.“ Það er hins vegar svo með ráðh. að þeir hafa oft og styðjast við ákveðinn þingstyrk, a.m.k. sinna flokka. (Gripið fram í: Stundum.) Stundum er það. Og jafnvel líka samstarfsflokksins þegar um er að ræða einn samstarfsflokk eins og nú er. En í þessu tilviki virðist sem þessi stuðningur, í fyrsta lagi Sjálfstfl. og í öðru lagi Framsfl., hafi brugðist hæstv. ráðh. og ber að harma að hann skuli hafa orðið að láta í minni pokann fyrir þessum aðilum við afgreiðslu fjárlaganna. Hins vegar er rétt að benda á að með flutningi þeirrar till. sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir mælti fyrir áðan er hæstv. ráðh. gefinn kostur á að greiða atkv. eins og hann vill og lýsti yfir í hv. Ed. að hann teldi eðlilegast. Ég skora á hæstv. ráðh. að beita atkv. sínu í samræmi við þær yfirlýsingar sem hann gaf og Ed. byggði afstöðu sína á.

Þegar þessi mál komu til umr. í hv. Nd. þann 12. des. voru þau einnig til rækilegrar umr. M.a. spurði ég hæstv. ráðh. út í þessi mál og B-álmu Borgarspítalans alveg sérstaklega. Hæstv. heilbr.- og trmrh. svaraði og sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta, hér í Nd.:

„Varðandi það að stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra gerir ákveðnar tillögur nú fyrir 3. umr. fjárlaga um hve mikið af væntanlegri heimild sem þetta frv. felur í sér fari til einnar ákveðinnar byggingar, þá hvorki get ég eða vil óska eftir því við stjórnina að hún marki afstöðu til þess eins máls fyrr. Það er auglýst eftir umsóknum um fjárframlög í allar greinar og ég held að stjórnin, sem samanstendur af fulltrúa frá rn. ásamt fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og fulltrúa frá Öldrunarfélagi Íslands, vilji gjarnan og skilyrðislaust láta allar þessar umsóknir liggja fyrir og síðan verður að marka afstöðu til þess máls.“

Þá segir ráðh.:

„Hinu neita ég ekki að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá till. meiri hl. fjvn. um 14 millj. kr. til hjúkrunarheimila aldraðra. Ég óskaði eftir því við formann stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra að hann kynnti fjvn. tillögur sínar eða hvað hann teldi að væri nauðsynlegt að færi til hjúkrunarheimila á þessu ári og óskaði eftir því við hann að hann hefði samráð, þó ekki væri nema í síma, við sína starfsmenn og skv. mínum hugmyndum taldi ég að hér,“ — þ.e. í fjárlögunum „þyrfti að vera um að ræða 30 millj. kr. og þar af 2/3 til B-álmu Borgarspítalans.“

Þetta er alveg ótvíræð yfirlýsing. Þetta er afstaða hæstv. heilbr.- og trmrh. Og þegar þessi yfirlýsing lá fyrir í hv. Nd. við 1. umr. málsins, þá kvaddi ég mér hljóðs og sagði m.a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég skil ráðh. svo að hann muni beita sér fyrir breytingum á þeim tölum sem fram koma í áliti meiri hl. fjvn. varðandi hjúkrunarheimili fyrir aldraða.“

Ég hygg að það hafi verið fleiri þm. í salnum en ég sem skildu hæstv. ráðh. á þá leið að hann ætlaði að beita sér fyrir breytingum á þessum tölum þannig að framlögin í Framkvæmdasjóð aldraðra eða til hjúkrunarheimila aldraðra yrðu hækkuð verulega frá þeim tillögum sem lágu þar fyrir.

Þegar umr. hélt áfram í hv. Nd. óskaði ég eftir því við hæstv. forseta deildarinnar að hann kallaði hæstv. fjmrh. á fund Nd. til að hægt væri að ræða við hann um þessi málefni aldraðra. Því miður tókst ekki að ná í hæstv. fjmrh., en auðvitað hlaut ég sem stjórnarandstæðingur að draga þá ályktun að heilbrmrh. talaði fyrir munn ríkisstj. allrar í þessu máli. Auðvitað hlaut ég að draga þá ályktun. En þar sem hæstv. fjmrh. hefur ekki verið við umr. um þetta mál, hvorki í Ed. eða í Nd. til þessa, þá óska ég eftir því við hæstv. forseta Nd. að hann sjái til þess að hæstv. fjmrh. verði kallaður hingað á fund. (Forseti: Það verður orðið við þessari beiðni, ef hv. ræðumaður getur haldið áfram ræðu sinni á meðan.) Já, ég held það sé nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. svari fyrir það hvort þessi till. heilbr.- og trmrh. strandaði á fjmrh. Var það hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson sem stöðvaði það að hinn sterki vilji heilbr.- og trmrh. næði fram að ganga í þessu máli? Það er óhjákvæmilegt að þetta komi fram við þessa umr. áður en henni lýkur og að hæstv. fjmrh. skýri af hverju hann beitti sér fyrir því að koma í veg fyrir að hæstv. heilbr.- og trmrh. næði fram sjónarmiðum sínum í þessu máli.

Það er svo að í tíð núv. ríkisstj. hefur verið gerð margs konar atlaga að hinni félagslegu þjónustu í landinu. Á það ekki einungis við þá atlögu sem núna stendur fyrir dyrum að Framkvæmdasjóði aldraðra, heldur á það einnig við um ýmsa aðra þætti í þjónustu við aldraða í þessu landi. Þar á ég sérstaklega við svokallaðan sjúklingaskatt sem bitnar sérstaklega á öldruðum. Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur nýlega (Forseti: Ég vil grípa inn í ræðu hv. þm. Hæstv. fjmrh. mun vera í ræðustóli í Ed. Líklega er þá nauðsyn að við frestum þessu máli um sinn.) Ég fellst á það, hæstv. forseti.