19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Við Íslendingar höfum á undanförnum árum búið við hagvöxt í þessu landi og sá hagvöxtur hefur fært okkur hagsæld sem lýsir sér í nokkuð háum lífsstandard hér á Íslandi. Það hlýtur að vera höfuðmarkmið, þegar horft er á aðalatvinnuveg Íslendinga, hvað fjáröflunarmöguleika snertir á erlendum gjaldeyri að menn horfi á það mál út frá hagrænu sjónarmiði. Viljum við standa þannig að þessu máli að það tryggi áframhald hagvaxtar í landinu eða viljum við láta okkur nægja að standa þannig að því að kvótakerfið þýði í reynd innbyggt atvinnuleysi í þennan atvinnuveg? Teljum við að við höfum efni á því að standa þannig að málinu? Ég segi nei.

Hæstv. sjútvrh. gat þess í ræðu sinni áðan hvaða stefnu hann hefði kynnt fyrir þjóðinni á haustmánuðum 1983. Hann gat þess að hann hefði verið skammaður fyrir þá stefnu. Það er hárrétt. Víðlesnasta blað þjóðarinnar hellti sér yfir hæstv. sjútvrh. með óbótaskömmum. Hvers vegna? Einfaldlega vegna þess að sú stefna raskaði ýmsu í þessu þjóðfélagi. En hún var rétt. Það var grundvallaratriði hagfræðilega séð að standa þannig að máli að við færum í uppbyggingu á atvinnulífinu, iðnaðaruppbyggingu á atvinnulífinu, ekki jafnt hringinn í kring um landið í hverju einasta sjávarþorpi, heldur þar sem skynsamlegast var að standa að þeirri iðnaðaruppbyggingu, í aðalkjörnum byggðanna. En til þess að hægt væri að skapa þetta rými og merkja þessa stefnu þurfti að beita mismunun í sjávarútveginum á þann veg að þar sem menn ættu mest undir sjávarútvegi yrði leyft að veiða og standa að vinnslunni af meiri krafti en á hinum svæðunum þar sem sjávarútvegurinn hafði litla hagræna þýðingu fyrir heildaratvinnulífið. Til þess að framkvæma þessa stefnu þurfti að fara út í svæðiskvóta. stefnan var óframkvæmanleg eftir þeirri leið að setja kvóta á hvern einasta bát.

Það hljóta að vera ærin vonbrigði fyrir hvern þann mann sem hlustar á yfirlýsingar ráðh. og metur þær réttar að vakna upp við það að þrýstihópar þjóðfélagsins hafa hrakið ráðh. svo af leið að hann hefur ákveðið að sigla undan vindinum í allt aðra átt en hann taldi rétt. Það er enginn hér inni sem ekki gerir sér grein fyrir því að Norðmenn með sinni styrkjastarfsemi og Kanadamenn með sinni styrkjastarfsemi í sjávarútvegi hafa haft afgerandi áhrif til þess að lækka lífskjör á Íslandi, hafa beinlínis orðið þess valdandi að fiskur er seldur í aðalmarkaðslöndum okkar á lægra verði en væri ef þessar atvinnugreinar yrðu látnar standa á eigin fótum í Noregi og í Kanada. Þetta skilja allir, en þegar kemur að því að ræða málið út frá innlendum sjónarmiðum snarfellur skilningurinn. Hvaða áhrif skyldi það hafa haft á útgerðarmenn hringinn í kring um landið að svona styrkjastarfsemi hefur verið haldið uppi með bæjarútgerðum sem hafa vaðið í sjóði samfélagsins og sótt þangað þá fjármuni sem þær þurftu til að borga hallann á hverjum tíma? Gera menn sér grein fyrir því, og þar á meðal hv. skrifari þessarar deildar, Halldór Blöndal, hversu marga sjálfstæða útgerðarmenn er búið að setja á höfuðið með þessum vinnubrögðum? Hvað er mikið um það að menn hafi verið þjóðnýttir aftan frá með þeirri aðferð að halda uppi bæjarútgerðum sem mokað var fjármunum til og haldið áfram í rekstri á sama tíma og gengið var orðið rangt skráð og útgerðarmaðurinn sem þurfti að verjast gat það ekki vegna þess að óeðlileg samkeppni braut hann niður? Það er grundvallaratriði að gera sér grein fyrir því í dag og ánægjulegt að bæjarstjórn Reykjavíkur virðist hafa á því vaxandi skilning að það gengur ekki að standa svona að málum. Með þessu er ég ekki að segja að hún eigi ekki að verja fjármunum til uppbyggingar atvinnulífs eða að það sé óeðlilegt ef hún rekur útgerð á réttlátum samkeppnisgrunni. Hún á í dag að verja fjármunum til iðnaðarins í landinu til þess að byggja upp atvinnulíf til að örva hagvöxtinn, en hún á að hætta að standa þannig að málum að hún moki fjármagni inn í Bæjarútgerðina með þeim afleiðingum fyrst og fremst að setja sjálfstæða útgerðarmenn í þessu landi á höfuðið. Það verður að tryggja rekstrargrundvöll og það verður að standa heiðarlega að samkeppni.

