19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2224 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

205. mál, eftirlaun til aldraðra

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Af einhverjum ástæðum hefur þeim sem hér stendur ekki verið kleift að taka þátt í afgreiðslu þessa máls í nefnd, sem hann á þó sæti í, og getur hins vegar ekki látið það fram hjá sér fara athugasemdalaust.

Ég vil byrja á því að vekja athygli þm. á fréttatilkynningu frá Landssambandi lífeyrissjóða sem snertir kjarna þessa máls og birt var í fjölmiðlum strax þann 2. okt. 1984. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Landssambands lífeyrissjóða bendir á að lögin um eftirlaun til aldraðra renna út um næstu áramót. Telur sambandið að sá 15 ára umþóttunartími sem ákveðinn var 1969 sé orðinn fullnægjandi og að hver lífeyrissjóður eigi að sinna félagslegri skyldu sinni við aldraða félagsmenn viðkomandi stéttarfélags og hefja greiðslur til þeirra frá næstu áramótum. Jafnframt telur fundurinn að stjórnvöld eigi að taka á sig fjármögnun lífeyris til þeirra lífeyrisþega sem ekki hafa átt aðild að stéttarfélagi og taka lífeyri frá umsjónarnefnd eftirlauna.

Landssamband lífeyrissjóða skorar á stjórnvöld að fella niður þá skattlagningu á lífeyrisgreiðslur sem felst í því að lífeyrisgreiðslur sjóðanna skerða tekjutryggingu almannatrygginga.“

Um þetta má nefna einfalt dæmi. 100 kr. hærri lífeyrir frá lífeyrissjóði getur valdið 45 kr. lækkun á tekjutryggingu viðkomandi lífeyrisþega.

Þá er ástæða til þess, herra forseti, að kynna fyrir þingheimi erindi sem borist hefur frá Landssambandi lífeyrissjóða vegna afgreiðslu þessa máls og var sent formanni heilbr.- og trn. Ed., Davíð Aðalsteinssyni. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Landssamband lífeyrissjóða hefur fengið í hendur frv. til l. um framlengingu á starfsemi umsjónarnefndar eftirlauna um fimm ár. Frv. sömdu Hallgrímur Snorrason og Guðjón Hansen. Ekki var haft samband við landssambandið við gerð frv. Leyfir það sér að koma fram með eftirfarandi umsögn um frv. þetta:

Landssambandið ítrekar ályktun, sem aðalfundur þess samþykkti 2. okt. s.l., um að lögin verði ekki framlengd nema að því er varðar II. kafla.“ Sú ályktun var send fjölmiðlum í byrjun nóv. og hef ég þegar kynnt hana fyrir þingheimi.

Síðan segir: „Framlag til uppbótar á lífeyri skv. frv. skal vera 4% af öllum iðgjöldum lífeyrissjóða á árinu 1985 og 3% næstu fjögur ár. Þetta framlag var tekið upp í frjálsum samningum 1976 og skyldi það gilda í tvö ár á meðan unnið yrði að heildarendurskoðun lífeyriskerfisins. Það var síðan framlengt í kjarasamningum 1977 um tvö ár. Árið 1979 er það sett í lög og hækkað í 5% og skyldi gilda í tvö ár, var síðan framlengt í þrjú ár. Framlagið hefur þannig gilt í níu ár og þykir mönnum bráðabirgðasamningurinn hafa staðið ærið lengi þótt ekki verði hann framlengdur í fimm ár til viðbótar.

Einnig er á það að benda að vegna lækkandi verðbólgu mun uppbótin á lífeyri frá umsjónarnefnd lækka hlutfallslega og mun því 4% framlag nægja til greiðslu hærri hluta uppbótarinnar á árinu 1985 en 5% dugðu 1983. Sjái hið háa Alþingi ástæðu til að framlengja lögin vill Landssamband lífeyrissjóða leyfa sér að leggja til að þetta framlag verði 3% fyrir árið 1985, 2% fyrir 1986, 1% fyrir árið 1987 og falli niður frá og með árinu 1988.

