19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2281 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég held að það væri full ástæða fyrir hæstv. iðnrh. að setja sig hér á mælendaskrá því að ég trúi ekki öðru en að hann hafi eins og fleiri þm. áhuga á sjávarútvegsmálum, hvernig til tekst um það málefni sem hér er til umr. En það er til þess að upplýsa ráðh., frv. til. l. um breytingar á lögum nr. 81 frá 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Og svo þýðingarmikil sem raforkumálin eru og verðlagningarmál raforku, sem eru raunar á dagskrá þessa fundar, þá tel ég að hér sé þó enn stærra mál til umr. og mikilsverðara og nauðsynlegra fyrir þm. að ræða og það ítarlega. Ég vænti þess að hæstv. iðnrh. miðli hér okkur öðrum þm. af reynslu sinni í tengslum við útgerð í landinu því að ekki hefur hann algjörlega farið fram hjá þeirri vör og gæti eflaust sagt okkur ýmislegt sem að gagni mætti vera í sambandi við þessa umr. hér.

Hér liggur fyrir til 2. umr. þetta frv., sem kallað hefur verið í styttu máli kvótafrumvarpið, og fyrir okkur liggja tvö nál. frá sjútvn. hv. deildar, frá meiri hl. sjútvn. sem mælir með samþykkt frv. án breytinga og frá minni hl. sjútvn. sem lýsir sig andvígan frv. og flytur við það til vara allmargar brtt.

Það var rifjað upp við 1. umr. þessa máls nú fyrir örfáum dögum að þetta stóra mál er komið til þingsins allt of seint miðað við þau markmið ríkisstj. að fá það lögfest fyrir áramót. Það er satt að segja hreinasta vanvirða við þingið að hæstv. sjútvrh. skuli halda þannig á þessu máli að okkur þm. sé ekki ætlaður tími nema á örfáum dögum og það á næturfundum á Alþingi til að ræða um þetta hagsmunamál sem skiptir fólk við sjávarsíðuna um land allt og raunar alla Íslendinga meira en flest annað sem hér er til umr. í þinginu. Þetta er þeim mun gagnrýniverðara sem málið er ekki nýtt heldur koma menn hér með árs reynslu nánast að baki. Full tök hefðu átt að vera á því að leggja þetta mál fyrr fyrir þingið og gefa bæði þm. og þingnefndum kost á að ræða það og bera sig saman við sína umbjóðendur, því að það eru fleiri hagsmunaaðilar í þessu máli en tilkjörnir, tilkvaddir fulltrúar hagsmunasamtaka. Það eru þeir sem að sjávarútvegi standa í hinum ýmsu byggðarlögum vítt um landið, talsmenn fyrirtækjanna með sína reynslu, talsmenn sjómanna og vissulega afskaplega ólíkir hagsmunir á marga lund sem um er að ræða og málið af þeim sökum allflókið og vandmeðfarið.

Nú er það svo að þeir sem mæla hér á móti samþykkt frv. og gera við það brtt. tala út frá nokkuð ólíkum forsendum. Það er ekkert undarlegt þó að svo sé, jafnmikill breytileiki og enn er til staðar í okkar sjávarútvegi og jafnólíkar sem aðstæðurnar eru í hinum einstöku landshlutum og vissulega í byggðarlögum innan landshluta. Það eru eðlilega önnur sjónarmið uppi á útgerðarstöðum sem byggja einvörðungu á togaraútgerð og á þeim útgerðarstöðum þar sem bátaútvegur er uppistaðan í afla og í þriðja lagi þar sem smábátar, jafnvel aðeins trillur, eru einu fleyturnar sem flytja sjávarfang að landi. Það er spurningin um það fyrir okkur alþm. að leitast við að stilla þessa margbreytilegu hagsmuni saman, að leita að viðunandi samnefnara hér inni á Alþingi sjálfu og gæta þess að afsala okkur ekki því valdi sem okkur ber að móta, því valdi sem við förum hér með, til þröngs hóps manna og þar jafnvel til eins einasta manns, eins og hér hefur með réttu verið bent á að verið er að gera að forminu, þar sem er hæstv. sjútvrh.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson orðaði það svo hér við 1. umr. þessa máls um daginn að hægt hefði verið að þjappa efni þessa frv. saman í miklu knappari texta í ljósi hins efnislega innihalds. Ég átti ekki kost á að vera hér áðan við alla umr. og heyrði ekki nema hluta af máli hv. 3. þm. Vestf., sem mun hafa vitnað nokkuð í ræðu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar við 1. umr. málsins, en ég leyfi mér að taka hér örstuttan kafla þessu tengdan og vitna til hans, þar sem þm. sagði nánast í upphafi síns máls:

