19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2273 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Í nokkrar mínútur í upphafi máls hæstv. sjútvrh. var rætt um pólitík. Tilefnið var það að á brtt., sem kom fram í deildinni, var lagt til að aflamagni yrði dreift með tilliti til mikilvægis sjávarútvegs fyrir tilteknar byggðir. Umr. sem þyrftu að vera um slíkt vantar algerlega í allar vangaveltur um fiskveiðistefnu. Það skiptir máli að velta því fyrir sér hvað kemur út úr fiskveiðistefnu sem þessari. Við erum ekki að tala um eitthvert bráðabirgðaástand, einhverja óværu sem sækir á okkur í eitt, tvö eða þrjú ár. Við erum að tala um fyrstu skref í heildarfiskveiðistefnu sem vafalaust mun standa um ókomin ár. Þetta er ekkert sem gengur yfir. Við erum að stíga þarna inn á braut stjórnunar á fiskveiðum sem er ekki spurning um möskvastærð og grunnlínupunkta, heldur það hvernig þjóðfélag við viljum að þróist hérna á Íslandi næstu áratugina. Það er einmitt vegna þess sem menn verða að taka tillit til og taka afstöðu til hluta eins og þeirra hvar atvinnugreinin á að þéttast og eftir hvaða reglum hún á að þéttast.

Við hefðum alveg eins getað flutt og ég kannske flyt við næstu umr. málsins. brtt. sem fjallar um að fiskveiðar eigi að beinast sérstaklega til svæða sem sýna a) mesta arðsemi og b) besta afkomu fiskvinnsluhúsa eða skipa. Þetta er pólitík og um þetta eiga menn að ræða á Alþingi. Þetta gagnrýndum við í fyrra og gagnrýnum enn að vantar algerlega í hið svokallaða kvótafrv.

Þetta frv. er ekki um pólitík. Það er um dreifingu á fiski. Hvað vilja menn að gerist í þessari grein sem aflar milli 70 og 80% af gjaldeyri þjóðarinnar? Hvað vilja menn að gerist í þessari grein á næstu 15–20 árum? Menn verða að taka því að það sé um þetta rætt. Við lögðum fram brtt. sem kemur að kjarna þessa máls.

Hæstv. ráðh. sagði að þetta yrði ekki gert með þeim hætti sem þar er lagt til. Með hvaða hætti á að stjórna uppbyggingu þessarar greinar? Hvernig á að láta þessi mál koma fólkinu í þessu landi sem best til góða? Það hefur verið komist þannig að orði um kvótafrv. að kostur þess sé að það dreifi atvinnu betur. Það getur vel verið kostur ef maður lítur til dagsins í dag eða ársins í ár, en er það það sem greinin þarf? Er það það sem sjávarútvegurinn þarf, að dreifa honum betur? Það er gífurlegt misræmi milli sóknargetu og vinnslugetu annars vegar og milli veiðiþols hins vegar. Er það þessari þjóð til mestrar gæfu, sé til lengri tíma litið, að þessu sé dreift sem mest? Auðvitað leysir það okkur undan ýmsum vandamálum samtímans, eins og bráðu atvinnuleysi á ákveðnum svæðum eða slíku, ef við dreifum þessu, framlengjum hörmungarástand áranna þriggja. Auðvitað leysir það okkur undan því að taka stefnumarkandi ákvarðanir um þróun þessarar greinar. En við verðum að taka afstöðu til þess eftir hvaða línum við viljum að þetta þróist. Hvað á að rísa upp úr þessari öskustó? Hvernig verður fuglinn Fönix fjaðraður, sem upp úr þessu rís, eða gerist það einhvern tíma eða verðum við ár eftir ár að halda áfram að taka uppsafnaðan söluskatt, hálfan milljarð kr., og dreifa eftir einhverjum meðaltalsútreikningum? Ég trúi því ekki að hæstv. ríkisstj. líti þannig á framtíð þessarar undirstöðugreinar íslensks þjóðfélags.

Það eru óumflýjanlega sársaukafullar ákvarðanir sem þarf að taka. Það eru ákvarðanir sem munu koma illa við fólk og munu koma illa við fyrirtæki, en við verðum að taka þær og við verðum að draga línurnar sem við viljum fara eftir, þannig að hægt sé að vinna eftir þeim á sem breiðustum grundvelli í atvinnumálum, í byggðamálum, í þróun annarra atvinnugreina, þróun landbúnaðar, þróun iðnaðar o.s.frv. Það er út af þessum atriðum og það er út af þessari sýn sem við krefjumst þess að Alþingi Íslands fái að vera með í þessum leik. Hver sem kosturinn verður hljótum við að reyna að finna hið hamingjusama hjónaband arðsemi og félagslegrar þarfar og að því verðum við að leita. Auðvitað var okkur ljóst að brtt. í þessu formi mundu leiða til stórkostlegri breytinga en menn vildu sjá í einu vetfangi, en málið er að það eru svona atriði sem við eigum að ræða, óumflýjanlega, og það var þetta sem við sögðum við umr. um þetta mál á síðasta ári, að það er í þessu sem Alþingi á kröfu á að fá að vera með og það er um þetta sem umr. um fiskveiðistefnu á að fjalla. Þetta segi ég af því tilefni að hæstv. ráðh. kom hér upp og gerði að umtalsefni brtt. sem komið höfðu fram.

