19.12.1984
Neðri deild: 35. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

150. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það virðist ætla að verða árlegur viðburður á hv. Alþingi að um það leyti sem jólasveinar eru sem óðast að koma af fjöllum til byggða eigi hv. þm. og hæstv. ráðh. andvökunætur yfir frv. til laga um fiskveiðilandhelgi Íslands. Þetta mál var til umr. á löngum fundum og ströngum hér í fyrra og einn þrándur í götu vegferðar þess í gegnum hv. Alþingi var það sem menn vildu kalla svaraleysi hæstv. sjútvrh. við ýmsum spurningum sem til hans var beint. Það stóð og stendur enn í hv. þm. að fela einum ráðh. það mikla alræðisvald í þessum mikilvægasta málaflokki þjóðarinnar þannig að um sé nær óúttyllta ávísun að ræða, þ.e. að hann falist eftir þessu valdi frá Alþingi án þess að gera í megindráttum grein fyrir því hvernig hann hyggst nota það.

Það er einkum tvennt í framkvæmd síðasta árs, sem menn hafa nú fyrir sér reynsluna af, sem hér hefur verið mjög til umr. og ég hlýt að fara nokkrum orðum um. Þar er þá í fyrsta lagi sú meðferð sem útgerðarmenn smábáta sættu af hálfu þeirra sem með fiskveiðistjórnun fóru á síðasta ári, sem sé hæstv. sjútvrh. og manna hans þar í rn., sem mjög hefur komið illa við menn og verið hér til umr. Ég er þeirrar skoðunar að þar sé á ferðinni ótrúleg smásmygli, ef ég má nota það orðalag, herra forseti, að gera útgerðarmenn smærri báta sérstaklega að utangarðsmönnum við stjórnun fiskveiða. Það er einfaldlega þannig að geta þeirra báta sem þar um ræðir er mjög takmörkuð til veiða og bundin svo miklum náttúrlegum takmörkunum að það á að vera auðvelt, að mínu mati, að áætla allnákvæmlega þá sóknargetu sem þeir búa yfir og þann afla sem þeir gætu dregið að landi í eðlilegu árferði með skikkanlegri sókn, og þó að eitthvað skeiki þar ætti það ekki að vera sú stærð í heildardæminu sem veltir neinu um hrygg.

Það liggur í eðli smábátaútgerðar að hún má mjög illa við takmörkunum sem þeim sem hún varð að þola á s.l. sumri og s.l. ári. Ég á við það að hún er í eðli sínu stopul, hún verður að sæta veðri og vindum. Það kemur líka til sá mannlegi þáttur sem er valdur að því að ákveðnir menn kjósa að stunda útgerð á smábátum t.d. fremur en að vista sig á stærri skip í þeim byggðarlögum þar sem hvort tveggja stendur þeim til boða. Ég vona að hv. þm. þekki það til sjávarútvegs og lífsins við sjávarsíðuna að það þurfi ekki að skýra það út fyrir þeim í hverju þessir félagslegu þættir eru fólgnir, fyrir utan hinar náttúrlegu takmarkanir.

Mér finnst einnig, herra forseti, að þær takmarkanir sem sjútvrh. setti á veiðar smábáta á til að mynda einu drýgsta veiðitímabili þeirra, síðsumars, séu allt of þungbærar fyrir þau byggðarlög sem eiga allt sitt undir og byggja allt sitt á þessum tegundum veiða. Ég vil nefna tvo staði, sem ég þekki báða nokkuð vel, annan í mínu kjördæmi. Norðurl. e., sem hefur þegar verið nefndur í umr., þar á ég við Grímsey, hinn í kjördæmi hæstv. sjútvrh., sem liggur hans megin við markalínuna milli Norðurlands og Austurlands, stutt frá minni heimabyggð, og þar þekki ég einnig vel til, en hér á ég við Bakkafjörð. Í báðum þessum byggðarlögum urðu menn að hverfa frá veiðum í sæmilegum reytingsafla vegna þess að það kom skeyti að sunnan: Gerið svo vel og hættið. — Hvað er með þessu sagt við þessi byggðarlög, þessi samfélög, sem telja í hvoru tilfellinu um 100 manns og þar af eru 60–70 starfandi við þetta á einn eða annan hátt? Það er einfaldlega sagt við þá: Leggið ykkar atvinnulífi í tvær, þrjár, fjórar vikur. Ég hefði gaman af því að vita hvað t.d. Davíð Oddsson borgarstjóri í Reykjavík segði ef honum bærist skeyti frá ríkisstj. þar sem sagt væri við hann: Stöðvið allt atvinnulíf í Reykjavíkurborg. Farið í frí í tvær, þrjár, fjórar vikur. Það væri í sjálfu sér alveg hliðstætt þó stærðarmunurinn sé þarna mikill. Á þessum stöðum snýst lífið um fisk og yfirleitt um saltfisk. Þess vegna er ekki eingöngu verið að segja nokkrum trillukörlum að fara í land, heldur verið að leggja við stjóra öllu atvinnulífi á þessum stöðum. Það er nú nokkuð mikið gert með einu skeyti. Ekki síst ef það kemur með litlum fyrirvara.

