19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. minni hl. (Margrét Frímannsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. sjútvn. á þskj. 387 og brtt. á þskj. 383. Í minnihlutaáliti okkar segir svo:

„Nefndin hefur fjallað um frv. og fengið fulltrúa ýmissa hagsmunasamtaka og ráðuneytis til viðræðu um efni þess. Frv. er með þeim breytingum sem samþykktar voru í Ed. Alþingis og að flestu leyti shlj. því frv. sem samþykkt var á síðasta þingi.

Það sjónarmið kom fram við umfjöllun nefndarinnar að ástæðulaust væri að hafa allar þær fisktegundir háðar aflamarki sem frv. gerir ráð fyrir. Þessu eru undirritaðir nm. sammála og telja einnig að gefa eigi allar veiðar á handfæri og línu frjálsar utan kvóta. Það er einnig skoðun minni hl. n. að humarveiðar skuli takmarkast af heildarkvóta en ekki kvóta á hvern bát. Minni hl. n. telur að ekkert hafi komið fram í máli viðmælenda nefndarinnar sem mæli á móti því að þessar breytingar verði gerðar.

Undirritaðir nm. eru sammála um það að ákveðin stjórnun fiskveiða hér við land sé nauðsynleg. Þrátt fyrir það eru undirritaðir andvígir frv. sem hér er til afgreiðslu. Sú afstaða er m.a. vegna þeirrar miðstýringar sem frv. felur í sér. Við teljum rangt að fela ráðh. einum að marka fiskveiðistefnu. Sú stefnumörkun á að vera Alþingis. Það vakti athygli okkar hve fulltrúar stjórnarflokkanna voru ákveðnir í að viðhalda þeirri miðstýringu sem frv. gerir ráð fyrir.

Hér eru stigin fyrstu sporin í fiskveiðistjórn sem vafalítið mun standa í meginatriðum í fjölda ára, líklega um ófyrirsjáanlega framtíð. Í ljósi þess er áhersla á hlutdeild Alþingis enn þá mikilvægari.

Síðast en ekki síst áteljum við harðlega að deildinni sé ekki ætlaður lengri tími til umfjöllunar um þetta þýðingarmikla málefni undirstöðuatvinnuvegs þjóðarinnar.“

Undir þetta rita Margrét Frímannsdóttir og Guðmundur Einarsson.

Í samræmi við það álit, sem hér hefur verið lesið, hef ég ásamt hv. þm. Guðmundi Einarssyni, Kristínu Halldórsdóttur og Kjartani Jóhannssyni lagt til að gerðar verði á frv. ríkisstj. um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands eftirfarandi breytingar:

Í fyrsta lagi komi inn ný gr. þar sem segir að fiskveiðilandhelgi Íslands og auðlindir innan hennar séu þjóðareign, sameign allra Íslendinga. Þessi till. er hv. þm. Nd. vel kunn. Hún var flutt hér fyrir réttu ári síðan þegar fjallað var um sams konar frv. og nú er á ferðinni og einnig fyrir örfáum dögum í hv. Ed. Það hefur verið okkur flm. till. ráðgáta hvers vegna hv. alþm. hafa ekki getað samþykkt það að grein sem þessi yrði sett inn í frv. þar sem greinin sem hér er til umr. felur ekki í sér neinar breytingar á efnisatriðum frv. Hér er aðeins verið að setja í lög sannleika sem við höfum fram á þennan dag viðurkennt og breytir ekki að neinu þeim ákvæðum sem í frv. eru. Nema það sé meining manna að með valdi því sem frv. leggur til að fært sé hæstv. sjútvrh. séum við í raun líka að afsala okkur þessari þjóðareign til hans. Þessu viljum við ekki trúa og endurflytjum því þessa till.

Í öðru lagi leggjum við til að breyting verði gerð á 10. gr. laganna. Þessi brtt. er heldur ekki ókunnug hv. þm. Hún hefur verið flutt hér áður og af þeim sem ekki hafa sætt sig við að stefna okkar í fiskveiðum sé mörkuð úti í bæ af einum manni og nokkrum ráðgjöfum hans án þess að Alþingi komi þar nærri. Við teljum að það hver fiskveiðistefna okkar skuli vera sé ein veigamesta ákvörðun sem tekin er, ákvörðun sem snertir lífsafkomu og örlög heilla byggðarlaga sem byggja allt sitt á sjávarútvegi, ákvörðun sem í raun varðar afkomu allrar þjóðarinnar. Telja hv. þm. að það samrýmist því lýðræði sem við viljum búa við að fela í raun einum manni að fara með slíkt ákvörðunarvald? Flm. þessarar brtt. segja: Nei.