Mig langar að rifja upp forsögu þessa máls vegna þess að í dag hefur verið komið að hugtökum eins og valdaafsali, einræði, einveldi og ýmsum slíkum. Þessi forsaga er á ýmsan hátt merkileg.

Fyrir jólin 1983 var unnið hér undir gífurlegri tímapressu vegna þess að það var ófrávíkjanleg og staðföst skoðun ríkisstj. að lög og opnun heimilda um fiskveiðimál yrðu að liggja fyrir í byrjun janúar vegna þess að flotinn gæti ekki beðið í örfáa daga. Þetta yrði að liggja fyrir á pappírum hreint og klárt í byrjun janúar. Menn sögðu: Hvernig á þetta að koma út. Við verðum að sjá einhver dæmi, við verðum að sjá nánari upplýsingar. Það fékkst ekki, enda fór það svo að eftir allan þann þrýsting var það ekki fyrr en 8. febr. sem hin raunverulega útfærsla á þessu máli birtist okkur.

Við lýstum því í umr. fyrir jólin í fyrra að Alþingi þyrfti að móta meginatriði þessarar stefnu. Við lýstum því að það efaði enginn að setja þyrfti reglur um veiðiskap. Þær eru óumflýjanlegar og hafa í öllum löndum verið óumflýjanlegar. Fyrstu skrefin í fiskveiðipólitík allra þjóða hafa verið þau að afla lögsögu yfir þessum auðlindum sínum og næstu skrefin hafa verið þau að móta reglur til að stjórna nýtingu á þeim auðlindum. En því var í raun og veru hafnað að þingið fjallaði af nokkurri marksækni um þetta mál. Síðan gerðist það að Alþingi samþykkir auðan tékka þar sem menn samþykktu ekki kvóta, heldur samþykktu leyfi til ráðh. að setja á kvóta. Ég komst þannig að orði í þingræðu um þetta leyti í fyrra að það væri verið að semja og samþykkja eina grein sem væri á þessa leið: Ráðherra getur gert það sem honum sýnist í fiskveiðistefnum.

Hvað gerðist eftir jól? Þá verða löggjafarþingmenn að láta sér það lynda að breytast í nokkurs konar ráðgjafa eða sendimenn úr héraði. Þá setjast þeir eins og beiningamenn við borð ráðh. og fara að röfla: Okkur finnst nú að það þurfi að ná þessu fram þarna og okkur finnst að það þurfi að ná hinu fram hér. Það er augljóst að ef þetta gerist svona, þá gerist þetta. — Hinir göfugu löggjafarþm. höfðu afsalað sér völdum og mæta svo sem ráðgjafar, eins og ég segi: beiningamenn, við borð ráðh., sendimenn úr héraði, og fara að karpa um grunnlínupunkta. Svona var framgangur þessa máls. Það er alveg rétt að ekki vantaði að mönnum væru sýnd gögn og menn gátu sagt skoðanir sínar. Ég met það að málið var ekki meðhöndlað fyrir lokuðum tjöldum. En alþm. voru valdalausir. Þeir höfðu tekið þá dúsu fyrir jólin að samþykkja grein í frv. um að haft skyldi samráð við sjútvn. Alþingis. Þakka skyldi þeim.

Þrátt fyrir að síðan sé liðið ár og mikið vatn hafi runnið til sjávar og margir fiskar verið veiddir erum við aftur í sömu klípunni. Okkur vantar tíma til að ræða um höfuðatriði málsins sem eru þessi: Hvers konar samfélag mun byggjast upp í kringum þessa atvinnugrein á næstu 15–20 árum?