Menn velja sér störf af ýmsum ástæðum. Það liggur ábyggilega ýmislegt til grundvallar. Ekki er þar alltaf um alfrjálst val að ræða eins og margir þm. vildu þó gjarnan hafa það. Það geta komið til staðbundnar aðstæður, þeir séu aldir upp við slíkt og þekki ekki annað. En ég er alveg viss um að margir velja sér smábátaútgerð vegna þess að það er sú tegund atvinnustarfsemi sem þeim líkar. Þeir geta þar verið sínir eigin húsbændur, eru í náinni snertingu við náttúruna og geta ráðið dálítið yfir sínum vinnutíma, hagað sínum störfum í takt við ýmsar aðstæður, t.d. fjölskylduaðstæður, eða einhverja aðra starfsemi sem þeir hafa með höndum að hluta til. Þessum forsendum er kippt burtu ef þessi útgerð á að búa við takmarkanir hliðstæðar þeim sem lagðar voru á hana á síðasta ári. Þá eru ýmsar af grundvallarforsendunum sem ég tel vera fyrir því að menn fást við smábátaútgerð hringinn í kringum landið, þó að það þýði gjarnan minni tekjur og miklu óvissari tekjur en t.d. að vista sig í skipsrúm á stærri skipum, að mínu mati brostnar og það er mjög óheppilegt, sérstaklega vegna þess að ég tel að það sé óþarft og ástæðulaust. Það er hægt að gera við þessum veiðum með öðru móti en þessu. Það er smámunasemi að láta sig muna þarna um nokkur hundruð tonn fiskjar sem þegar er genginn á grunnslóð og mundi væntanlega ekki veiðast af smábátum annars.

Það hefur verið rætt hér einnig um aðra tegund krókaveiða, línuveiðar. Þar er ég í meginatriðum sammála mörgum hv. þm. sem hér hafa talað um að skynsamlegt væri að taka þær veiðar, a.m.k. að verulegu leyti ef ekki að öllu leyti, undan kvóta og stuðla þannig að því að það góða hráefni, sem í þeim veiðum fæst, bærist að landi í meira mæli. Línuveiðunum fylgja ýmsir kostir sem ég ætla ekki að fara að rekja hér fyrir hv. þm. sem enn eru að hlusta á þessar umræður. Ég vænti þess að þeir séu vegna þessarar þolgæði sinnar allir það miklir áhugamenn um sjávarútveg að það sé óþarft.