Það er hættuleg braut sem farið var út á hér fyrir réttu ári, hættuleg því stjórnarfari sem við kjósum að búa við. En hv. alþm., enn er tími til að snúa við. Með samþykkt brtt., sem við höfum lagt hér fram, færumst við aftur í rétta átt.

Herra forseti. Í minnihlutaáliti sjútvn., sem ég las hér áðan, kemur fram að við teljum ákveðna stjórnun fiskveiða hér við land nauðsynlega. Slík stjórnun hefur í raun verið viðhöfð í nokkur ár. Fyrir ári var hins vegar tekið í notkun nýtt kerfi sem þá og nú er afar umdeilt. Í umr. hér á hv. Alþingi fyrir ári var það álit meiri hl. hv. þm. að þarna væri um tilraun að ræða sem vert væri að gefa tækifæri en skoða síðan í ljósi reynslunnar. Nú í haust kemur svo frv. frá hæstv. ríkisstj. þar sem farið er fram á framlengingu þess frv. sem samþykkt var 1983. Breytingar á frv. frá því í fyrra eru sáralitlar. Þær eru þó gerðar í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur. En nú þegar árið er að verða búið er ljóst að æði mörg atriði varðandi útkomu þessarar kvótaskiptingar, sem gilt hefur, eru óljós og að ekki hefur í raun tekist að gera marktækan samanburð milli áranna 1983 og 1984, samanburð sem hægt væri að byggja gerð frv. eins og þess sem hér er á. Til þess þarf miklu lengri tíma. Það er því sérstakt ánægjuefni að hv. þm. Ed. skyldu sameinast um að breyta því ákvæði að lög þessi skyldu gilda til þriggja ára og leggja til að gildistíminn væri aðeins eitt ár, því enn er þetta kvótakerfi á tilraunastigi og marktækar niðurstöður um reynslu þess liggja ekki fyrir.

Ég ætla aðeins að nefna hér fáein atriði þar sem við teljum að betri upplýsingar þyrftu að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin um áframhald þess kerfis sem við erum nú að ræða. Í fyrsta lagi var það ætlun manna að stjórnun fiskveiða hefði það í för með sér að ásókn í þorskstofninn minnkaði. Hefur það tekist? Árið 1983 var gert ráð fyrir að u.þ.b. 300 þús. tonn af þorski veiddust. Um áramótin 1983/1984 var ákvörðun tekin um að leyfa aðeins veiðar á um 220 þús. tonnum af þorski á árinu 1984. Seinna þetta ár var heimildin þó færð í 257 þús. tonn. Auk þess hefur komið að landi afli, sem var utan kvóta, við línuveiðar í byrjun ársins og smáfiskur sem líka var hafður utan kvóta. Þarna er reiknað með að um sé að ræða um það bil 40 þús. tonn. Þar með er þorskafli, sem veiddur er á árinu, kominn í sama tonnafjölda og veiddur var á árinu 1983 og jafnvel meira. Eitthvað hefur farið úrskeiðis.

Í öðru lagi vil ég nefna það að því hefur verið haldið á loft að núverandi fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar hafi orðið til þess að auka sparnað útgerðarinnar, einkum og sér í lagi hvað varðar veiðarfæri og olíueyðslu. Það er vel ef svo er. Ég hef hins vegar á því fullan fyrirvara hversu stór þáttur kvótakerfisins er í sparnaði útgerðarinnar. Hefur það verið tekið með í þá útreikninga hversu mikill munur var á tíðarfari milli áranna 1983 og 1984? Gott tíðarfar eins og var á síðustu vetrarvertíð þýðir að sjálfsögðu betri nýtingu veiðarfæra og minni olíueyðslu. Sjálf get ég ekki fullyrt að kvótakerfið hafi leitt til sparnaðar hjá þeim útgerðarfyrirtækjum sem ég þekki best til. Þar hafði verið leitað leiða til sparnaðar löngu áður en núverandi kerfi var sett á. Síðast nefndi rekstrargrundvöllur útgerðarinnar býður ekki upp á annað. Og þar er e.t.v. komið að kjarna málsins.