„Þar sem hér liggur fyrir frv. til l. sem er að því leyti sérstakt að það mætti koma efni þess öllu fyrir í einni grein sem hljóðaði eitthvað á þá leið: Ráðh. fer með sjávarútvegsmál og setur hann reglugerð um framkvæmd þeirra allra.“

Þetta var hnitmiðað af hálfu hv. þm. og þetta sjáum við við skjótan yfirlestur á ekki löngum lagatexta að er formlegt efnisinnihald þessa frv. hvað valdið snertir. Það er þessi grundvallarþáttur sem við Alþb.-menn flestir hverjir lýstum eindreginni andstöðu við þegar mál þetta kom fyrir þingið í fyrra og fluttum þá um það brtt. að Alþingi mótaði fiskveiðistefnu í megindráttum, ekki um það að þingið færi að skipta aflamagni á einstök veiðiskip, heldur setti um það og mótaði ákveðnar stefnumarkandi reglur hvernig að þeirri fiskveiðistjórnun skyldi staðið sem lauslega er vikið að í þessu frv. eða a.m.k. með svo óljósum hætti að þingið og einstakir þm. vita mjög takmarkað um það hvert málið stefnir, hvernig ráðh. mundi beita því mikla valdi sem honum er hér gefið að samþykktum þessum lögum.

Nú er það vissulega svo að þegar mál þetta lá fyrir Alþingi í fyrra þá höfðu hagsmunasamtök í landinu gert samþykktir um það með hvaða hætti þau teldu skynsamlegt að standa að fiskveiðistjórnun í ljósi minnkandi aflamagns. Að því leyti vissum við hvert hugur þeirra stefndi í þessum efnum og ráðh. studdi sig vissulega við þau sjónarmið sem þar höfðu komið fram. En engu að síður er það fráleitt að ætla að fara að taka upp miðstýringu af þessu tagi í undirstöðuatvinnuvegi landsmanna, ég tala nú ekki um þegar svo langt er seilst af hálfu ríkisstj. við framlagningu þessa frv. að ætlast til þess að það gildi til þriggja ára eins og var í upphaflegum frumvarpstexta en breytt var í Ed.

Ég vil ítreka það sem áður hefur komið fram af minni hálfu að ég er fylgjandi stjórnun í íslenskum fiskveiðum. Ég var og er hlynntur meginstefnumiðum í sambandi við þá fiskveiðistjórnun sem mörkuð var fyrir síðasta ár, þ.e. að miða við aflamark á einstök veiðiskip, aðalhluta flotans. Ég er því efnislega hlynntur og samþykkur og talaði fyrir þeirri stefnu þegar málið var hér til umr. í fyrra. Ég gagnrýndi það þá að of lengi hefðu menn haldið við stjórnunarform sem engan veginn skilaði þeim árangri sem ég hygg að menn hafi ætlast til sem við það héldu, hið svokallaða skrapdagakerfi, sérstaklega varðandi togarana. Ekki var tekið undir tillögur, sem fram komu m.a. af sérstökum starfshópi á vegum Rannsóknaráðs ríkisins sem starfaði á árunum um og fyrir 1980, og lagðar voru fyrir þáv. hæstv. sjútvrh. Steingrím Hermannsson um að taka upp breytta stjórnun. Ég held að við hefðum verið í mun betri sporum ef þá hefði verið lagt inn á nýjar brautir og farið hægar í sakirnar og reynt að breyta til, ekki síst í sambandi við togveiðarnar með því að reyna aflamark á togarana eina sér til að byrja með og safna þar reynslu.

Ég er þeirrar skoðunar að aflamarksleiðinni geti fylgt ýmsir kostir til bættra útgerðarhátta og aukinnar hagkvæmni eins og leiddar hafa verið líkur að að tekist hafi á síðasta ári. En ég hlýt að viðurkenna að sú reynsla er mjög stutt og það er hæpið að draga nokkrar algildar ályktanir af þeirri reynslu sem komin er vegna þeirra mörgu óvissuþátta sem þar koma við sögu. En ég held hins vegar að við stefnumörkunina á yfirstandandi ári hafi verið gengið allt of langt varðandi vissar tegundir af fiskveiðum, varðandi vissar bátastærðir. Því stóð ég að því með öðrum Alþb.-mönnum í fyrra — og raunar fleiri sem undir það tóku — að halda bæri utan við aflamarkið minnstu bátunum, smábátum á bilinu 10–20 brúttórúmlestir eftir nánari athugun hvar þau eru dregin með réttlátum og skynsamlegum hætti og að undanskilja bæri línuveiðarnar frá aflamarki og kvóta. Ég er nokkuð viss um að þetta kerfi, sem þarna var upp tekið, hefði fengið betri dóma og við hefðum fengið betri reynslu af því ef þessum tillögum okkar Alþb.manna á síðasta ári hefði verið fylgt. Og ég er áframhaldandi þeirrar skoðunar að tvímælalaust beri að undanskilja þennan hluta fiskveiðiflotans — svo að við notum það orð, mönnum finnst það kannske stórt í munni þegar um er að ræða smábáta — honum verði haldið utan við kvótasetningu og aflamark á þann hátt sem gert var á síðasta ári.