Röng gengisskráning í gegnum árin er búin að leika grátt þau svæði þar sem menn hafa allt átt undir því að afla frá hafinu þeirra verðmæta sem þeir settu fram sem sína söluvöru. Það er athyglisvert að svo sundurlaust er talað um þessi mál að í staðinn fyrir að ræða heildaratvinnustefnu í landinu öllu sem tryggði aukinn hagvöxt, þá hafa menn farið í vaxandi tog um það að engu mætti breyta miðað við það ástand sem er. Þess vegna var m.a. ráðist á hæstv. sjútvrh. þegar hann setti fram þá stefnu sem var rétt. Ég tel að mönnum þætti það skrýtið ef ég gerði kröfu til þess að kísilmálmverksmiðjan, sem ætlunin er að rísi á Reyðarfirði, verði flutt á Tálknafjörð, krefðist þess bókstaflega að þar skyldi hún rísa. (Gripið fram í: Eða á súgandafjörð.) Eða á Súgandafjörð. Menn mundu segja: Það er ekki hagkvæmt. Það er vegna þess að rafmagnið er ekki til staðar í nægilega mikilli nálægð. — Ég er sannfærður um að hver einasti maður hérna í salnum mundi skilja að þetta væri vitlaus hugmynd og það bæri að standa gegn henni. (Gripið fram í: Það er ég ekki viss um.) Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, sem er mun lífsreyndari en ég, dregur þetta í efa. Kannske hef ég ofmetið skilning hv. þm. Þegar ég aftur á móti segi að við þurfum að stunda þaðan fiskveiðar sem ódýrast er að sækja sjóinn og hagkvæmnin getur verið mest og umsvifin væru mest, ef um heiðarlega samkeppni væri að ræða, þá er borið á mig að ég sé sérstaklega að hugsa um Vestfirði, ekki þjóðarheildina. Þó eru ein gjöfulustu mið þessa lands Halamiðin út af Vestfjörðum.

Ég held að hægt sé að halda áfram með kvótakerfi af þeirri tegund sem hér hefur verið sett upp, en ég er sannfærður um að því mun eilíflega fylgja glórulaus spilling. Það er athyglisvert að 24% þeirra sem spurðir voru í félagsfræðiathugunum sjútvrn. komust að þeirri niðurstöðu að það hefði verið svindlað á þessu kerfi, það hefði verið landað fram hjá, það hefði verið hent fiski og hið skráða aflamagn, sem kom á land, gæfi þess vegna ekki rétta mynd af þeim veiðum sem fram hefðu farið. Haldið þið að það verði ekki framfarir í þessum kúnstum? Haldið þið að Íslendingar læri ekki? Haldið þið að spillingin muni ekki vaxa? (HBl: Kannske viðurkenna færri það að ári.) Hv. ritari hefur látið af skriftum á jólakort um sinn til að taka þátt í umr. og er það vel. En ég er ekki jafntrúaður á að athugasemd hans sé rétt.