Ég sagði hér í inngangi vegna ummæla hæstv. ráðh. að menn vildu gjarnan hrista þetta af sér eins og tímabundin óþægindi eða óværu sem að þeim sækti í augnablikinu, en allt yrði gott og fagurt síðar meir, þetta væri nokkurs konar bráðabirgðaástand. Staðreynd málsins er að þetta er ekkert bráðabirgðaástand. Þegar við gátum veitt 450 þús. tonn af þorski óttuðumst við ofveiði. Núna erum við að reyna að veiða 200–250 þús. tonn. Það er kannske í fjarlægri framtíð að við sjáum aflamagn á Íslandsmiðum fara upp í það mark að við ekki þurfum nákvæma fiskveiðistjórn af einhverju tagi. Ég held því að menn ættu að gera sér grein fyrir því að við erum að stíga fyrstu skrefin í mótun þess samfélags sem á næstu 15–20 árum mun byggjast í kringum þessa grein. Þessi grein er mikilvæg. Hún aflar 70–80% gjaldeyris okkar. Þó að uppi séu ýmis áform um að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið, eins og það heitir í 17. júní ræðunum, þá er minna um efndir, þannig að svo mun vafalaust verða enn um sinn. Þess vegna verðum við að taka afstöðu til þess hvernig við viljum að þetta þróist. Við verðum að taka afstöðu til þess hvort við viljum hámarka arðsemi greinarinnar með öllum tiltækum ráðum og hvort við viljum með slíkri stefnu hafa engin takmörk á því hvernig menn skipti og selji kvóta, hvernig menn safna þeim saman, hvernig aflamagn safnist til þeirra útgerða sem eru dugmestar og sýna að þeim verður mest úr þessu og skapa þjóðarbúinu mestan gjaldeyri. Það er vissulega sjónarmið og hlýtur að vera það sjónarmið sem verður að vera efst. Hins vegar verður aldrei fram hjá því litið að byggðin er dreifð við ströndina og þessi byggð verður að þróast. Það verður að taka tillit til þeirra félagslegu staðreynda, sem við okkur blasa, að í gífurlega mörgum þessara byggða er ekki að neinu öðru að hverfa en fiskinum og að í þessum byggðum eru fjárfestingar svo milljörðum skiptir í atvinnutækjum, í aðstöðu og í þekkingu og reynslu við rekstur bæði í útgerð og vinnslu. Auðvitað kemur það saman við arðsemismálin. Mestri arðsemi náum við á þeim stöðum þar sem tækin eru best, þar sem fólkið er reyndast og reynslan er mest. En við verðum að taka afstöðu, við verðum að móta stefnu í þessum málum. Við værum að bregðast skyldu okkar sem alþm. ef við gerðum það ekki.

Það væri fróðlegt að vita hvað stóra nefndin sem hæstv. forsrh. setti á fót, framtíðarnefndin, hefði um þessi mál að segja. Mér skilst að það séu komin nær 200 manns í nefndavinnu í alls konar nefndum, yfirnefndum og undirnefndum, og allir eru að hugsa um framtíðina. Ekki veitir af vegna þess að bersýnilega á alþm. ekki að auðnast að gera það. Þá er kannske eins gott að ráða þrefaldan fjölda þeirra til að hugsa um þau mál. En óumflýjanlegt er að menn athugi þetta vegna þess að hvar ættu menn að hugsa um framtíðarstefnu og hvar ættu menn að vilja móta það samfélag sem þeir lifa í ef ekki á Alþingi. Menn hafa nú sinnt minni málum. Þeir sömu þm. og ekki töldu ástæðu til að athuga neitt hvernig fiskveiðistefna og atvinnustefna í sjávarútvegi ættu að vera létu sig þó hafa það að setja á síðasta Alþingi lög sem skammta fólki reyktóbak. Þá afsalaði þingið sér ekki neinu. Öll notkun tóbaks fer nákvæmlega eftir lögum frá Alþingi, út í ystu anga. En svo kemur að því hvernig sameiginlegri auðlind okkar verði varið, hvernig lífshagsmunamáli þjóðarinnar verði stjórnað, hvernig samfélag við viljum að þróist hérna á næstu áratugum fram á næstu öld, og þá þrasa menn um grunnlínupunkta! Þetta er ekki glæsilegt. Menn eru að tala um virðingu Alþingis. Menn virðast halda að virðing Alþingis felist í því að ekki séu teknar ljósmyndir hérna á pöllunum og menn gangi daglega í Kórónafötum. Það hefur ekkert með virðingu Alþingis að gera. Virðing Alþingis stendur og fellur með því hvort hjarta þess slær í takt við samfélagið sem er fyrir utan. Það gerir það ekki. Þing sem hefur meiri áhuga á reyktóbaki en fiskveiðistefnu er ekki í takt og býður ekki heim virðingu fólksins.