Menn sjá af þeim málflutningi sem ég hef hér uppi um þessi efni að ég geng út frá öðrum forsendum í ýmissi grein í sambandi við þetta mál en t.d. hv. 3 þm. Vestf., Karvel Pálmason, og hv. 5. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson. En ég get verið þeim sammála um ákveðna þætti þessa máls, enda er Karvel Pálmason flytjandi að brtt. með fulltrúa okkar Alþb.-manna í hv. sjútvn. varðandi það atriði að undanskilja línuveiðar og handfæraveiðar frá ákvæðum 1. málsgr. um kvóta eða aflamarkssetningu.

Ég held að nauðsynlegt sé að við fáum hér við þessa umr. skýr svör um þessi atriði ekki síst frá hæstv. sjútvrh. Ég tel það óviðunandi með öllu að hæstv. ráðh. ætli sér að taka á þessu máli með þeim hætti sem skilja mátti á máli hans hér áðan þar sem hann staðhæfði að ekki kæmi til greina að taka undir þessa till. eins og hún lægi fyrir. Hæstv. ráðh. var þar um leið að segja að ekki kæmi til greina að taka undir þau sjónarmið sem fram koma í nál. meiri hl. og minni hl. sjútvn. Ed. þingsins, en þar kemur það fram mjög ákveðið og skilmerkilega, a.m.k. varðandi línuveiðarnar, hver séu viðhorf þm. þar. Ég leyfi mér að spyrja: Til hvers er verið að leggja þetta mál fyrir þingið, þá í öðru formi en því sem hv. þm. Ólafur Þórðarson gat hér um, að þjappa þessu máli í knappan texta, þann texta sem ráðh. vill fá í hendur, til þess að sitja uppi með alræðisvald í þessum málum þó svo að hann hyggist ekki beita því sem slíku heldur styðjast við ráðgjafarnefndir? En formið er alræðisvald í þessum efnum og mér finnst að hæstv. ráðh. fari hér fram með miklu minni hyggindum en ég hefði vænst af hálfu þess manns sem fer með málefni þessarar atvinnugreinar, sjávarútvegsmál. Hvaða kappsmál getur það verið ráðh. að hindra að til sjónarmiða, sem fram koma í þinginu, sé tekið ríkulegt tillit við lagasetningu? Hvaða ástæða er það fyrir ráðh. að safna öllu þessu valdi óskilgreindu á sínar hendur? Ég hefði ekki kært mig um að fá slíkt vald í hendur, það vil ég segja hreinskilnislega. Ég tel það hina mestu óhæfu og horfa til ófarnaðar í sambandi við stjórnun á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar að ætla að ganga fram með hætti sem þessum, að halda við löggjöf af því tagi sem keyrð var hér fram í þinginu í fyrra á knöppum tíma þá og nú er enn knappari tími til stefnu.

Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að vitna hér til smákafla í meirihlutaáliti sjútvn. Ed., en þar segir: „Viðmælendur nefndarinnar nú voru ekki allir á einu máli um það hvort rétt væri að grípa til þessarar stjórnar á veiðunum aftur árið 1985. En öllum bar saman um að framkvæmd laganna um kvótaskiptinguna hefði tekist framar öllum vonum þótt nokkrir hnökrar hefðu verið þar á sem eðlilegt má teljast í svo viðamiklu máli. Það er ljóst að svo mikil takmörkun á fiskveiðum, eins og nú verður að viðhafa á Íslandsmiðum, verður aldrei óumdeild og sitt mun hverjum sýnast um stjórnunaraðferðir. Meiri hl. n. telur þó að í ljósi aðstæðna sé rétt að mæla með samþykkt frv.“

En síðan segir:

„Allir nm. voru sammála um að beina því til sjútvrh. og ráðgjafarnefndar um fiskveiðistjórn að línuveiðar skyldu að hálfu verða utan kvóta mánuðina janúarfebrúar og nóvember-desember. Almennt er viðurkennt að línuafli sé sérstaklega gott hráefni og því ástæða til að hvetja til aukinna línuveiða með þessum hætti.“

