19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2234 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

205. mál, eftirlaun til aldraðra

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Nú kannast ég við minn formann eins og þar stendur. Hann hefur hresst í tali og ég fagna því. En að því er varðar hans áminningu til mín um að halda mínum efasemdum innan minna eigin dyra, þá vísast til hans fyrri ummæla og einnig minna um að hvað sem líður þessari ákvörðun og samþykkt Alþfl. held ég uppi þessum efasemdum hvar og hvenær sem ég tel þess þurfa. Ég tel að þær eigi fullan rétt á sér og tilheyri ekki síður jafnaðarstefnunni en sú formlega samþykkt sem gerð hefur verið í Alþfl., án þess að ég vilji á nokkurn hátt draga þar úr.

Ég sé ýmsa galla á þessu kerfi eins og það er boðað, a.m.k. þangað til ég sé útfærsluna. Orðin „einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn“ nægja mér ekki sé ekki skilgreint með hvaða hætti það á að gerast og hvernig það á að úttærast. Ég hef fyrirmyndina sem ég vil varast, sem er Atvinnuleysistryggingasjóðurinn, án þess að ég sé á nokkurn hátt að kasta rýrð á hann eða þá sem þar hafa starfað nema síður sé. Ég tel að skipulag eigi ekki að vera með þeim hætti.

Eitt til viðbótar. Ríkisstj. sem sitja á hverjum tíma hafa yfirleitt gengið langt í því að ásælast fjármuni sem safnast t.d. í Atvinnuleysistryggingasjóðinn, eða lífeyrissjóðina, þó að þeir séu í því formi sem nú er, hvað þá ef um yrði að ræða einn stóran sjóð sem menn réðu yfir hér í Reykjavík, miðstýrðu héðan. Þannig eru ýmis spurningarmerki í mínum huga þrátt fyrir mjög ágæta almenna stefnumörkun Alþfl. varðandi orðin „Lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn“.