Hafi kvótakerfið átt að stuðla að betri rekstrargrundvelli útgerðarinnar og fiskvinnslu hefur það ekki orðið. Staða útgerðar fer síversnandi. Það er sama hversu mikið okkar duglegu sjómenn streða. Það er sama hversu góðan kvóta fiskiskip fær. Það er sama hversu mikla vinnu sjómenn leggja á sig til þess að koma aflanum í sem bestu ástandi til lands. Það er sama hversu góð aflasamsetning er og sama þótt viðhaldskostnaði skipa sé haldið í algeru lágmarki jafnvel svo að hættulegt geti talist. Þegar árið er gert upp standa flestir útgerðarmenn frammi fyrir bullandi tapi, skuldir og vanskil hlaðast upp og menn standa ráðþrota og uppgefnir frammi fyrir því að erfiði þeirra skilaði engu nema tapi og meiri erfiðleikum. Þarna er meinið. Á þessu verður að taka. Það er nauðsynlegt þjóðfélaginu að þau skip, sem sækja aflann, skammtaðan eða ekki skammtaðan, út á miðin, hafi góðan rekstrargrundvöll og geti skilað þeim arði sem þjóðarbúið þarfnast.

Kvótakerfið, sem við erum hér að ræða, tekur ekki á þessum vanda. Hæstv. ráðh. ætti að þiggja það sem við bjóðum hér með till. okkar, að ábyrgð fiskveiðistefnu sé falin Alþingi og snúa sér að þessu stóra vandamáli. Þar er áreiðanlega hægt með hjálp góðra manna og velvilja í garð undirstöðuatvinnuvegs þjóðarinnar að finna úrræði.

Þá er það fiskvinnslan og fiskvinnslufólkið. Hefur aflakvótinn fært eitthvað til betri vegar þar? Það er hagsmunamál útgerðar og sjómanna að sækja sinn skammt á sem skemmstum tíma og með sem minnstum tilkostnaði. Það þýðir að annars vegar geta myndast aflatoppar sem fiskvinnslan í landi ræður ekki við þannig að fiskur, sem hægt hefur verið að vinna í dýrar pakkningar er geymdur það lengi að hann er ekki til neins nema keyra hann í gúanó. Í annan stað getur þetta svo þýtt að leyfilegum afla hafi verið náð á haustmánuðum, jafnvel fyrr, þannig að atvinnuleysi verður um þó nokkurn tíma. Þetta hefur gerst. Þarna þarf að gera ráðstafanir og bæta um betur.

Að lokum vil ég geta þess, herra forseti, að þótt stjórnun fiskveiða til þess að vernda einstaka fiskistofna sé nauðsynleg teljum við í minni hl. sjútvn. það ákaflega rangláta ákvörðun að veiðar smábáta séu innan kvótakerfis. Það aflamagn sem þeir færa að landi skiptir þar ekki sköpum. Við teljum einnig að línuveiðar skuli vera utan kvóta. Það er mun betri fiskur sem kemur til vinnslu veiddur á línu en úr öðrum veiðarfærum. Ef lína er utan kvóta verkar það hvetjandi til þess að línuveiðar verði auknar. Við teljum einnig að um humarveiðar skuli ekki gilda sömu reglur og um botnfiskveiðar, þ.e. aflamark á hvern bát, heldur skuli stjórnun þeirra veiða verða eins og áður var gert og gafst vel.

Að síðustu vil ég svo gera athugasemd við hversu stuttur tími er ætlaður til umr. og afgreiðslu þessa mikilvæga máls. Og einnig benda hæstv. sjútvrh. á að ákveði hann að láta gera á árinu 1985 aðra könnun svipaða þeirri sem nú hefur verið gerð um reynslu kvótakerfis, að fá þá í það hlutlausa aðila. Svona spurningalistar, sem af mörgum eru taldir vera leiðandi og rn. sendir út og tekur líka við svörum og vinnur úr þeim, eru ekki vinnubrögð sem má telja til fyrirmyndar, síður en svo.