Þetta segir meiri hl. sjútvn. Ed. í sínu áliti. En hvað segir ráðh.? Ráðh. segir okkur hér að hann geti í rauninni ekkert upplýst um þetta mál. Hann kannast við þessar skoðanir. Hann telur ekki koma til greina að taka línuveiðar og handfæraveiðar út fyrir ramma þessara laga og hann vísar einfaldlega til þeirrar nefndar hagsmunaaðila, svokallaðrar ráðgjafarnefndar sem hann hefur skipað, og ætlar að vega og meta málin í ljósi þess sem frá henni kemur. Hún er ekki ákvarðandi aðili, hann er hið ákvarðandi vald í þessum málum. Þannig ætlar hann að smokra sér hjá því að upplýsa það hver hans vilji sé í þessu máli og hvernig hann ætli að fara með þetta vald, og ætti það þó ekki að vera ofætlan hans eftir þá ársreynslu sem við höfum fengið í þessu máli að taka á ekki stærri þætti en hér er um að ræða miðað við aflamagn.

Ég hef hér undir höndum drög að reglugerð um stjórn botnfiskveiða 1985, merkt III, sem hafa verið að ég hygg til skoðunar hjá sjútvrn. og væntanlegri ráðgjafarnefnd. (Gripið fram í.) sem trúnaðarmál? Hv. formaður sjútvn. Nd. upplýsir það hér, sem er alveg nýtt fyrir mig, að þessi drög að reglugerð um stjórn botnfiskveiða séu alveg sérstakt trúnaðarmál sem þurfi að fara mjög varlega með. Ja, heitt er nú málið. Ég vil staðhæfa það hér að þetta málsgagn er á engan hátt merkt sem trúnaðargagn. Er það rétt skilið að það hafi verið til meðferðar hjá ráðgjafarnefnd sjútvrn. sem vitnað er til í grg. með frv. eða hvaðan eru þessi drög runnin? Hver hefur samið þau? Ég vænti þess að ráðh. upplýsi það hér við umr. síðar. (Gripið fram í.) Það stendur ekki hér hvar þetta er samið en ég vona að þetta sé ekkert leyniplagg. (Gripið fram í.) Ég vænti þess að þetta sé ekkert leyniplagg, ég vænti þess að þetta sé málsgagn sem ekki sé lokað inni í sjútvn. þingsins heldur geti verið til umr. hér í sambandi við þetta mál. Það er nú að bíta höfuðið af skömminni í þessu máli ef ekki aðeins er ókleift að fá fram meginsjónarmið í sambandi við það hvernig haldið verði á því valdi sem hér er til umr. heldur jafnframt að það sem er í mótun á vegum sjútvrh. megi ekki upplýsa þingheim um. (Forseti: Mætti ég biðja hv. þm. að vera ekki með samtal.) Virðulegur þm. Stefán Guðmundsson, 5. þm. Norðurl. v., er hér með aðdróttanir í minn garð með frammíköllum og telur að hér sé um að ræða framför frá því sem verið hafi í minni tíð sem iðnrh. Ég hélt engum reglugerðum leyndum fyrir þd. sem voru til meðferðar í tengslum við lagasetningu sem ég var að fjalla um, það get ég fullvissað hv. þm. um, það gerði ég ekki.

En ég tel eðlilegt og ekkert trúnaðarbrot af minni hálfu að vitna til þessara draga — því sem drög er það merkt og er væntanlega á vinnslustigi — varðandi þau atriði sem ég er hér sérstaklega að fjalla um og brtt. liggja fyrir um hér innan þingsins. Ég get ekki ímyndað mér að þetta sé slíkt leyniplagg sem ég held hér á að það verði einhver héraðsbrestur þó að til þess sé vitnað í einstakri grein og það m.a. í ljós þess að það sem ég hef verið að ræða hér varðandi línuveiðarnar kemur fram í nál. meiri hl. sjútvn. í Ed.

