19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2237 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

192. mál, málefni aldraðra

Svavar Gestsson (frh.):

Herra forseti. Þar sem hæstv. fjmrh. er nú kominn hér í sal Nd. ætla ég að endurtaka þær spurningar sem ég lagði hér fram áðan. Í máli mínu hafði það komið fram að heilbr.- og trn. Ed. mælti með samþykkt frv. um málefni aldraðra á þskj. 212 í trausti þess að heildarframlög til þessara mála verði ekki lægri að raungildi á næsta ári en fjárlög 1984 mæla fyrir um.

Hæstv. heilbr.- og trmrh. lýsti því yfir við umr. í Ed. að hann mundi beita sér fyrir því að bein framlög úr ríkissjóði til hjúkrunarheimila aldraðra yrðu í kringum 30 millj. kr. Á fundi í hv. Nd. lýsti hæstv. ráðh. því sama yfir og bætti við að hann teldi að 2/3 af þessu framlagi ættu að fara til B-álmu Borgarspítalans, þ.e. til að halda áfram framkvæmdum vegna aldraðra hér í Reykjavík sérstaklega. En það er ljóst að sú skerðing á framlagi í Framkvæmdasjóð aldraðra, sem ríkisstj. gerir nú ráð fyrir, bitnar einna harðast á B-álmu Borgarspítalans. Í framhaldi af þessu og því að það liggur fyrir vilji hæstv. heilbr.- og trmrh. sýnist mér á öllu að skv. þeim till., sem fjvn. hefur dreift hér til þm., sé ekki gert ráð fyrir neinni hækkun á þessum lið og hæstv. heilbrrh. hafi verið ofurliði borinn í þessu máli og ekki náð fram sínum vilja. Ég vildi spyrja hvort það vaki fyrir hæstv. fjmrh. að tryggja að framlag í Framkvæmdasjóð aldraðra á árinu 1985 yrði það sama að raungildi og á árinu 1984.

Eins og hér kom fram fyrr í dag höfum við Guðrún Helgadóttir flutt tvær till. í þessu efni. Aðaltillaga okkar er sú að framlagið úr ríkissjóði verði 30 millj. kr. í þetta verkefni og til vara flytjum við till. um að framlagið úr ríkissjóði verði svo mikið að framkvæmdagildi sjóðsins skerðist ekki. Ég minni á að hv. 6. þm. Reykv., Ellert B. Schram, hefur tekið undir síðarnefndu till. og mér finnst það í raun og veru mjög mikils virði. Ég vil sem sagt spyrja hæstv. fjmrh.: Vill hann beita sér fyrir því að þetta framlag í Framkvæmdasjóð aldraðra eða til hjúkrunarheimila verði hið sama að raungildi á árinu 1985 og árinu 1984? En það ber í raun og veru nokkuð á milli talna. Nú getur verið að ég kunni ekki alveg nákvæmlega réttar tölur í þessu efni varðandi framkvæmdagildið því það fer eftir því hvernig vísitölur eru reiknaðar þarna út. En mér sýndist að það, sem ber á milli þessara talna, annars vegar 30 millj. og hins vegar hugmyndanna um raungildi framkvæmdafjárins — og svo þess sem komið er inn í fjárlagafrv. sé einhvers staðar á bilinu 5 til 10 millj. kr. Ég teldi það verulegt spor í áttina ef fallist yrði á þá hugmynd sem felst í síðari brtt. okkar Guðrúnar Helgadóttur hv. þm. Og ef einhver yfirlýsing í þá veru kæmi fram frá hæstv. fjmrh., ef einhver yfirlýsing kæmi fram um slíkt frá hæstv. ríkisstj. þá teldi ég það fyrir mitt leyti mjög verulegan áfanga og mundi fagna slíku.

Till. var á þessa leið — af því að hæstv. fjmrh. er kominn hér í salinn: „Framlög úr ríkissjóði gangi til Framkvæmdasjóðs aldraðra þannig að heildarframkvæmdir sem sjóðurinn fjármagnar verði aldrei minni en á árinu 1984. Heimilt er að verja fjármunum skv. þessum tölul. til styrktar hjúkrunarrýmis aldraðra á vegum sveitarfélaga til viðbótar við framlag skv. síðasta málsl. 12. gr.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. fjmrh.: Er hann tilbúinn til að koma til móts við þessi sjónarmið, á þeim forsendum að þingið hefur í rauninni þegar afgreitt málefni aldraðra í trausti þess að framkvæmdagildi fjármagnsins minnkaði ekki. Ég teldi að við værum að bregðast því trausti með því að hækka þessa tölu ekki. Ég skora þess vegna á hæstv. fjmrh. að koma til móts við það sjónarmið sem fram kemur í varatill. á þskj. 382. Hér er um að ræða upphæð sem er á bilinu 5 til 10 millj. kr. Ég get ekki nefnt það nákvæmar á þessu stigi vegna þess að ég hef ekki farið nákvæmlega yfir það með tilliti til hugsanlegrar þróunar byggingarvísitölu á milli áranna 1984 og 1985. En mér sýnist að upphæðin sé á þessu bili, 5 til 10 millj. kr., og ég skora á hæstv. fjmrh. að koma til móts við þessi sjónarmið.