19.12.1984
Neðri deild: 34. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

178. mál, atvinnuréttindi vélfræðinga

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Vegna athugasemda hv. 5. þm. Vestf. vil ég taka fram atriði sem ég tel skipta máli í þessu sambandi. Það er gert ráð fyrir því að sú menntun vélstjórnarmanna, sem vísað er til í frv., verði í samræmi við frv. sem fyrir liggur í hv. Ed. Þannig er mál með vexti að þeir menn sem það frv. sömdu voru einnig höfundar atvinnuréttindafrv., en hv. menntmn. Ed. hefur ekki afgreitt þetta frv.

Ég tók það fram þegar ég mælti fyrir því máli að á það væri lögð áhersla af hálfu míns ráðuneytis að það gengi í gegn fyrir jól og væri samferða atvinnuréttindafrv. út úr þinginu. Vissulega kom þetta frv. fram allmiklu síðar, það var ekki tilbúið fyrr eða það kom ekki fyrr í mínar hendur. Ég hafði ekki orðið annars vör en menn væru á einu máli um þetta, þeir sem það höfðu athugað, en lögð var á það áhersla af hálfu höfunda þess frv. að sú menntun, sem skírskotað væri til í frv. sem hér er fjallað um, væri sú sem í þessu frv. væri.

Frá þessu vil ég skýra þar eð ég hef litla von um það að Alþingi afgreiði þetta mál líka og taki tillit til þessa atriðis sem vissulega er öryggisatriði. Í því frv. er gert ráð fyrir réttindanámskeiðum fyrir undanþágumenn og enn fremur að auka nám 4. stigs vélstjóra, gera örlítið minna nám þeirra sem eru með 1. stig. Þetta er allt nauðsynlegt að mati þeirra manna sem þarna teljast best til þekkja og að þá verði samhengi á milli þessara mála.

Ég vildi skýra frá þessu og þar eð ég býst varla við að hv. menntmn. Ed. muni afgreiða þetta mál, þ.e. frv. til l. um vélstjórnarnám, sem þar liggur, nú fyrir jól vil ég taka það fram að ég greiði atkv. með þessu máli vissulega í trausti þess að hv. Alþingi sjái sér fært að afgreiða frv. um vélstjórnarnám og gera það að lögum alveg á fyrstu dögum eftir að þing kemur saman að nýju. Önnur ástæðan fyrir því að því máli þarf að hraða er sú að það þarf tíma til að undirbúa námskeiðin sem halda þarf.