Ég tek eftir því að í þessum drögum er sú hugmynd komin á blað í sambandi við línuveiðar að hluti af afla í umræddum mánuðum, janúar-febrúar og nóv.-desember reiknist ekki til aflamarks viðkomandi fiskiskips. En það stendur ekki hversu mikill hluti, það er þar ekki á blaði, um það segir ekkert, og ég leyfi mér hér að spyrja hæstv. sjútvrh. að því. Vill hann ekki upplýsa þingið um það hvað hann telur að gera beri í þessu samhengi? Hvernig eru undirtektir hans við einróma tilmælum frá sjútvn. Ed., því hann hefur lýst því hér yfir að hann vilji hlusta á sjútvn. þingsins, hvert er hans viðhorf til þeirra? Er hann reiðubúinn að lýsa því hér yfir að hann sé samþykkur þeim sjónarmiðum sem þar koma fram? Ég tel að þar séu lágmarkssjónarmið á ferðinni í sambandi við línuafla. Ég tel að hann bæri að undanskilja með öllu en hér er þó alltént stigið spor til móts við gild sjónarmið sem fram koma.

Ég spyr hæstv. ráðh. að því: Er hann reiðubúinn að lýsa því hér yfir að hann ætli að taka tillit til þessara sjónarmiða a.m.k. að því marki sem óskir liggja fyrir um frá meiri hl. sjútvn. Ed., og raunar allri sjútvn. þar, því undir þau sjónarmið var tekið af minni hl. ekki síður, hann vildi ganga lengra í þessum efnum, þ.e. að línuveiðar verði að hálfu utan kvóta umrædda fjóra mánuði? Ég tel aldeilis útilokað að ganga frá þessu máli hér í þinginu án þess að þetta liggi a.m.k. fyrir hvort hæstv. ráðh. vill ekki taka undir þessi sjónarmið. Ég tel vera um slíka vanvirðu að ræða gagnvart þinginu ef ekki er hægt að fá það fram hvaða viðhorf viðkomandi ráðh. hefur til þessa mjög þýðingarmikla máls fyrir þann hóp manna og byggðarlög þar sem línuútgerð er verulegur þáttur í afla.

Þá er það sá þáttur sem snýr að smábátunum. Fram kemur í nál. meiri hl. sjútvn. í Ed. að það mál hafi verið til umr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Vandi smábáta undir 10 rúmlestum, sem sæta sameiginlegu aflahámarki, var mikið ræddur í n. Hugmyndir komu fram um að heimila þessum bátum að afla sér aukakvóta á síðasta veiðitímabili. Ef þurfa þætti mætti einskorða slíkt aflaframsal við sjómenn sem hefðu smábátaútgerð að aðalatvinnu.“

Ég spyr hæstv. ráðh.: Er hann reiðubúinn að taka undir þessi sjónarmið meiri hl. sjútvn. í Ed.? Ég veit að minni hl. þar og í þessari hv. deild mundi taka undir slíkt spor, þótt lítið sé, en tillögur liggja fyrir um það að undanskilja handfæraveiðarnar kvóta og undir það sjónarmið tek ég fullum hálsi.

Ég sé það á þessum drögum að reglugerð um stjórn botnfiskveiða III að engar teljandi breytingar að ég fæ séð eru fyrirhugaðar skv. þeim drögum varðandi botnfiskveiðar minni báta, eins og þar segir í 5. gr., með leyfi forseta: „Bátar undir 10 brúttórúmlestum, sem stunda botnfiskveiðar, hafa sameiginlegt heildaraflamagn er skiptist þannig niður á tímabil.“ Og síðan er það flokkað eftir þorski og ýsu, sem þarna eru tekin inn í viðmiðunarmörkin á tímabil með svipuðum hætti fljótt á litið og var á þessu ári, þó að kvótinn sýnist vera aðeins rýmri, sem hér er settur á blað, heldur en var á síðasta ári. Þar segir einnig í framhaldi af tölum varðandi aflamark á þorsk og ýsu: „Fari afli báta undir 10 brúttórúmlestir fram úr ofangreindum mörkum á ákveðnu tímabili er rn. heimilt að stöðva veiðar þeirra báta um sinn.“ Hér er í rauninni hið nákvæmlega sama á ferðinni að séð verður eins og gilt hefur á þessu ári. Við vitum að veiðar smábáta voru stöðvaðar tvívegis, raunar þrívegis, á árinu vegna þess að þær rákust á við þau mörk sem ráðh. hafði sett með reglugerð 8. febrúar s.l.

