18.10.1984
Sameinað þing: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

12. mál, leit að brjóstakrabbameini

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að flytja till. til þál. sem er 12. mál þessa þings á þskj. 12 og er um kerfisbundna leit að brjóstakrabbameini hjá konum. Meðflm. mínir að till. eru hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. En till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á heilbrrh. að tryggja það að komið verði á kerfisbundinni leit að brjóstakrabbameini hjá konum með brjóstamyndatöku (mammografi).

Lagt er til að þessi hópskoðun verði hafin eins fljótt og unnt er.“

Brjóstakrabbamein er langalgengasti illkynja sjúkdómur meðal kvenna hér á landi eins og víða erlendis og tíðni sjúkdómsins eykst stöðugt. Á Íslandi greinast nú um 70–90 konur á hverju ári með þennan sjúkdóm, en búast má við því að um 13. hver kona fái hann á lífsleið sinni. Nýgengi sjúkdómsins hefur aukist úr 36.8% af hverjum 100 þús. konum á árunum 1951–1955 upp í 58.2 af hverjum 100 þús. konum á árunum 1976–1980 eða um nær 60%. Dánartíðnin hefur hins vegar staðið nokkurn veginn í stað síðustu ár, en það deyja um 25 konur á ári úr þessum sjúkdómi.

Bætt tækni síðustu áratuga við skurðaðgerðir og geislameðferð, auk lyfjameðferðar, hefur því miður ekki aukið verulega batahorfur sjúklinga. Það sem virðist hins vegar hafa úrslitaþýðingu, eins og við flestar aðrar tegundir krabbameina, er stærð æxlisins þegar það er greint og hvort það hefur náð að breiðast út. Meginatriðið til að lækka dánartíðni er að finna æxlið snemma meðan það er enn lítið og staðbundið. Skoðun með þreifingu hefur verið mikið notuð, bæði við hópskoðun og eins við sjálfsskoðun, en þessi aðferð er bæði óörugg og ófullnægjandi til að finna mjög lítil æxli.

Margt bendir til þess að skipuleg leit meðal kvenna þar sem teknar eru röntgenmyndir af brjóstum lækki dánartíðni af völdum brjóstakrabbameins meðal kvenna. Í rannsókn á stórum hópi kvenna í New York, þar sem notuð var bæði þreifing og röntgenmyndataka, varð um 38% lækkun á dánartíðni fyrstu 5 árin. Í nýrri rannsókn í Hollandi, þar sem báðum aðferðum er beitt, kemur fram enn meiri lækkun á dánartíðni eftir 7 ár eða um 50%. Í rannsóknum sem nú standa yfir bæði í Hollandi og Svíþjóð, þar sem eingöngu er notuð brjóstamyndataka, greinast meira en helmingi fleiri krabbamein en finnast mundu við fyrstu hópskoðun með þreifingu einni saman og jafnmikið og greinst hefði á þremur árum án hópskoðunar.

Við brjóstamyndatöku finnast um 60–70% af æxlum á fyrsta stigi, þ.e. án meinvarpa, en við venjulega læknisleit finnast meinvörp í 70% tilfella. Álitið er að meðal kvenna sem finnast með brjóstakrabbamein á 1. stigi lifi meira en 90% þeirra lengur en 10 ár. Meðal kvenna sem finnast með sjúkdóminn á 2.–3. stigi er dánartíðnin eftir 5 ár 50~0%. Framangreindar niðurstöður benda eindregið til þess að draga megi mjög úr meðferðar- og sjúkraliðskostnaði með því að finna brjóstakrabbamein þegar á fyrsta stigi.

Röntgenmyndataka af brjóstum má teljast hættulaus rannsókn þar sem geislaskammtur er mjög lítill og rannsóknin er nánast óþægindalaus.

Árið 1981 fól þáv. heilbrmrh. landlækni að kalla saman vinnuhóp sérfræðinga sem fékk það hlutverk annars vegar að gera áætlun um hvernig haga bæri allsherjarleit að brjóstakrabbameini með brjóstamyndatöku fyrir ákveðna aldurshópa kvenna hér á landi og hins vegar gera áætlun um þann kostnað sem þessu mundi verða samfara. Þessi vinnuhópur var kallaður Mammografíunefndin. Í henni hafa átt sæti Gunnar Hall frá fjárlaga- og hagsýslustofnun, Hrafn Tulinius prófessor og yfirlæknir krabbameinsskráningar Krabbameinsfélags Íslands, Kolbeinn Kristófersson fyrrv. prófessor og yfirlæknir röntgendeildar Landspítalans, Kristján Sigurðsson yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins, Ólafur Ólafsson landlæknir, Skúli Johnsen borgarlæknir og Sigurður Björnsson sérfræðingur í lyflækningum krabbameina.