Ég þarf að víkja örfáum orðum að hv. þm. Karvel Pálmasyni. Hann vakti athygli á ýmsu í minni ræðu, sem ég flutti, og taldi að ég hefði verið með ósanngjarnar aðdróttanir að stjórnarandstöðunni þegar ég vakti á því athygli að á sama tíma og hún talaði gegn kvótakerfinu gerði hún allt til að greiða fyrir framgöngu málsins hér í þinginu. Jóhannes úr Kötlum fór eitt sinn ungur maður á stjórnmálafund, mjög ungur, í Dalasýslu. Ég efa að hann hafi vitað mjög mikið hvað um var rætt, það sat ekki fastast í honum í minningunum frá 1908. Það sem sat fast var það þegar Bjarni frá Vogi stóð keikur í kirkjudyrum og krafðist þar andvöku, bannaði mönnum að hátta. Jóhannes var undrandi á því hvaða alvara fylgdi þeim málflutningi sem hafður var uppi. Þetta er grundvallaratriði, ef menn ætla að sækja mál, að þeim sé alvara í því sem þeir eru að gera. Það má hverjum manni ljóst vera að óbreyttur þm. tekur ekki upp á því að fara í hart gegn ráðh. úr sama flokki um málefni nema honum sé alvara.

Ég vil einnig víkja að öðru atriði. Hvað sem umsvifum Sambands ísl. samvinnufélaga líður var það ekki fyrir kvótakerfi að það keypti eignir í Súgandafirði. Það eru engin tengsl þar á milli.

Ég vil aftur á móti taka undir með hv. 3. þm. Vestf. þegar hann vakti athygli á hinum efnislegu þáttum þessa máls. Ég hygg að hver og einn, sem hefur fylgst með venjulegu lífi í sjávarþorpum úti á landi, geri sér grein fyrir því að það er verið að taka lamb fátæka mannsins ef ætlunin er að ráðast sérstaklega að trillukörlum í landinu. Þeir hafa um árabil verið látnir greiða 10% af aflanum í Fiskveiðasjóð, sumir eru búnir að gera það í 50 ár, en hvernig gengur þegar hinir sömu koma nú og vilja endurnýja sín skip? Skyldi það vera mikil fyrirgreiðsla sem fæst úr sjóðnum? Jú, það er rétt að heimilað hefur verið á seinni árum að greiða þessa peninga út, en lengst af voru þeir verðfelldir í heilt ár áður en þeir fengu þá til baka. Ég tel að enginn verði stór af því að standa svo hart að stjórnun að vega að þessum hóp manna og ég trúi því ekki að þorski á Íslandsmiðum verði útrýmt með krókaveiði. Hitt atriðið, hvort gefa eigi línuveiðar frjálsar við þetta land eða ekki, hlýtur að vera spurningin um hvort mönnum finnst það skipta máli að gæði þess afla sem kemur á land eru meiri með línuveiðum eða á annan hátt. Allar áhyggjur sem koma fram hjá hæstv. sjútvrh. þegar hann talaði um Vopnafjörð, Borgarfjörð og Húsavík hyrfu eins og dögg fyrir sólu ef hann gerði sér grein fyrir því að með línuveiðum geta þessir aðilar náð þeim fiski sem þeir þurfa, þ.e. þeir sjómenn sem þar eru.