Það hefur vakið nokkra furðu mína, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. skuli sækjast í þeim mæli sem raun ber vitni eftir því valdi sem hann fer fram á með því að knýja á um að fá þessi lög samþykkt með þessum hætti. Það vekur satt best að segja furðu mína að hann skuli t. a. m. ekki vilja hafa fleiri með sér í ráðum en raun ber vitni, að hann skuli afþakka þá hugmynd, sem komið hefur hér fram bæði í fyrra og aftur nú, að fiskveiðistefnan væri mótuð af Alþingi í hvert skipti með þál., a.m.k. í grófum dráttum, þegar sérstakar ráðstafanir þarf að gera á annað borð, þ.e. ef menn telja að almenn löggjöf, sem staðið getur um eitthvert árabil, dugi ekki til, heldur þurfi að beita sérstakari aðgerðum í ljósi sérstakra aðstæðna. Ég tel að það sé eðlilegast, ef almenn rammalöggjöf um þetta mikla hagsmunamál dugar ekki til að mati Alþingis, að það móti þá sjálft fiskveiðistefnuna í grófum dráttum og aðstoði hæstv. sjútvrh. við að koma því máli farsællega í höfn. Ef þessi ávísun er undirrituð án þess að láta fylgja nokkrar skýringar við greiðsluna fer það í meginatriðum eftir því hvernig liggur á ákveðnum mönnum þegar vandamálin koma upp hvaða afstöðu þeir taka, sbr. dæmin frá í sumar, og það held ég að sé ekki heppilegt. Við verðum að athuga að á bak við þessar ráðstafanir er fólk sem á sína atvinnuhagsmuni að veði, á sína lífsafkomu undir þessu. M.a.s., eins og ég hef áður vikið að, eiga heil byggðarlög og heil samfélög allt sitt undir því að stunda fiskveiðar.

Það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að leiða hugann nokkuð að stöðu íslensks sjávarútvegs þessa dagana og þessar vikurnar: Það væri óeðlilegt í hæsta máta ef mál sem þetta færi í gegnum hv. Alþingi án þess að þm. veltu upp ýmsum spurningum í sambandi við stöðu sjávarútvegsins almennt í landinu.

Með þessum lögum og þessum aflatakmörkunum er verið að skammta fiskiskipum aflamagn sem er í mörgum tilfellum nokkuð undir getu viðkomandi skipa til veiða. Á sama tíma eru rekstrarskilyrði þessara skipa þannig, að þeim veitti ekki af því að mokfiska úrvalsfisk allt árið ef þau ættu að geta borið sig. Þetta eru nokkuð einfaldar staðreyndir sem ég held að öllum séu ljósar. Þess vegna er óhjákvæmilegt að inn í umr. um stýringu fiskveiða komi rekstrarstaða sjávarútvegsins vegna þeirra takmarkana sem auðsæilega er verið að leggja á skipin með þessum lögum.

Ég velti upp ýmsum spurningum þegar þetta mál var til umr. hér á hv. Alþingi í fyrra, herra forseti, og við ýmsum þeirra fékk ég lítil svör. Auðvitað hafa ráðstafanir hæstv. sjútvrh., svo sem sú grg. sem samin var um síðir, fylgjandi því lagafrv. sem gert var að lögum fyrir jólafrí þm. á síðasta ári svarað þeim spurningum, en þó ekki öllum. Reynslan hefur að nokkru leyti skorið úr um annað, en þó ekki allt. Mig langar því til, herra forseti, með þínu leyfi, að rifja upp nokkrar af spurningum mínum og væri ástæða til í leiðinni að rifja upp meðferð málsins hér á þingi í fyrra því það sýnir sig að sagan endurtekur sig. Hún er að endurtaka sig m.a. í því að hæstv. sjútvrh. þrumir þegjandi undir spurningum þm. um ýmis framkvæmdaatriði, um ýmis útfærsluatriði, og hyggst fá í hendur það vald sem margrætt er án þess að svara helst nokkru, í öllu falli sem minnstu, um ýmis praktísk framkvæmdaatriði í sambandi við stjórnun fiskveiða.

Staða málsins var þannig, þegar þetta var til 1. umr. í Nd. á síðasta þingi, að ekkert lá fyrir um hvers konar aflakvóta hæstv. sjútvrh. hygðist setja á grundvelli þeirrar lagaheimildar sem hann fengi. Þess vegna var fyrsta spurning mín til ráðh. á þeim tíma hvernig hann hygðist úttæra það stýringarkerfi sem hann ætlaði að setja á. Þm. máttu gera svo vel að afgreiða þetta frv. á síðasta þingi án þess að hafa fengið svar við þessari grundvallarspurningu.