Í apríl 1984 var haldinn á Íslandi alþjóðlegur fundur um gildi hópskoðunar til að greina brjóstakrabbamein á frumstigi. Fundurinn var haldinn á vegum landlæknisembættisins, Krabbameinsfélags Íslands og Alþjóðakrabbameinsstofnunarinnar í Lyon í Frakklandi. Á grundvelli þeirra niðurstaðna sem fengust á fundinum hefur Mammografíunefndin lagt til eftirfarandi:

1. Ráðlegt er að hefja nú þegar undirbúning að kerfisbundinni leit að brjóstakrabbameini á Íslandi. Lagt er til að öllum konum á aldrinum 40–69 ára verði boðin skoðun á tveggja ára fresti. Auk þess er lagt til að allar konur 35 ára verði skoðaðar einu sinni til þess að fá viðmiðunarmynd til samanburðar við seinni rannsóknir.

2. Við teljum eðlilegt að þessi rannsókn, þ.e. brjóstamyndataka, tengist leghálskrabbameinsrannsókn Krabbameinsfélags Íslands og verði því framkvæmd af félaginu.

3. Áætlaður kostnaður á ári við skoðun um 15 000 kvenna með brjóstamyndatöku er 7–8 millj. kr. Húsnæði mun vera fali til að framkvæma þessa rannsókn í hinu nýja húsi Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð 8 og mundi rannsóknin hefjast smám saman eftir því sem aðstaða byggðist upp.

Eðlilegt og sjálfsagt er að reka þessa leitarstarfsemi í tengslum við þá leit að leghálskrabbameini sem þegar fer fram á vegum Krabbameinsfélagsins. Er í því sambandi vert að minnast á hinn mikla og góða árangur sem orðið hefur hér á landi í leit að leghálskrabbameini og greiningu þess á frumstigi. Hefur hann leitt til þess að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin valdi Ísland sem fyrirmyndarland fyrir aðrar þjóðir til eftirbreytni á þessu sviði. Er það ekki síst að þakka ötulu starfi brautryðjenda eins og Guðmundar heitins Jóhannessonar læknis, en mig langar að vitna til skrifa hans á árinu 1981 í tímaritið Heilbrigðismál, með leyfi forseta. Guðmundur segir:

„Ég tel að taka eigi upp brjóstaskoðanir með mammógrafíu á öllum konum 35 ára og eldri annað hvert ár. Yrði byrjað á Reykjavíkursvæðinu og konur á landsbyggðinni rannsakaðar á sama hátt samtímis og leghálsleitin væri framkvæmd. Það er ánægjulegt til þess að vita að heilbrigðisyfirvöld hafa sýnt þessu máli áhuga. Fljótlega verður skipuð nefnd til að gera tillögur um skipulega leit að brjóstakrabbameini með röntgenmyndatökum. Með það í huga hve margar konur deyja úr brjóstakrabbameini er ljóst að allt verður að gera sem unnt er til að flýta greiningu meinsins og auka þannig lífslíkurnar.“

Þess skal getið hér að takmörkuð hópskoðun með brjóstaröntgenmyndun hefur verið framkvæmd á röntgendeild Landspítalans síðan 1973. U.þ.b. 2000 konur hafa verið sendar þangað á hverju ári eftir að skoðun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins hefur leitt í ljós grunsamlegar breytingar. Þetta er þó aðeins lítið brot miðað við almenna hópskoðun með röntgenmyndatöku.

Í febr. s.l. undirritaði hæstv. heilbrmrh. fyrir Íslands hönd samning um forvarnarverkefni á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Kaupmannahöfn. Þarna er um að ræða samvinnuverkefni tíu Evrópuþjóða um forvarnir gegn ýmsum sjúkdómum, m.a. krabbameini. Það er tímanna tákn því að heilsuvernd nútímans og framtíðarinnar stefnir sífellt meira frá því að vera dýr viðgerðarþjónusta í þá átt að koma í veg fyrir sjúkdóma með fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum eða að öðrum kosti að greina þá og meðhöndla á byrjunarstigi.

Í þeim rekstrarkostnaði sem ég nefndi áðan upp á 78 millj. kr. er innifalinn stofnkostnaður, en afskrift tækja dreifist á u.þ.b. fimm ára tímabil. Er þá miðað við tæplega 500 kr. kostnað á hvern einstakling sem fer í skoðun. Það er vert að geta þess hér að áætlaður rekstrarkostnaður á ári við slíka skoðun mun jafngilda þeim kostnaði sem bundinn er við það að reka 5–10 sjúkrarúm á ári.

Með því að greina snemma krabbamein í brjósti kvenna er unnt að bjóða þeim upp á vægari, mannúðlegri og árangursríkari meðferð. Þar sem brjóstakrabbamein er algeng dánarorsök kvenna allt að 55 ára aldri og veldur dauða um 25 íslenskra kvenna árlega er hér um augljóst og mikilvægt réttindamál kvenna að ræða að draga úr dánartíðni af völdum þessa sjúkdóms.

Ég treysti því að hæstv. heilbrmrh. og hv. þm., þó að þeir sitji ekki margir hér við þessa umr. og hlusti á, því miður, sýni þessu máli verðskuldaðan skilning og velvilja og tryggi það að þessi hópskoðun verði hafin eins fljótt og unnt er.