Á það má benda að frá árinu 1976 hafa tvær nefndir starfað að undirbúningi nýs heilsteypts lífeyriskerfis fyrir alla landsmenn og hafa tillögur í því efni enn ekki litið dagsins ljós. Þetta frv. er eins og fyrri frumvörp einungis frestun á þeim vanda sem lífeyrismál þjóðarinnar standa frammi fyrir. Verði frv. þetta samþykkt má ætla að lausn á lífeyrismálum frestist um jafnlangan tíma og frv. gildir, þar sem það leysir bráðasta vanda lífeyrisþega þó á óréttlátan og flókinn hátt sé. Því leyfir landssambandið sér að stinga upp á því að gildistími frv. verði styttur í tvö ár.“

Herra forseti. Þessar tilvitnanir nægja til þess að skýra í hnotskurn þá hörmungarsögu sem lífeyrismál þjóðarinnar eru orðin. Þetta er orðið eins og stagbætt flík, vandanum er sífellt slegið á frest og menn kinoka sér við að taka nokkurn tíma á kjarna vandans. Ég sé alveg sérstaka ástæðu til þess að óska eftir nánari upplýsingum frá hæstv. heilbr.- og trmrh. um þetta mál af þessu tilefni og langar til að beina til hans nokkrum spurningum sem sumar hverjar kalla á svolítinn formála.

1. Ég rifja upp að umsjónarnefnd eftirlauna var sett á laggirnar upp úr samningum 1969. Skyldi hún veita því fólki í verkalýðsfélögum lífeyrisrétt sem ekki kom til með að öðlast fullan rétt hjá almennum lífeyrissjóðum, en þeir voru þá nýstofnaðir. Sjóðirnir áttu að taka við þessum skuldbindingum eftir 15 ár eða núna um áramótin, hinir almennu lífeyrissjóðir. Þá er spurning: Hvað hefur breyst í forsendum þannig að sjóðirnir geti ekki tekið á sig þær byrðar vegna sinna félaga núna sem var talið mögulegt árið 1970?

2. Hver verður staða þess fólks, sem kallað er II. kafla fólk, og þá er verið að vísa í lögin, þegar þessi framlenging rennur út árið 1990? Hver borgar þá þau þrjú aukastig sem eftir verða það ár? Hefur eitthvað verið hugsað fram í tímann um þetta?

3. Lífeyrissjóðirnir geta illa veitt sínum sjóðfélögum sem eru fæddir eftir1914 lakari rétt en talað er um í þessu frv. Spurning: Felst ekki mjög mikil skuldbinding fyrir sjóðina í framlengingu þessara réttinda auk framlags til uppbótarinnar allt til ársins 1990? Og kannske öllu þýðingarmeiri spurning: Geta sjóðirnir mætt þessum skuldbindingum? Og hver er ábyrgð löggjafans ef svo er ekki? Það er nefnilega ástæða til þess að ætla að þeir geti það ekki.

4. Hversu áreiðanlegar eru upplýsingar um aðild að stéttarfélögum allt frá árinu 1955, en á þeim upplýsingum byggja öll réttindi skv. I. kafla laganna?

5. Fólk sem greitt hefur til hinna eldri lífeyrissjóða, stundum í áratugi fyrir 1970, getur lent í því að fá nánast sama lífeyri og aðrir sem hófu greiðslur eftir 1970. Þá er spurning: Hvað fær þetta fólk fyrir sitt iðgjald og reyndar atvinnurekenda líka til lífeyrissjóða, en iðgjaldagreiðslur hafa kannske staðið yfir í áratugi?

6. Framlag lífeyrissjóða til greiðsluuppbótar, sem tekin var upp 1976 til tveggja ára í samningum og framlengd hefur verið þrisvar síðan, í alls sjö ár, hefur alla tíð verið mjög umdeilt og jafnvel farið fyrir dómstóla. Þá er spurning: Er réttlætanlegt að skerða t.d. lífeyri manna, sem greitt hafa í áraraðir í óverðtryggðan séreignarsjóð, til þess að greiða verðbætur á lífeyri fólks sem ekki hefur greitt iðgjald til lífeyrissjóða fyrir 1970? Er réttlætanlegt að framlengja samkomulag, sem gert er til tveggja ára, í 14 ár? Er það nú ekki viðurkenning á því hversu illa hafi verið á málum haldið, félagi, formaður Dagsbrúnar? (GJG: Nei.) Jú.

7. Þeim lífeyrissjóðum, sem standa utan samkomulagsins frá 1977, er gert að greiða framlag til greiðslu uppbótar til fólks utan lífeyrissjóða án þess að fá það á nokkurn máta bætt. spurning er hvort það sé vilji Alþingis í þessu kerfi að sú mismunun haldi áfram.

