19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2256 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir nál. meiri hl. sjútvn. um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 81 31. maí 1976 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. lög nr. 38 28. maí 1981. Nál. er þannig:

„Nefndin hefur fjallað um frv. á fundum sínum og átt sameiginlega fundi með sjútvn. Ed. Forsendur þess að þetta frv. er flutt eru fyrst og fremst spár fiskifræðinga um ástand helstu nytjafiska hér við land. Þau aflamörk, sem sett eru, leiða óhjákvæmilega til stjórnar á veiðum á árinu 1985. Við umfjöllun sjútvn. varð ekki ágreiningur milli nm. um nauðsyn stjórnar á veiðum, frekar um leiðir að því marki sem sett er um hámarksafla 1983.

Á vegum sjútvrn. var gerð könnun á viðhorfum útgerðar- og skipstjórnarmanna á kvótakerfinu 1984. Alls voru útgerðum 660 skipa sendir spurningalistar. Svör bárust frá útgerðum 299 skipa og 269 skipstjórnarmönnum. Í 111 tilvikum, sem er um 20%, var svarandi bæði útgerðarmaður og skipstjóri. Sé reiknað með að sama hlutfall gildi fyrir allt úrtakið eru um 1000 aðilar í því. Svör bárust frá 457 einstaklingum sem í sumum tilvikum svöruðu fyrir fleiri en eitt skip. Hlutfall svara úr könnuninni er því rétt um 50%.

Þó að hlutfallið sé ekki hærra gefur könnunin mjög góða vísbendingu um skoðanir útgerðar- og skipstjórnarmanna á kvótakerfinu. 88.7% svaraði því játandi að þörf sé á heildarstjórn fiskveiða við Ísland. 46.3% svaraði því játandi að stjórna eigi fiskveiðum með aflakvóta á fiskiskip.

Ekki fer það milli mála að með þeirri stjórn, sem upp er tekin, hefur tekist að auka gæði hráefnisins og spara í rekstri. Það er þó ljóst að enn má þar betur gera.

Sjútvn. gerir sér grein fyrir því að fiskikvótar hafa ýmsa ókosti í för með sér sem aðferð til að stjórna fiskveiðum, en aðrar betri leiðir eru þó ekki í sjónmáli. Það er vandasöm og kröpp sigling að ná því marki að fá sem mest verðmæti fyrir það sjávarfang, sem úr hafinu er dregið, með sem minnstum tilkostnaði. Með þessu frv. er reynt að komast sem næst því að njóta þeirra ávaxta sem hafið gefur án þess að ganga um of á þann stofn er þar vex.

Með vísan til þess sem að framan greinir leggur meiri hl. n. til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj. 302.“

Þær breytingar, sem gerðar voru á frv. í meðferð Ed., eru þær að í 1. gr. frv. fellur út þar sem segir: „Ráðherra er heimilt að úthluta aflamarki skips, sem hverfur úr rekstri af hagkvæmnisástæðum eða vegna sjóskaða, til útgerðarfyrirtækis skips eða fiskvinnslufyrirtækis þess sem skipið hefur einkum lagt upp afla hjá.“ Þetta fellur út úr frv.

Einnig fellur út úr frv. í 6. gr. sem er um gildistíma. Þar stóð: „Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1985 og gilda til ársloka 1987.“ Sú breyting, sem þarna var gerð á, er að gildistími frv. er aðeins eitt ár og verður því þannig: „Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1985 og gilda til ársloka 1985.“

Undir þetta meirihlutaálit nefndarinnar skrifa Stefán Guðmundsson, Halldór Blöndal, Ingvar Gíslason, Gunnar G. Schram og Friðrik Sophusson.