Ég spurði hæstv. sjútvrh. einnig að því, hvaða hugmyndir væru uppi um að tryggja að þetta breytta fyrirkomulag aflastjórnunar leiddi ekki til aukins smáfiskadráps, til þess að lélegri fiski yrði hent úr aflanum í auknum mæli, til þess að tveggja og þriggja nátta fiskur kæmi ekki að landi, til þess að neðstu fiskarnir í stóru hífunum færu beint út aftur o.s.frv. Ég held að þeirri spurningu hafi ekki verið svarað á þessu ári að öðru leyti en því, að auðvitað hafa heyrst ljótar sögur um ýmislegt í þessu sambandi. Ég held þess vegna að enn sé sú spurning gild: Hvernig á að reyna að tryggja að það komi ekki fyrir að menn hendi úr afla sínum öllum þeim fiski sem ekki mundi flokkast vel eða a.m.k. sæmilega og fari og sæki sér meira þangað til kvóti þeirra er fylltur?

Það var spurt um sölu á aflakvóta í fyrra, hvernig ætti að deila honum milli skipa, hvort ætti að heimila óbundna sölu hæstbjóðanda o.s.frv. Hér var okkur ætlað að taka afstöðu til þessa máls á hv. þingi án þess að hafa nokkur svör um þetta atriði. Þau hafa að hluta til komið með reynslunni.

Það var spurt um siglingar fiskiskipa. Það lá ekkert fyrir um það, þegar þetta mál var rætt á Alþingi í fyrra, hvernig siglingar yrðu meðhöndlaðar í kvóta. Ég lýsti þeim áhyggjum mínum þá að svo kynni að fara, t.a.m. á síðari hluta ársins, að siglingar mundu færast mjög í vöxt á kostnað atvinnuöryggis í ákveðnum byggðarlögum vegna þess að þegar útgerðarmenn stæðu frammi fyrir því að vera búnir með mikinn hluta aflakvóta síns, eiga eftir marga mánuði af árinu, eiga gjarnan eftir verðminni tegundir fiskjar, sem skila litlu í vinnslu á landi en seljast sæmilega á ferskfiskmörkuðum, mundu skip þeirra sigla í auknum mæli og afleiðingin yrði atvinnuleysi í landi. Ég lít svo á að því miður hafi reynslan orðið þessi í mörgum tilfellum, hvað sem kokhreysti hæstv. sjútvrh. líður um að þetta hafi ekki valdið auknu atvinnuleysi svo teljandi sé. Ég gæti bætt mörgum stöðum við þá upptalningu sem ráðh. var hér með, t.a.m. Ólafsfirði og Raufarhöfn svo ég nefni aðeins þá sem ég þekki einna best til.

Það var þegar bent á það á hv. Alþingi í fyrra að koma kynni upp ákveðið misvægi milli landssvæða, milli vinnslustöðva og milli atvinnusvæða vegna þess að aflaskipting hefði ekki endilega verið á undanförnum þremur árum sú sem eðlilegust væri og ríkja mundi við jafnvægisaðstæður. Ég hygg að komið hafi fram að ákveðin svæði í ákveðnum landshluta hafi farið verr út úr þessari úthlutun en önnur.

Eðlilega höfðu menn áhyggjur af atvinnuástandi, hvernig þetta kæmi niður. Ég hef þegar vikið að því að ég held að þær áhyggjur hafi því miður verið réttmætar og gætu engu síður orðið það á næsta ári, jafnvel enn frekar.

Það var mikið spurt um hvernig tryggja ætti eftirlit með því aflastýringarkerfi sem sett yrði á. Ég held að það sé ástæða til að spyrja að því enn og aftur. Hvernig á að tryggja t.a.m. að ekki verði landað „fram hjá“ eins og það heitir? Skyldi aldrei hafa komið fyrir að þorskur hafi leynst undir ufsa í fiskhlössum, þegar landið hefur verið fiski hér og þar um landið á undanförnum mánuðum, eða annað þar fram eftir götunum?

Það var spurt hvort taka ætti eitthvert tillit til rekstrarstöðu einstakra útgerða og útgerðaraðila, t.a.m. hvernig skipakosti þeirra væri háttað og hvernig fjármagnskostnaður þeirra stæði. Ég hygg að reynslan og fréttir í fjölmiðlum undanfarna mánuði hafi svarað því að ástæða var til að hafa áhyggjur í þeim efnum og engu síður á komandi ári.

Þá var spurt um áhrif kvótakerfisins á þróun fiskverðs og setningu fiskverðs.