8. Hefur verið kannað hversu langt 4% framlag lífeyrissjóðanna nægir til greiðslu uppbótarinnar 1985? Getur verið að það dugi til greiðslu hærra hlutfalls af uppbótinni en 5% framlagið dugði árið 1983, þannig að samkomulagið hafi í raun verið útvíkkað?

9. Er nauðsynlegt að framlengja lögin um eftirlaun til aldraðra og uppbótina á þau eftirlaun um heil fimm ár, en það er lengsta framlenging til þessa á uppbótarframlaginu? Mundu ekki tvö ár nægja? Og væri ekki skynsamlegra að setja sér það mark að þetta gersamlega óhæfa og botnlausa og stagbætta kerfi verði tekið til heildarendurskoðunar í alvöru innan þessara tveggja ára?

Síðan kemur enn ein spurning: Fær sú aðferð svokallaðra SAL-sjóða og fleiri sjóða staðist að verðtryggja ekki lífeyri til þeirra sjóðfélaga sem taka lífeyri frá umsjónarnefnd eftirlauna? Hvernig getur einn lífeyrissjóður greitt sínum sjóðfélögum mismunandi lífeyri án þess að vera deildaskiptur? Fær það staðist að greiða sumum óverðtryggðan lífeyri, öðrum ekki?

Og svo að lokum: Hvaða niðurstöðu hafa þær tvær nefndir, sem hafa starfað að endurskipulagningu og samræmingu lífeyriskerfisins s.l. níu ár, skilað? Er þess nokkurn tíma að vænta að þær ljúki störfum? Telur einhver þm. sig skilja lögin um eftirlaun til aldraðra til hlítar? Ég hef uppi ákveðnar efasemdir um það. Og það er mikið efamál hversu stór hluti þeirra, sem eiga að taka lífeyri frá umsjónarnefnd eftirlauna, skilur upp eða niður í útreikningi lífeyrisins.

Ég held að þessar spurningar nægi til að vekja athygli á því að við erum hér að fjalla um mál sem er orðið eitt af stærri hneykslismálum þjóðarinnar. Það er sífellt verið að grípa til einhverra bráðabirgðalausna, sífellt verið að fresta lausn vandamála, sífellt verið að aka þeim á undan sér, með hvers kyns hrossakaupum og bráðabirgðalausnum. Kerfið er orðið allt of flókið. Það er að verulegu leyti óréttlátt. Það er svo flókið að venjulegur þegn, sem á að vera njótandi þess, botnar yfirleitt ekki orðið upp eða niður í því hver eru hans réttindi. Það er kannske ekkert ofmælt að fullyrða að þetta er orðið eitt af eilífðarmálum og eitt af stærstu ranglætismálum í þessu þjóðfélagi. Það er kominn tími til fyrir alþm. að staldra við og láta sér ekki nægja að láta bera í sig einhverjar bráðabirgðalausnir tryggingafræðinga og annarra úr þessu kerfi í stað þess að koma sér að því verki að taka afstöðu til grundvallarspurninga. Er Alþingi Íslendinga reiðubúið til að taka á þessari löggjöf og kveða upp úr um það að vilji þess sé einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn? Þetta er auðvitað fyrst og fremst pólitísk spurning en ekki tæknileg. Það er hægt að gera málið svo flókið að það botni enginn þm. upp eða niður í því hvað hér fer fram, hvað þá heldur almenningur sem á að njóta kerfisins.

Skyndiafgreiðsla svona við jólaafgreiðslu á málum af þessu tagi er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Og umfjöllun í nefnd, sem er aðallega í því fólgin að taka við einhverjum pappírum frá sérfræðingum og leggja blessun sína yfir þá, nær ekki nokkurri átt.

Ég geri mér ekki vonir um að þessar ábendingar út af fyrir sig dugi til þess að menn staldri eitthvað við og vinni nein afrek í þessu máli á þessu tímaskeiði. En af því að ég af einhverjum ástæðum, sem mér er ókunnugt um, missti af umfjöllun í nefnd, sem ég hef ástæðu til að ætla að hafi verið harðsoðin og skammæ, (Gripið fram í: Var ekki þm. að vitna í störf nefndarinnar?) — þá er engu að síður, af því að þetta er svo mikilvægt mál, ástæða til að beina þessum spurningum til þm. og vekja athygli á málinu.