Ég ræddi þessi mál hér við hæstv. sjútvrh. í fsp.-tíma í októbermánuði s.l. og nefndi þá ýmis atriði sem ég teldi vera sterk rök fyrir því að afli smábáta væri undanskilinn kvóta. Og ég sé það raunar að í grg. með sjálfu stjfrv. er tekið undir þetta sjónarmið þó það sé kannske ekki með beinum hætti, þar sem verið er að tína til meginrökin fyrir aflamarksfyrirkomulaginu. Ég vil lesa þá efnisgrein í heild sinni, hún er ekki löng, þannig að ekkert fari milli mála um hvað er að ræða:

„Þriðja ástæðan var sú, að aflamarksfyrirkomulagið tryggði betur en nokkur önnur leið við stjórn fiskveiða að sá afli, sem til skipta væri, dreifðist eins jafnt og réttlátlega á fiskiskip og byggðarlög og kostur væri á. Sóknartakmarkanir á fiskiskip fela í sér samkeppni um aflann þann tíma, sem þau mega vera á veiðum, og má leiða að því sterk rök að þorskaflahrotur þær, sem komu í Breiðafirði s.l. vetur og á Vestfjarðamiðum í sumar, hefðu leitt af sér mun ójafnari skiptingu fiskaflans en raun varð á, hefði sóknartakmörkunum verið beitt.“ Og síðan segir áfram: „Þannig hefur reynslan verið af veiðum smábáta undir 10 lestum sem fiska úr sameiginlegu heildaraflamarki. Aflasæld smábáta hefur verið mjög misjöfn við landið og því hafa takmarkanir á sókn bitnað harðar á einstökum landshlutum en öðrum. Því má segja að þessi röksemd um jafnari og réttlátari skiptingu fiskaflans með aflamarksfyrirkomulagi standist.“

Er þetta beinlínis tekið fram til stuðnings aflamarki á fiskiskip, að um verulega mismunun hafi verið að ræða í sambandi við smábátana þar sem það kerfi gilti ekki, heldur var veitt úr sameiginlegum heildarkvóta, skipt á fjögur tímabil.

Ég undrast satt að segja mjög þá ofstjórn sem felst í þeirri stefnumörkun að vilja ríghalda í það að smábátar, 10 brúttórúmlestir og minni, séu háðir kvóta. Fyrir þá ættu auðvitað að vera allt önnur og rýmri mörk. Það er furðulegt að menn skuli vilja halda þessum fleytum innan kvóta og með því fyrirkomulagi sem hlýtur að leiða til óánægju og mismununar, mjög verulegrar mismununar, þó það geti auðvitað verið misjafnt eftir árum hvernig til tekst um slíkt.

Bent hefur verið á það af sjómönnum sem stunda handfæraveiðar að þetta fyrirkomulag, veiði úr heildarkvóta, auki á öryggisleysi sjómannanna sjálfra, þeirra sem veiðiskapinn stunda. Menn eru að keppast við að sækja hlut frá hverri verstöð og á hverri fleytu innan viðkomandi tímabils og tefla þá gjarnan í meiri tvísýnu en væri ef þessi veiðiskapur væri utan kvóta, og einnig meiri en væri ef menn hefðu það í hendi sinni í viðkomandi byggðarlagi hversu mikið þeir mættu sækja og gætu þá haft um það samtök sín á milli með hvaða hætti væri staðið að slíku. Bent hefur verið á það af trillukörlum, svo að ég noti hér gjaldgengt orð, ég hygg víða á landinu, þ. á m. á Austurlandi, að illskárra væri að taka upp kvótaskiptingu á smábátana, annaðhvort landshlutakvóta eða beinlínis að setja aflamark á hvern skráðan bát. Menn mundu jafnvel una því betur en núverandi fyrirkomulagi og gætu þá hagað sínum veiðum út frá eigin hentugleikum og aðstæðum, eins og gerist með hin stærri skipin. Ég vil heyra sjónarmið hæstv. ráðh. til þessara hugmynda og tillagna sem fram hafa komið frá samtökum og hópum handfærasjómanna, trillukarla frá nokkrum stöðum á landinu. Mér finnst aldeilis ófært að við ætlum að ganga fram hjá þessum sjónarmiðum hér á Alþingi og láta bara eins og ekkert sé og ekki læra neitt af reynslunni og endurmeta ekki málið, þar sem það er nú ekki stærra en um er að ræða, miðað við aflamagn þessara báta sem færa þó oft mjög góðan fisk að landi og hafa mikla þýðingu í ýmsum verstöðvum. Það eru heilu byggðarlögin sem eru algjörlega háð slíkum veiðiskap. Við hæstv. sjútvrh. þekkjum þau vel úr okkar kjördæmi, þar sem svo háttar til m.a. vegna hafnleysu að menn gera ekki út á annað en smábáta, á trillur.

Ég vænti þess að við fáum hér svör við þessum atriðum. Ég teldi hæstv. ráðh. mann að meiri ef hann beitti sér fyrir því að hér yrðu teknar upp nýjar aðferðir, nýjar viðmiðanir í sambandi við smábátana og línuveiðina. Og helst hefði ég kosið, eins og fyrir liggur, að þessar veiðar væru með öllu undanskildar kvótanum. Ég treysti því að hæstv. ráðh. svari þessum efnum hér í umr. á eftir og ég er viss um að mönnum þætti það horfa til nokkurra bóta á annars slæmu frv. ef hér fengjust á nokkrar lagfæringar.