Þetta voru, herra forseti, níu af nokkru fleiri spurningum sem ég beindi til hæstv. sjútvrh. í fyrra — í tvígang reyndar vegna þess að í fyrstu lotu fengust svo sem engin svör. Auðvitað var stórt spurt. Það var ekki heldur ætlast til altækra svara, einungis að sjútvrh. lýsti þeim hugmyndum sem uppi væru í hans rn. og hjá honum um þessi mál á því stigi þegar þau voru hér til umr. Ég hefði talið gagnlegt, ef hann er þá betur undirbúinn hafandi haft heilt ár í viðbót til að velta þessum málum fyrir sér, að hann lýsti því fyrir þingheimi í almennum orðum hverjar grundvallarhugmyndir ætti að móta að þessu leyti.

Ég hef rifjað þessar spurningar upp hér, herra forseti, til að minna á hvernig staðið var að setningu hliðstæðra laga á hv. Alþingi á síðasta ári, en einnig vegna þess að ég tel að þær séu flestar gildar enn í dag. Eins og ég sagði hér áðan ætlar sagan að endurtaka sig. Fátt verður um svör af hálfu hæstv. ráðh. Hann hefur verið spurður ítrekað hvernig hann hyggist meðhöndla línuveiðar, að hve miklu leyti þær eigi að vera utan kvóta eða hvort og það hefur verið mikið spurt um hvort útgerðarmenn smábáta megi vænta svipaðrar meðferðar á næsta ári og þeir urðu fyrir á þessu. Ég hlýt að endurtaka og ítreka þessar spurningar, eins og margir hv. ræðumenn hafa þegar gert á undan mér, og ég geri það hér með, herra forseti, og ég vonast til þess að hæstv. ráðh. láti ekki mjög marga tíma líða, ef það á fyrir þessum fundi að liggja að lengjast svo sem því svarar, án þess að koma hér og greiða fyrir umr. með því að skjóta inn einhverjum svörum.

Það er nú svo, herra forseti, að ýmsir af þeim agnúum sem menn þóttust sjá á þessu fyrirkomulagi aflastýringar, þegar það var til umr. á hv. Alþingi í fyrra, voru sniðnir af því á útmánuðum t.a.m. Ég vil að hæstv. sjútvrh. eigi fullan heiður af því sem þar var vel gert. Þar var m.a. brugðist við ýmsu af því, sem til umr. var á hv. Alþingi fyrir jólafrí, á einn eða annan hátt. En aðrir agnúar voru ekki af því sniðnir. Ég tel að einna verst hafi til tekist, svo ég komi að því aftur, um meðferðina á smábátunum. Ég endurtek að mér finnst það satt að segja alveg ótrúleg smámunasemi að reka trillukarla heim af miðunum á haustdögum vegna þess að þeir gætu hugsanlega reytt upp einhverja tugi tonna fram yfir einhverja heilaga tölu sem ákveðin hefur verið í rn. hér fyrir sunnan — og þær reynast stundum dálítið ónákvæmar tölurnar þegar verið er að færa þær til og frá. Þess vegna og einmitt þess vegna finnst mér það sérstaklega smásmugulegt að þessi hluti útgerðarinnar í landinu er svo hverfandi lítið brot og gengur trúlega best allra veiða um þá auðlind sem fiskstofnarnir í hafinu eru. Ég get tæplega ímyndað mér að aðrir komist með tærnar nema svo sem eins og þangað sem handfæraveiðar hafa hælana í því að ganga vel um þessa fiskislóð. Þess vegna endurtek ég að ég heiti á hæstv. sjútvrh. að vera rausnarlegri í sér hvað þessa menn varðar.

Ég hefði sömuleiðis, eins og þegar hefur komið fram í máli mínu, talið það verulega til bóta ef línuveiði hefði verið leyst undan kvóta að einhverju eða öllu leyti. Ég tel það, herra forseti, ákaflega óheppilegt og óeðlilegt stjórnskipunarlega séð að löggjafarþing þjóðarinnar framselji með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um vald í hendur eins ráðh. Ég endurtek að ef móta þarf fiskveiðistefnu tímabundið vegna sérstakra aðstæðna með lögum hverju sinni er eðlilegast og réttast að Alþingi sjálft geri það, hafi um það í megindráttum úrslitaorðið hvernig að því verði staðið í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru hverju sinni. Sýnt hefur verið fram á að það er auðvelt að koma því þannig fyrir. Tímatafla þjóðarinnar leyfir að hv. Alþingi, með upplýsingar í höndum frá rannsóknastofnunum, móti þessa fiskveiðistefnu með t.a.m. þáltill. frá Alþingi fyrir áramót hverju sinni.

