19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2223 í B-deild Alþingistíðinda. (1739)

205. mál, eftirlaun til aldraðra

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. heilbr.- og trn. um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 97/1979, um eftirlaun til aldraðra. Nál. er á þskj. 375. Eins og fram kemur í nál. mæla nm. einróma með samþykkt frv., en það hefur þegar hlotið samþykki í hv. Ed.

Lögin um eftirlaun til aldraðra nr. 97/1979, sem hér er gerð till. um að breyta, leystu af hólmi lög um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum nr. 63/1971, en upphafleg lög um þetta efni nr. 18/1970 voru sett í framhaldi af kjarasamningum 1969 og stofnun hinna almennu lífeyrissjóða verkalýðsfélaga í ársbyrjun 1970.

Tilgangurinn með lögunum var að veita eldri félögum verkalýðsfélaganna réttindi umfram það sem iðgjaldagreiðslutími gaf tilefni til, þar sem lítið var eftir af starfsævi þeirra eða henni jafnvel lokið. Skv. fyrirheiti ríkisstj. við samningana 1979 skyldu útgjöld vegna þessara viðbótarréttinda næstu 15 árin borin af Atvinnuleysistryggingasjóði að 3/4 og ríkissjóði að 1/4 en síðan tæki hlutaðeigandi lífeyrissjóður við, enda yrði þá farið að draga verulega úr útgjöldum vegna þessara ráðstafana. Höfuðástæðan fyrir því að sett voru lög um þetta efni í stað bráðabirgðaákvæða í reglugerðum lífeyrissjóðanna var fjárhagsgrundvöllurinn og því var gert ráð fyrir að lögin féllu úr gildi í árslok 1984.

Ljóst er að eftirlaunagreiðslur þessar geta ekki fallið niður nema ráðstafanir séu gerðar af hálfu stjórnvalda. Því var það að heilbr.- og trmrh. Matthías Bjarnason fól þeim Guðjóni Hansen tryggingafræðingi, formanni umsjónarnefndar eftirlauna og Hallgrími Snorrasyni hagfræðingi, formanni átta manna lífeyrisnefndar Alþýðusambandsins, Farmanna- og fiskimannasambandsins, Vinnuveitendasambandsins og Verkamannasambandsins að kanna og gera tillögur um fyrirkomulag þessara mála þegar lög þessi eiga að falla úr gildi. Þeir hafa samið þetta frv. og haft um það samráð við átta manna lífeyrisnefndina og hún er samþykk þeim tillögum sem gerðar eru með þessu frv.

Helstu breytingar á lögunum, ef þetta frv. verður samþykkt, eru þessar:

Í fyrsta lagi verður gildistími laganna framlengdur um fimm ár eða til ársloka 1989.

Í öðru lagi lækkar framlag lífeyrissjóða til greiðslu uppbóta á lífeyri úr 5% í 4% árið 1985 og í 3% fyrir árin 1986–1989.

Í þriðja lagi miðast lífeyrisréttur við grundvallarlaun eins og þau eru skv. kauptaxta í byrjun hvers mánaðar, en skv. gildandi lögum geta lífeyrisgreiðslur aðeins breyst fjórum sinnum á ári, þ.e. þá daga sem verðbótahækkun launa tók áður til.

Í fjórða lagi skal nú miða við önnur grundvallarlaun en áður tíðkaðist til grundvallar stigaútreikningi. Nýgerðir kjarasamningar Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins valda því að óheppilegt þykir nú að miða grundvallarlaun áfram við næstlægsta taxta Dagsbrúnar.

Frá og með 1. jan. 1985 skulu grundvallarlaun nema 14 100 kr. á mánuði. Umsjónarnefnd eftirlauna mun síðan ákveða, að fenginni umsögn Kjararannsóknarnefndar, breytingar á grundvallarlaununum í samræmi við breytingar á launum verkamanna skv. kjarasamningum. Hafa verður í huga að grundvallarlaunin skv. lögunum ráða ekki aðeins lífeyrisgreiðslum umsjónarnefndar eftirlauna, heldur tengjast beinlínis ákvæðum í reglugerðum nær allra sjóða innan Sambands almennra lífeyrissjóða og fjölmargra annarra lífeyrissjóða. Þessi breyting, ef hún nær fram að ganga, er gerð með fullu samþykki umsjónarnefndar eftirlauna, stjórnar Sambands almennra lífeyrissjóða og átta manna lífeyrisnefndarinnar sem áður var nefnd.

Um 4000 einstaklingar njóta nú ellilífeyris skv. l. kafla laganna um eftirlaun til aldraðra. Auk þess munu um 1100 njóta makalífeyris skv. lögunum. Þá munu um 1200 einstaklingar njóta lífeyris skv. II. kafla laganna. Þar að auki munu um 1500 manns njóta lífeyris skv. II. kafla laga um Lífeyrissjóð bænda. Að meðtöldum mökum má því ætla að um 10 þús. manns njóti með beinum eða óbeinum hætti þess lífeyris sem hér um ræðir. Áætluð útgjöld skv. lögunum fyrir árið 1984 munu nema um 241 millj. kr. Þar af munu lífeyrissjóðir greiða 125 millj. kr.

Herra forseti. Ég hef ekki öllu fleiri orð um þetta mál. Í aths. með frv. er gerð allítarleg grein fyrir því hvaða afleiðingar það kann að hafa ef lögin falla úr gildi, eins og gert er ráð fyrir, í árslok 1984 og ekkert annað kemur í staðinn. Ég rek ekki þann kafla en vísa til aths. með frv.

Ég ítreka svo það, sem ég sagði í upphafi, að heilbr.og trn. mælir einróma með því að frv. verði samþykkt.