Hér hafa ýmsir alþm. nú þegar tekið þátt í umr. og bent á sterk rök sem mæla gegn þeirri tilhögun sem hér er upp tekin í lagasetningu. Þeir hafa ekki allir talað gegn stjórnunaraðgerðum, síður en svo sumir hverjir. Þar eru margir sömu skoðunar og ég, að við hljótum að hafa stjórn á okkar fiskveiðum og leita þar sem hagkvæmastra leiða. Aflamarksleiðin og sóknarmark að hluta eru aðferðir sem ég tel vel ásættanlegar ef þeim er beitt af sveigjanleika og hógværð og þær endurmetnar í ljósi fenginnar reynslu hverju sinni og þar fái Alþingi að komast að með sín sjónarmið.

Ég minni á sjónarmið sem fram komu hjá hv. 5. þm. Vestf. í sambandi við sölu á aflaleyfum, sölu á kvóta. Hann gagnrýndi það, og það fannst mér með réttu hjá hv. þm., að menn virtust farnir að líta svo á að fiskurinn í sjónum, hinar lífrænu auðlindir innan okkar fiskveiðilögsögu, væru orðnar háðar eignarhaldi takmarkaðs hóps manna. Ég held að þar séu á ferðinni gild sjónarmið og ég undrast það mjög að menn skuli ekki taka undir það sem sjálfsagðan hlut, þegar fjallað er um þessi efni, að því sé lýst yfir að auðlindir innan efnahagslögsögu okkar, hinar lífrænu auðlindir innan efnahagslögsögunnar og þar með talinnar fiskveiðilögsögunnar, séu sameign allrar þjóðarinnar, til þess að taka af öll tvímæli um þau atriði.

Ég bendi á þann annmarka varðandi smábátana til viðbótar því sem ég hef þegar nefnt að þeim hefur ekki gefist kostur á að kaupa kvóta, að fá viðbótarkvóta vegna þess að þeir eru undir heildaraflamarki. Þetta er auðvitað afskaplega ósanngjarnt miðað við það hvernig aðstaða annarra er í sambandi við útgerð sem háðir eru ákvæðum þessara laga sem nú eru í gildi.

Það kom fram hjá hv. þm. Birgi ísl. Gunnarssyni mjög sterk gagnrýni á efni þessa frv. Ég skal ekkert um það segja að hvað miklu leyti sjónarmið okkar hv. 4. þm. Reykv. falla saman í þessum efnum, hann úttærði sínar skoðanir ekki mikið, en ég get þó tekið undir ákveðna þætti í hans máli sem við hljótum að staldra við og íhuga í sambandi við lagasetningu af þessu tagi. Hann nefndi fyrst og fremst þrjú atriði sem hann taldi að gjalda þyrfti varhug við. Það er í fyrsta lagi breyting á eignauppbyggingu í sjávarútveginum. Við höfum tekið undir það, Alþb.-menn, að við teljum það óæskilega þróun að eignarhald fiskveiðiflotans, útgerðar í landinu safnist á hendur örfárra aðila. Við teljum mjög miklu skipta að það takist að viðhalda dreifðu eignarhaldi á okkar fiskiskipum, a.m.k. að þó nokkrum hluta, þannig að áfram verði hvati fyrir dugmikla og reynda sjómenn og þá sem vilja spreyta sig til þess að gera út, og á það náttúrlega sérstaklega við um báta og minni fiskiskipin. Mér finnst mjög gildar ábendingar hv. 4. þm. Reykv. í sambandi við áhrif þeirrar stjórnunar- sem hér er verið að taka upp á launauppbyggingu í sjávarútvegi. Það eru, eins og hann benti á, þegar umræður í gangi um þau efni, sem afar eðlilegt er og margir sjómenn taka undir það fullum fetum, að þarna verði að breyta mjög róttækt til í sambandi við launakjör þeirra, hverfa frá núverandi hlutaskiptakerfi yfir á fastlaunakerfi eða margfalda kauptryggingu sjómannanna frá því sem nú er, þannig að þeirra kjör séu ekki háð miklu meiri sveiflum, og það niður á við, heldur en annarra vinnandi stétta í landinu. Þetta er mjög eðlilegt að menn íhugi og hafi áhyggjur af.