Mér er ljóst að miðað við það kvótakerfi sem hæstv. sjútvrh. hefur farið eftir getur það verið ýmsum vandkvæðum bundið að framkvæma þá till. sem kemur hér á eftir og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp:

„Við úthlutun á aflamarki til einstakra skipa ber ráðh. að taka sérstakt tillit til þess ef skip er gert út í byggðarlagi þar sem a.m.k. 35% vinnuafls starfar við fiskveiðar og fiskvinnslu og skal aflamark þeirra skipa, verði eftir því leitað, aukið um 15–20% frá því sem það hefði ella orðið eftir almennri úthlutunarreglu.“

Það er kannske rétt að geta þess að sá háttur hefur löngum verið hafður á að fella gengið á haustin þegar reikningsmeistarar Seðlabankans eru komnir úr sumarfríi. Hverjir skyldu nú m.a. hafa átt fiskbirgðir á þeim tíma sem skráðar voru með gengishagnaði? Jú, það eru staðir sem stunda veiðar yfir sumartímann. Einn af þeim stöðum er Grímsey, þessi norðlægi staður. Það er ekki svo sjaldan sem hv. þm. hafa náð í gengishagnað frá Grímsey og úthlutað honum til allt annarra staða en þeirra sem vinna að fiskverkun þar norður frá vegna þess að bátastærðin er ekki nógu virðuleg til að vera tekin með. Ég hygg að það hljóti að vera erfitt að vita hver stefnan er, vita hver stefnan á að vera, gera sér grein fyrir þessum mikla mismun og una því.

Hæstv. ráðh. gat þess í kvöld hvaða stefnu hann taldi rétta á haustdögum 1983. Við vitum gjörla hvaða stefna er framkvæmd. Það er stefna sem þrýstihóparnir hafa komið hæstv. ráðh. til að taka fram yfir þá stefnu sem hann telur rétta. Það er athyglisvert að þegar talað er um hagsmunaaðila í sjávarútvegi eru það fulltrúar sjómanna, útgerðarmenn og eigendur fiskvinnslufyrirtækja. Það er merkilegt að sjómenn eru taldir upp, en ekki fiskvinnslufólkið í landi. Nú er þar jafnt á komið því að ekki fara skipin á sjó nema sjómenn séu til staðar og ekki verður unnið í fiskvinnsluhúsunum í landi nema verkafólk sé til staðar. Engu að síður er það hin heilaga þrenning: fulltrúar sjómanna, útgerðarmanna og eigendur fiskvinnslufyrirtækja.

Hvernig stendur á því að hið almenna verkafólk er ekki talið upp þegar talað er um hagsmunaaðila í sjávarútvegi? Hvaða óvirðing liggur á bak við það að standa þannig að upptalningu? Er það e.t.v. svo að við höfum gleymt því í þessari umræðu allri að hagsmunir íslensku þjóðarinnar á sviði sjávarútvegs eru svo miklir að vonlaust er að telja upp einhverja þrjá hagsmunaaðila sem aðalatriði í því sambandi? Það er gjörsamlega vonlaust. Við eigum undir íslenskum sjávarútvegi farsæld þessarar þjóðar.

Ég gat um það í ræðu minni að ég teldi að það hefði þurft að taka á gæðamálum í sjávarútvegi. Það þurfti að tryggja að sá fiskur sem bærist að landi kæmi óskemmdur. Það er fyrst og fremst í netaveiðinni við landið og þegar flottroll hefur verið notað í óhófi sem um skemmdan fisk hefur verið að ræða. Á þessu vandamáli þarf að taka. Það er látið fljóta hjá.

Það má vel vera að hægt sé að tryggja frið um störf sín með því að fela hagsmunaaðilum, eins og hér virðist hafa verið niðurstaðan í stefnumótuninni, alræði í framkvæmd. En hætt er við að þeir sem telja sig þurfa að verja ákveðna stefnu í sjávarútvegi og þeir sem vissu að hæstv. sjútvrh. átti ákveðna stefnu verði fyrir vonbrigðum undir slíkum kringumstæðum. Grímur frá Hrafnistu varð frægur fyrir það að verða fyrstur manna til að sigla á móti vindinum af norrænum mönnum og með leikni lausra voða lét sér vinda öfugt blása, hæstv. iðnrh. En nú virðist svo komið siglingarþekkingunni að menn hleypa undan en hitt sé ofraun að ætla að sigla á móti. (KP: Ætlar ekki hv. þm. að staðfesta það sem eftir honum var haft?) Ég geri það með því að rengja ekki orð.