19.12.1984
Neðri deild: 34. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2255 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

178. mál, atvinnuréttindi vélfræðinga

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég misskildi ekki orð hv. 5. þm. Vestf. Hann talaði bæði um vélstjórnarmenn og stýrimenn. En út af ábendingu hv. 12. þm. Reykv., sem var vissulega tímabær, vil ég taka fram að frv. um menntun skipstjórnarmanna og stýrimanna verður lagt fram. Það er í vinnslu í menntmrn. Það var því miður ekki tilbúið um leið og vélstjórnarnámsfrv. Ég gekk einmitt eftir því, en mér var tjáð að það gæti því miður ekki orðið tilbúið nú í desember vegna anna höfunda þess. En mér var lofað því strax mjög snemma á árinu þannig að það verður örugglega lagt fram strax þegar þing kemur saman að nýju.

Ég er fyllilega sammála hv. 12. þm. Reykv. um þær ábendingar sem fram komu í hans máli. Og mér þótti vænt um að fá tækifæri til þess að skýra frá því að frv. um þetta efni væri í smíðum og á lokastigi og verður lagt fram mjög fljótlega eftir að þing kemur saman á ný.