Ekki er hægt að segja, herra forseti, að það sé jafnhreint og fagurt um að litast í sjávarútvegsmálum þjóðarinnar og það er að horfa út yfir jólasnjóinn sem liggur á Austurvelli. Það eru miklu meiri skuggar í sjávarútvegsmálunum en þar eru, jafnvel þó að nú sé nótt á Austurvelli.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir flutti hér á Alþingi í fyrra sérstaka till. um þingkjörna nefnd vegna þeirra aðstæðna sem uppi voru í sjávarútvegsmálum. Þar var gerð tillaga um að þm. kæmu sér saman í nefnd, allra flokka menn að sjálfsögðu og vonandi þá fulltrúar sem flestra sjónarmiða og flestra landshluta, og ynnu ákveðna grundvallarvinnu í ljósi þess vanda sem við er að etja og var að etja þá í þessum atvinnuvegi. Ég hygg, herra forseti, að hefði sú till. fengið brautargengi hér og þeirri vinnu væri nú þegar lokið eða hún a.m.k. vel á veg komin væri betri staða hér á Alþingi til að taka á þessu máli en nú er. Till. var endurflutt lítið breytt á Alþingi í haust. Henni var ekki sýnd meiri virðing en svo af hálfu hv. þingnefndar sem um hana á að fjalla að hún lá þar óhreyfð í margar vikur á meðan þetta mál var í brennidepli í þjóðfélaginu. Ég held að Alþingi geti ekki hælt sér af slíkum vinnubrögðum, herra forseti. Þau hafa a.m.k. orðið mér nokkur vonbrigði. Ég átti von á því að meiri vilji væri fyrir hendi hjá þm. yfirleitt, hvort sem þeir tilheyra stjórn eða stjórnarandstöðu, til að vinna sameiginlega að þessu máli. Ég vek athygli á því að till. hlutu í bæði skiptin jákvæð ummæli ýmissa þm., bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu. Hæstv. sjútvrh. taldi að vísu í bæði skiptin að þær væru algerlega óþarfar, þetta væri allt í góðum höndum hjá honum. Það er skoðun ráðh. og kemur fram æ ofan í æ að málin séu alltaf í bestum höndum hjá honum, það sé einfaldast og eðlilegast og heppilegast fyrir alla að hann sé með þetta í sínum höndum, það þurfi hvorki þingnefndir né aðra til að vasast í því. Þess vegna held ég að það sé rétt hjá þeim hv. þm. sem oft hefur verið vitnað til hér, sennilega oftast allra þm., margspakra, sem rætt hafa þessi mál, ég á hér við 5. þm. Vestf. hv. Ólaf Þ. Þórðarson, sem orðaði það efnislega eitthvað á þá leið að þessu mætti öllu koma fyrir í einni setningu: Ráðherra ræður og setur ítarlegri reglugerð um framkvæmd þeirra mála.

Ég er á móti því að Alþingi Íslendinga standi þannig að lagasetningu, hvort sem það er fyrir þessi jól eða önnur, að sagt verði um mikilvægasta atvinnuveg þjóðarinnar: Alþingi Íslendinga hefur ákveðið að ráðh. skuli ráða þessu eins og hann vill með það fara og hafa það í sínum höndum. Mér fannst skörin líka færast upp í bekkinn þegar ráðh. ætlaði ekki einu sinni að láta sér duga að fá þessa heimild til eins árs í senn, heldur fór fram á í því frv. sem lagt var fram fyrst í haust að fá hana a.m.k. út kjörtímabilið þannig að hann þyrfti ekki oftar að spyrja Alþingi eins né neins í þessum efnum, hann einfaldlega ráði. Stjórnskipunarlega séð tel ég að slíkt sé rangt, herra forseti. M.a. á þeim forsendum, og þó þær væru einar, get ég illa sætt mig við það frv. sem hér hefur verið til umr. og verður sennilega eitthvað enn, herra forseti.