Það eru sannarlega mörg áhyggjuefnin sem við blasa í íslenskum sjávarútvegi um þessar mundir og því miður hefur ekki gefist kostur á því að ræða þau sem skyldi hér á Alþingi á undanförnum vikum. Hér hefur t.d. ekki komið til umræðu frv. til l. um ráðstafanir í sjávarútvegi, sem þó er búið að vera á dagskrá hér á mörgum fundum í hv. deild, 188. mál þessarar deildar, þar sem verið er að leita heimilda sem ég hélt að áhugi væri á að fá lögfestar í sambandi við niðurgreiðslu á olíu til fiskiskipa. Ég hef ekki orðið var við að því máli þokaði hér mikið fram, en í tengslum við það er m.a. ástæða til að ræða marga þætti sem tengjast núverandi rekstrarvanda í sjávarútveginum og sem auðvitað grípa inn á þá þætti sem hér er verið að ræða um, skiptingu aflans, takmarkaðs afla milli skipa.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, nú í þessari minni ræðu að fara út í þau efni sérstaklega, en það getur þó verið ástæða til að ræða einstaka þætti þeirra hér síðar við þessa umr. og ég er þess albúinn að gera það og tel raunar ástæðu til að gera það, því það er í rauninni óhæfa að þingið fari í jólaleyfi frá sjávarútvegsmálunum í þeirri gífurlegu óvissu sem þau eru stödd í. Ég tel það mjög erfitt fyrir okkur þm. úr landsbyggðarkjördæmum, þar sem sjávarútvegur er burðarás í atvinnulífi eins og á Austurlandi og auðvitað mjög víða á landinu, Vestfjörðum og nyrðra, það er hægt að fara hálfan hringinn og meira en það, þar sem sjávarútvegurinn er alger burðarás og ástandið er nú ekki þannig því miður að við getum farið með mörg huggunarorðin héðan frá Alþingi. Við höfum ekki heyrt mörg huggunarorðin frá stjórnvöldum í sambandi við rekstraraðstæður í sjávarútveginum. Þar blasir við gífurleg óvissa. Og hún er áhyggjuefni manna og verður áhyggjuefni og umræðuefni manna meira en nokkuð annað í mörgum byggðarlögum á landinu þar sem menn eru nú með undirstöður atvinnulífsins, togskipin, undir hamrinum og í yfirvofandi hættu að missa þessa burðarása í útgerð viðkomandi staða. Við hljótum allir að hafa af því miklar áhyggjur.

Ég tel alveg einsætt að hæstv. ríkisstj. hefur alveg hlaupist undan þeim vanda, sem hún ætti að vera búin að taka á fyrir löngu síðan ef í henni væri einhver þróttur, að fjalla um og leggja fram tillögur af sinni hálfu um rekstrarvandann í íslenskum sjávarútvegi. Þær aðgerðir sem til eru komnar fram að þessu eru náttúrlega gersamlega ófullnægjandi. Það sér og viðurkennir hver maður nema kannske einstaka talsmenn ríkisstj. sem af einhverjum misskilningi eru að berja í brestina og reyna að láta sem þetta sé nú allt saman í skaplegu horfi, öllu sé að þoka fram til betri vegar. Ég get því miður ekki tekið undir að svo sé. Og ég held að ríkisstj. sé með mjög ótraust land undir fótum í sambandi við efnahagsstefnu og ákvarðanir um efnahagsmál komandi árs sem þó er verið að móta hér, að maður skyldi halda, í alvöru. En ég efast um að alvaran sé ýkjamikil þegar við blasir að rekstrarvandi aðalatvinnuvegar þjóðarinnar stendur jafnótraustum fótum eins og við þekkjum allir sem erum a.m.k. í einhverjum tengslum við útgerð og fiskvinnslustaði á landinu. Og það eru nú sem betur fer allnokkrir sem á Alþingi sitja.

Ég ætla að láta þetta nægja hér að þessu sinni, en vænti þess að hæstv. ráðh. komi hér fljótlega inn í umr. til að víkja að því sem ég hef til hans beint sérstaklega. Ég vil hvetja hæstv. ráðh. til að skoða þau tilmæli eins og þau eru fram sett af velvild í garð þeirra vandamála og viðfangsefna sem hann er að fást við. Þau eru ekki lítil og hann er ekkert of sæll af því að fást við málefni sjávarútvegsins, hafandi ekki meiri stuðning en virðist vera í þeim efnum innan núverandi ríkisstj. og því miður ekki uppburði til þess að leita eftir stuðningi annars staðar frá þar sem hann hefur verið boðinn með ákveðnum og skilmerkilegum hætti. Ég vona að hann nái áttum, helst á þessu ári. Lengi skal manninn reyna.