19.12.1984
Neðri deild: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2238 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

192. mál, málefni aldraðra

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika fyrst að fjmrh. hefur ekki komið í veg fyrir að raungildi framlaga til þessa verkefnis, málefna aldraðra, verður það sama 1985 og 1984.

Ég segi eins og hv. 3. þm. Reykv.: Ég hef ekki borið saman raungildi framlaga og hvort það er endilega sú tala sem er í till. þeirra virðulegu þm. Guðrúnar Helgadóttur og 3. þm. Reykv. En við höfum rætt þetta mál, bæði hv. flm. og eins hefur heilbrrh. rætt þetta sérstaklega við mig. Ég hef svarað hæstv. heilbrrh. á þá leið að ég sé reiðubúinn til þess þegar um hægist, hvernig sem afgreiðsla fjárlaga fer um þennan lið, að skoða hann betur og ef þörf gerist til þess að ná sómasamlegum árangri — skulum við segja til að lofa ekki of miklu — þá mun ég reiðubúinn til að huga að aukafjárveitingum í þennan framkvæmdalið öðrum fremur þó að ég sé í prinsipinu á móti aukafjárveitingum yfirleitt.