Eitt atriði vildi ég gera að umræðuefni og að því hefur nú reyndar verið komið áður og það varðar ofstýringuna og miðstýringuna. Ég veit ekki hvort þm. Sjálfstfl. hafa almennilega gert sér grein fyrir því, en þeir eru, virðist mér núna, að reka síðustu naglana í kassann sem á stendur: þjóðnýting útgerðar og vinnslu. Eins og ég hef rifjað upp hérna áður í ræðu og ætla þess vegna ekki að gera að löngu máli núna er olnbogarými frjálsræðishetjanna góðu, sem Sjálfstfl. telur að standi undir atvinnulífinu, ekki orðið ýkjamikið. Ríkið skammtar þeim fjármagn til skipakaupa, ríkið skammtar þeim fjármagn til fiskvinnsluhúsabygginga, ríkið skammtar þeim magn af botnfiski, öllum sjö tegundunum sem einhver nennir að veiða, það skammtar þeim aukin heldur slatta af skelfiski og krabbadýrum. Síðan skammtar ríkið þeim fiskverð, það skammtar þeim vexti, það skammtar þeim gengi, það skammtar verkafólkinu kaup og það skammtar gæðin. Og til þess að tryggja þetta nú allt saman, ef einhver óáran er, þá er innheimtum söluskatti, fjórðungs skattlagningu á alla greinina, safnað saman með reglulegu millibili, dreginn út úr fylgsninu og dreift eftir meðaltölu. Hvað ætti mönnum þætti ef læknar Landspítalans störfuðu þannig að þeir tækju á hverjum morgni hita sjúklinga, tækju því næst meðaltal og dreifðu magnyltöflum til allra sjúklinganna í hlutfalli við meðaltalið? Hvernig ætli það gagnaðist botnlangasjúklingum, hvernig ætli það gagnaðist þeim geðveika? Þetta meðaltalapex tekur ekkert tillit til raunverulegrar afkomu. Með þessari meðaltalastjórn verður aldrei byggður upp atvinnurekstur. Eitt af stóru rökunum fyrir því að koma á kvótakerfi var að greinin hagnaðist svo mikið vegna þess að þetta horfði til stórra bóta í sambandi við gæði og olíusparnað. Hversu mikil hvatning halda menn að það sé þegar ofan á þetta er svo smurt mörgum sinnum þykkri lögum af uppsöfnuðum söluskatti? Ætli mönnum þyki þess vert að rembast eins og rjúpan við staurinn í gæðum og olíukostnaðinum þegar þeir vita að þeir fá hvort sem er stóru summuna frá stóra bróður sem stjórnar þessu öllu og smyr þessu jafnt yfir? Þetta er velferðarkerfi atvinnurekstrarins. Þetta eru aumingjabæturnar. Ég trúi því varla, en reyndar verð ég að fara að trúa því að þm. Sjálfstfl. standi að þessu óskiptir. Þeir ganga svo hart fram í því að koma þessu á.

Ég vil ekki teygja þessa umr. um of, en ég vil minna á að það eru mörg atriði sem við höfum ekki komið að. Við höfum ekki komið að atriðum sem varða eignarrétt. Í ljósi fyrirsjáanlegs langlífis þessa fyrirkomulags, í ljósi þeirrar staðreyndar að við eigum eftir að búa við kvóta í ár og áratugi hljóta að vakna spurningar og verða sífellt meira brennandi eftir því sem eignatilfærslurnar verða meiri og meiri. Menn munu spyrja: Hver á þennan fisk? Menn fara að rifja upp, kannske einhvern tíma undir aldamótin: Hvernig stóð nú á því að hann pabbi fékk úthlutað kvóta þarna á árunum? Hver hafði leyfi til að gefa honum hann? Hver á þennan fisk? Menn velta líka fyrir sér, en fá í rauninni engin svör: Allt í lagi. Það er eitt að leyfa mönnum að veiða einhvern fisk, en það er allt annað að leyfa þeim að selja óveiddan fisk. — Ég er ekki að mæla gegn því. Reyndar tel ég að það eina sem geti kannske valdið því að upp úr þessu meðaltalabulli öllu og dreifingu rísi sjávarútvegur sem getur bjargað sér, eina vonin meðan annað kemur ekki í ljós, sé að aflamagn safnist saman. En það breytir því ekki að þarna eru grundvallaratriði sem menn þurfa að taka afstöðu til og sem þingið á að taka afstöðu til. Það á ekki að ákveða á fundum hjá LÍÚ vegna þess að LÍÚ hefur ekkert leyfi til þess að ráðskast með auðlind, ekki frekar en LÍÚ getur ráðskast með vatnið í fossunum okkar eða háhitaorkuna. Þetta er auðlind sem öll þjóðin hefur barist fyrir. Það á að vera Alþingis að móta reglurnar sem nýta þessa auðlind. Og það á að vera Alþingis að móta það samfélag sem á að vaxa á næstu áratugum tveimur á grundvelli þessarar auðlindar. Annað eru svik.